The Mist

The Mist hefur allt sem ég vil fá út úr góðri B-hrollvekju og svo miklu, miklu meira. Til að byrja með þá er spennan mikil, andrúmsloftið taugatrekkjandi, ofbeldið mátulega subbulegt, klisjur fáar sem engar og atburðarásin stanslaust ófyrirsjáanleg. Þessir kostir hefðu dugað til að tryggja traustum meðmælum á kvikindið en í þokkabót fáum við vel skrifað handrit, athyglisverða karaktera, raunsæjar og vægast sagt óþægilegar persónudeilur, frábæran leik og einhvern djarfasta endi sem ég hef nokkurn tímann séð frá þekktum leikstjóra. Hann er einnig með því grimmasta sem myndin hefur að bjóða upp á og það er ansi mikið sagt.

Þetta er alls ekki mynd sem mun leggjast vel í hvern sem er. Hún spilast ekki út eins og hefðbundnar hrollvekjur í dag (sem er gott) og viðbrögð þín við endinum munu líklegast segja mikið til um hvað þér finnst um hana í heild sinni. Mér finnst líklegra að harðir kvikmyndaunnendur eigi eftir að kunna betur að meta hana heldur en þeir sem horfa ekki mikið á bíómyndir. Myndin er bara svo stútfull af alls konar þemum, lúmskum gáfum og senum sem fara svo langt út fyrir hefðir og formúlur að margir meðaljónar eiga eftir að spyrja sig: „Bíddu, er þetta leyfilegt??“

Frank Darabont hristir af sér miðjumoðið sem hét The Majestic og kemur með enn einn Stephen King-gullmolann sem á alveg skilið að sitja á sömu hillu og Shawshank og Green Mile (The Mist myndi ég jafnvel flokka sem næstbestu mynd Darabonts – á eftir Shawshank þ.e.a.s). Ólíkar myndir að sjálfsögðu, en Darabont er langt frá því að vera út fyrir sitt þægindasvæði þar sem hann hóf ferilinn sinn við það að skrifa hryllingsmyndir (þ.á.m. hina bráðskemmtilegu The Blob, frá ’88). The Mist gæti ekki verið meira tilvalið verkefni handa honum þar sem hún svalar þorsta hryllingsmyndanördans í honum og byggist á enn einni Stephen King-smásögunni. Enginn leikstjóri hefur nokkurn tímann meðhöndlað efni eftir þennan höfund jafn vel, og ástæðan fyrir því að Shawshank og The Mist virka svona vel er sú að smásögurnar eru fullkominn grunnur að efni sem hann stækkar með algerum stæl. Endirinn á þessari mynd er t.d. viðbót sem tilheyrði ekki upprunalegu sögunni og hann hækkar einkunnina um alveg heilt stig.

Sagan virkar samt svo vel vegna þess að þú getur auðveldlega sett þig í spor aðalpersónanna, og myndin gerir það einmitt fyrir þig. Sögusviðið er líka mjög einfalt (fullt af fólki innilokað í matvöruverslun – óbærileg þoka úti – stórir gluggar – Allt getur gerst! Bæði úti og inni) og spennan byggist mjög mikið í kringum hræðslu persónanna. Það er líka vel séð til þess að manni líði aldrei eins og neinn sé óhultur. Við vitum að það eru skrímsli úti í mistrinu en stjórnlaus hræðsla fólks getur leitt til margt óhugnanlegra, og satt að segja var ég hræddari við mannfólkið heldur en skepnurnar.

Darabont er heldur aldrei óáreiðanlegur þegar kemur að trúverðugum leik enda eru góð leiktilþrif eitt af mörgu sem einkenna myndirnar hans. Með hjálp þeirra verða hina átakanlegustu senur mun erfiðari til áhorfs og í tilfelli myndar eins og The Mist verður hún stöðugt meira ógnvekjandi og erfið því betur sem leikararnir standa sig. Hver og einn stendur sig óaðfinnanlega, og ekki nóg með það heldur skilja flestir eitthvað eftir sig. Thomas Jane, Laurie Holden, Andre Braugher, Toby Jones (sem tileinkar sér LANGbesta atriði myndarinnar. Trúið mér, þið munuð klappa!), William Sadler, krakkinn… bara bókstaflega allir standa sig eins og (skíthræddar) hetjur. Það er samt ekki hægt að tala um þessa mynd – hvorki á góðan né slæman hátt – án þess að minnast á Marciu Gay Harden. Það er heldur ekki skrítið vegna þess að hún býr til einhvern hatursverðasta karakter sem ég hef á ævi minni séð í bíómynd (jább, frá upphafi!), og sjaldan hefur mig langað eins mikið til þess að segja „haltu kjafti, kona!“ og þegar ég sá þessa mynd. Leikkonan er meiriháttar og í mínum huga er Mrs. Carmody – persónan hennar – mesta ófreskjan í allri myndinni. Hún gerir líka hlutina af ásettu ráði á meðan hugsunarháttur skepnanna nær líklegast ekki lengra en að ná sér bara í mat.

Í fáeinum senum er rosalega erfitt að hrósa tölvubrellunum. Stundum líta þær bara prýðilega út en í öðrum tilfellum er dálítill „camp“ fílingur á þeim. Samt, miðað við hvers konar mynd þetta er spyr maður sig hvort það hafi ekki bara verið ætlunin (upprunalega plan leikstjórans var að hafa myndina alveg svart-hvíta!). Engu að síður eru nokkur tilfelli þar sem gervilegu brellurnar draga mann pínulítið úr atriðunum, og það er aldrei gott. Sem betur fer gerist það hrikalega sjaldan. Oftast eru líka aðrir hlutir sem bæta þetta upp.

Þegar á heildina er litið er The Mist úrvalshrollvekja sem veit alveg hvað hún vill vera. Hún heldur manni við efnið, fríkar mann út á réttum stöðum og sparkar sjúklega fast í magann á þér í lokasenunni. Hún er líka ein af örfáum nýlegu myndum sem ég veit um sem notar bregðusenur sparlega og á áhrifaríkan hátt í stað þess að fylla upp í þagnir og fá meikaðar stelpur undir lögaldri til þess að öskra hástöfum. Maður vill maður nánast að Darabont endurgeri allar King-sögurnar sem hafa farið úrskeiðis í kvikmyndaaðlögun, og þrátt fyrir minniháttar galla er myndin fjandsamlega nálægt því að kallast meistaraverk í bókinni minni.

brill
PS. Reddið ykkur Blu-Ray útgáfunni og sjáið alla myndina svart-hvíta, eins og leikstjórinn vildi fyrst hafa hana (en fékk ekki leyfið til þess). Það lúkk gefur henni þennan magnaða ’60s fíling sem styrkir áhorfið og felur sum staðar “slakari” brellurnar.

Besta senan:
Toby kemur til bjargar. Þetta er mómentið sem er þekkt fyrir að hafa fengið fólk út um allan heim klappa í bíósalnum. Svo segja a.m.k. sögurnar.

Sammála/ósammála?