Arthur Christmas

Ég ætla ekki að segja að ég sé harður aðdáandi þeirra hjá Aardman Animations en engu að síður hef ég nokkuð gaman af flestu sem þeir hafa gert. Þeir leggja gríðarlega mikla vinnu í það sem þeir gera og þar að auki er breski húmor þeirra fantagóð hliðstæða við allt þetta sem blæs frá Bandaríkjunum, ekki síst hvað tölvuteiknimyndir varða. Ef ekki væri fyrir þátttöku þessara bresku fagmanna í verkinu gæti ég ómögulega sagt að Arthur Christmas líti vel út úr fjarska. Það gerist nú fátt ófrumlegra í jólamyndageiranum en sögur um ólíklegar skyndihetjur, hvað þá þegar aðalpersónan er beintengd inn í fjölskyldu sveinka. Ætli Fred Claus hafi ekki bara skilið eftir svona slæmt eftirbragð?

Öll mín náttúrulega svartsýni ýttist til hliðar þegar myndin var nýbyrjuð. Hún var alls ekki lengi að vinna mig á sitt band, og það gerði hún með óaðfinnanlegri grafíkvinnslu (þar sem kameruhreyfingar tölvunnar njóta sín alveg í botn) og skemmtilegu handriti sem tekur nokkuð snjallan vinkil á verkskipulag jólasveinsins og hvernig rútínan liti út í tæknivæddari búningi. Á tímum þar sem stafrænan búnað er að finna í hverju einasta herbergi flestra húsa hefur sjaldan sést eins fersk túlkun á norðurpólnum í teiknimynd og öruggt er að segja að þessi mynd toppi sig aldrei eftir fyrstu tíu mínúturnar.

Myndin heldur að vísu fínum dampi. Ekki frábærum en mjög fínum. Þegar loksins kemur í ljós um hvað sagan snýst er um að ræða ansi hefðbundið og þunnt kapphlaup við tímann. Og þrátt fyrir að handritið nái að mjólka einhverja smáspennu út úr þessu, þá er afgangur myndarinnar frekar fyrirsjáanlegur og dæmigerður. Það er samt betra að fá sögu sem safnar saman klisjum og setur hana í nýjan búning með reglulegum húmor í stað þess að smala einungis bara saman formúlunum.

Krakkar munu samt elska þessa mynd og fullorðnir ættu að kunna að meta falda húmorinn og flottu framsetninguna þótt þunna innihaldið segi dálítið til sín í kringum miðjuna. Þessu er svo öllu vafið saman í dúnmjúkan boðskap sem er ekki bara hlýr heldur brennheitur og logandi. Alla vega, ef þú ert jólabarn er varla séns á öðru en að þessi mynd kæti þig talsvert, og ég sé ekki betur en að hún eigi sér langt líf sem ein af þessum fjölskylduvænu jólamyndum sem á skilið áhorf með reglulegu millibili. Fyrst að The Grinch komst í jólauppáhald, hví ekki Arthur Christmas?

Besta senan:
Nokkuð augljóst, rétt?

Sammála/ósammála?