Arthur (2011)

Ég er ekki á móti endurgerðum nema þegar þær eru í hættu á því að skemma eitthvað íkonískt eða þegar þær hafa ekkert merkilegt til að bæta við gamla efnið. Seint mun ég segja að upprunalega Arthur-myndin hafi verið eitthvað æðisleg, en ég get þó sagt að sú mynd hafi algjörlega verið í eigu Dudleys Moore, þrátt fyrir óþolandi hlátur. En tilhugsunin að sjá einhvern annan í því hlutverki sem hann gerði minnisstætt væri næstum því eins og að sjá einhvern annan en Peter Sellers leika Bleika pard… æ já, alveg rétt. Djöfullinn!

Russell Brand er ekki leiðinlegur grínisti og hann sýndi það í Get Him to the Greek að hann kynni að vera alvarlegur inn á milli fíflalátanna. Verst er samt að hann er oftast fenginn til að leika sjálfan sig, og í þessari Arthur-endurgerð sá ég aldrei neinn annan en Russell Brand sem væri búið að tóna talsvert niður. Ég get svosem lifað með það þótt þessi grófari er án efa skemmtilegri en stærsti feill myndarinnar er einfaldlega tilvist hennar. Betra hefði verið að búa til einhverja allt öðruvísi bíómynd fyrir Brand til að leika barnalegan milljónarmæring vegna þess að þessi mynd breytir hvort eð er ýmsu en fer samt nógu mikið eftir uppruna sínum til að verða ekki að neinu öðru en klisjukenndri og fyrirsjáanlegri Hollywood-froðu, og hún gerir tilraunir til þess að vera sjarmerandi en verður bara þreytandi í staðinn.

Brand er auðvelt skotmark og ég held að hann fari létt með að fara í taugarnar á mörgum. Ég hef enn smá trú á manninum þótt hann hafi ekki gert mikið til að bjarga þessum nýja Arthur. Það er samt ekki Brand að kenna að myndin virkar ekki, heldur iðjulausa handritinu og áhugalausri leikstjórn, og það að sjálfsögðu veldur því að myndin verður aldrei nokkurn tímann fyndin. Hún fékk mig til að brosa stöku sinnum en flestöll „kómísku“ atriðin féllu beint í gólfið, og oftar en ekki leið mér eins og myndin hefði ekki einu sinni áhuga á því að vera fyndin (sem er sárt þar sem henni er leikstýrt af manni sem gerði haug af bráðfyndnum Modern Family-þáttum). Hún vill vera viðkunnanleg, afslöppuð og krúttleg. Ekkert af þessu virkar, og hvað fáum við þá í staðinn? Kvikmynd sem gegnir sama hlutverki og svefntöflur. Ég tel það samt persónulegan sigur fyrir mig að haldast vakandi.

Helen Mirren og Luis Guzmán gera sitt besta til að gera myndina betri og ég væri að ljúga ef ég segðist ekki vera dálítið skotinn í Gretu Gerwig, en enginn er í raun þess virði að minnast á þegar myndinni er lokið. Þau gera ekki nóg því handritið gefur þeim ekki nógu athyglisverða prófíla. Hver einasti karakter er líka gangandi klisja. Jafnvel þeir sem hafa ekki séð upprunalegu myndina vita strax frá fyrstu senunum hvert sagan stefnir og það veldur sjálfsagt meiri pirringi þegar kemur í ljós að leiðin þangað er svo formúludrifin að hún tekur eiginlega á. Ég myndi jafnvel halda að klisjurnar væru einhvers konar djókur ef handritið væri fyndnara eða snjallara. Heildarniðurstaðan er tilgangslaus en ekki óbærileg endurgerð þótt hún sé alveg meistaralega líflaus, oft leiðinleg, langdregin, ófyndin og alveg steindauð á þeim sviðum sem skipta mestu máli. Nokkur prik fara til leikaranna sem vilja vel.

Besta senan:
Eitthvað með næturljós. Það saug ekki.

3 athugasemdir við “Arthur (2011)

  1. held að Brand verði lengi að toppa karakterinn í Forgetting Sarah Marshall, var æðislegur þar. Mjög finn grínleikari.

  2. Það er reyndar rétt, það er fínasta mynd og þar sýnir hann eins og þú bendir á meiri alvarleika í leik sínum og gerði það bara nokkuð vel. En já er meira minnistæður í FSM vegna þess að hann er minna hlutverk.

Sammála/ósammála?