Mission: Impossible II

Það er óneitanlega eftirtektarvert og pínu spes hvernig Mission: Impossible-myndirnar þróuðust (óhjákvæmilega kannski?) út í hasarmyndaseríu um leið og aksjón-snillingurinn John Woo tók við af Brian De Palma. Það er nánast eins og Woo hafi sagt við hann: „Þú ert að gera þetta vitlaust, svona vilja áhorfendur hafa þetta.“ Að vísu er ekkert ætlast til neins annars en að myndirnar séu skoðaðar sem stakar einingar og tengjast þær þ.a.l. alveg merkilega lítið burtséð frá langsóttum áhættuatriðum, leynilegum verkefnum og að sjálfsögðu aðalpersónunni og góðvini hans. Engu að síður er munurinn á fyrstu tveimur Mission-myndunum svo mikill að sitthvor myndin tilheyrir allt öðrum geira.

Fyrsta myndin var nokkuð lágstemmdur en samt taugatrekkjandi njósnaþriller; ofsalega lítið af flugeldasýningum og skothvellum. Söguþráðurinn var kannski ekkert ofsalega grípandi, en myndin að minnsta kosti sýndi honum áhuga í stað þess að nota hann sem afsökun fyrir eitthvað annað. Mig rámar svolítið í það þegar M:I-2 kom fyrst út hvað mér fannst breytti tónninn vera furðulegur. Hetjan okkar, Ethan Hunt, var ekki einu sinni farin að láta eins og sama persóna og síðast. En ég var auðvitað bara tólf ára pjakkur og á þeim aldri hafði ég aðeins meiri áhuga á yfirdrifnum hasar í staðinn fyrir upplýsingaríkum plottum. Það er einkennilegt hvernig þessi bíómyndasería fór allt í einu að gíra niður markhóp sinn, en árið 2000 var ég semsagt bara nokkuð ánægður með myndina en gat ekki annað en viðurkennt hversu hallærisleg og bjánaleg hún var á köflum. Og jafnvel fyrir mynd sem kallar sig „Mission: Impossible,“ þá fer hún langt yfir strikið með það að vera langsótt og yfirdrifin, og verður hreinlega bara þroskaheft og vandræðaleg.

Skoðun mín hefur alls ekki skánað síðan ég sá hana fyrst, og ef M:I-2 væri manneskja þá væri hún ansi mikill fáviti. Mér finnst ekkert að því að taka Mission-seríuna og troða í hana meiri hasar heldur en var í myndinni á undan, það er hið besta mál. Það sem lætur myndina missa marks er einfaldlega „attitjúdið“ hennar. Myndin tekur söguþráð sem er svo klisjukenndur að hann er næstum því ólyktandi og notar hann sem stökkpall fyrir hasarsenur sem halda að þær séu svo ótrúlega svalar að hálfa væri of mikið. Ég dýrka Tom Cruise sem leikara á góðum degi þegar hann hefur valið frábæra mynd, en ég þoli hann ekki þegar hann pósar svona framan í skjáinn og segir í hljóði: „Sjáið hvað ég lít vel út! Er ég ekki töff??“

„Nei, í alvörunni. Er ég ekki töff? Ég klifraði upp fjall á filmu!“

Að horfa á nafna minn setja á sig sólgleraugu og bruna svo á flottasta móturhjólinu á meðan hátt í 20 manns skjóta á hann er ekki eitthvað sem betrumbætir myndina. Segjum það bara. Hasarinn er vissulega vel gerður enda gæti John Woo leikstýrt trylltum hasar með lokuðum augum. Því miður er hann líka bara svo andskoti ýktur stundum að þetta fer að virka á mann eins og paródía á hasarmyndir í þessum dúr. Myndin ber samt alltaf höfuðið hátt og er fullkomlega sannfærð um það hversu kúl hún er. Þetta er bara ekki þannig. Þetta er meira eins og að horfa á frægan einstakling keyra hægt og rólega framhjá þér í glænýja Porche-bílnum sínum með fullt af skvísum í kringum sig á meðan hann gefur þér miðfingurinn.

Hasaratriðin hefðu átt að betrumbæta myndina því plottið er svo gamalt og illa skrifað (ofnotkunin á grímunum er líka stærsti brandari myndarinnar í sjálfu sér). Myndin er heillengi að koma sér í gang og þar að auki er Cruise bara ekkert sérstaklega heillandi í þessari umferð, og heldur ekki Thandie Newton. Svo er Dougray Scott alveg skelfilega óspennandi sem illmennið, sem þýðir að mjög fáir leikarar gerðu eitthvað af miklu viti. Ving Rhames stóð reyndar fyrir sínu. Hann er skemmtilegasti karakterinn í allri myndinni þótt það segi samt ekki neitt.

Venjulega hef ég mjög gaman að spennumyndum sem taka sig ekki alvarlega og leggja allt púður sitt í góða ljósasýningu, en þá þarf keyrslan að vera öflug og helst eitthvað fjör í atburðarásinni. Ég fann fyrir hvorugu hér. Þar sem fyrsta myndin í seríunni var bara skrambi fín og sú þriðja helvíti góð, þá kýs ég einhvern veginn alltaf að afneita mynd nr. 2. Hún er vel tekin upp, metnaðarfull í kúlinu og framkallar oft óvæntan hlátur í alvarlegum senum. En ég vil frekar líta á þetta sem lélega tilraun hjá Cruise til að gera sína eigin Bond-mynd í staðinn fyrir Mission-mynd. Ég mun heldur aldrei fyrirgefa Limp Bizkit fyrir að eyðileggja eitursvala þemalagið og gera forljóta rokkútgáfu af því. Ekki kúl!

Besta senan:
Þegar Cruise „sparkar“ í sandinn og byssan flýgur upp. Mergjað fyndið!

Sammála/ósammála?