Mission: Impossible III

Guð má vita í hvað Tom Cruise hefur eytt peningafjallinu sem hann græddi eftir Mission: Impossible-myndirnar tvær og aldrei kom neitt annað til greina en að gera þriðja verkefnið. Þetta er líka eitthvað sem allar hégómafullu stórstjörnurnar dreyma um; að búa til vinsælar, einfaldar, háværar og flottar franchise-myndir þar sem þær líta vel út í hverri senu (jafnvel þegar þær eiga að líta illa út). Ég er sæmilegur aðdáandi fyrstu myndarinnar, aðallega vegna þess að mér fannst eins og hún reyndi að vera skotheld spennumynd í stað einhverrar markaðsbelju. DePalma fékk svolítið að skína gegnum hana.

Framhaldsmyndin svokallaða frá árinu 2000 var næstum því skólabókadæmi um allt það sem pirrar mig við mainstream Hollywood-hasarmyndir; Stórir hvellir, slakur söguþráður, engin spenna og hallærislegur díalogur. Krúsarinn, með síða, silkimjúka hárið og svörtu sólgleraugun, hefur aldrei lúkkað sjálfumglaðari á öllum ferlinum. Og John Woo hafði sjálfur aldrei stigið stærra feilspor.

J.J. Abrams er ábyggilega það besta sem hefur komið fyrir Mission: Impossible-seríuna síðan aðalleikarinn hékk sveittur í lokuðu tölvuherbergi í fyrstu myndinni. Abrams finnur alveg rétta tóninn sem sameinar sitthvorn stílinn úr fyrstu tveimur myndunum. M:I-III setur söguþráð í forgrunninn en leyfir sér líka að sleppa sér í yfirdrifnum en fjölbreyttum hasarsenum (og þá með reglulegu millibili).

Roberto Orci, Alex Kurtzman og Abrams sjálfur náðu að gera tiltölulega hnyttið og skemmtilegt handrit þrátt fyrir útstæðar klisjur í seinni helmingnum (þar sem maður finnur smálykt af True Lies) og heimskulega óljóst „McGuffin.“ Annars eru samtölin traust og stundum fyndin og langt frá því að vera ótrúverðug. Myndin fellur líka aldrei í týpísku mainstream-gryfjuna að þurfa að útskýra allt plottið frá A-Ö, sem reyndar er hægt að setja út á einnig þar sem manni líður eins og hún útskýri alltof lítið (allt þetta Rabbit’s foot-dæmi virðist bara vera sett inn til þess að koma persónum á milli staða). Hún kemur oft með ferska útúrsnúninga á klisjur á réttum tímum, og annað en í seinustu mynd þá er Ethan Hunt frábærlega gölluð hetja núna sem gerir mistök eins og eðlilegt fólk. Handritið leyfir líka fleirum en bara honum að taka virkan þátt í öllu fjörinu.

Aukapersónurnar eru líka langflestar nokkuð skemmtilegar. Myndin stórgræðir á glæsilegum hópi leikara þar enginn hverfur í bakgrunninn og langflestir ef ekki allir sýna hlutverkum sínum mikinn áhuga. Af öllum er það samt Philip Seymour Hoffman sem stelur gjörsamlega senunni sem vondi kallinn. Maður fær oft þá tilfinningu að hann sé örlítið snjallari en hetjan okkar Hunt og þess vegna er hann mjög hatursverður og áhrifaríkur skúrkur. Hoffman er þar að auki bara einn besti leikarinn á lífi í dag.

Hvað Mission: Impossible-mynd varðar er erfitt að biðja um eitthvað mikið betra en þetta, sérstaklega í hasardeildinni (kvikmyndatakan er helvíti flott líka) og í þokkabót er okkur ekki eins mikið sama um aðalpersónuna og áður. Það helsta sem togar einkunnina niður eru melódramatísku atriðin á milli Cruise og Michelle Monaghan. Samtölin svínvirka oftast nema þegar þessi undarlega væmni tekur yfir og þá dettur maður alveg út úr myndinni.

M-I-III er hingað til besta myndin í Hollywood-seríu sem virðist njóta þess að prufa ný stílbrögð. Það gerist alltof sjaldan að maður sjái svona extra vinnu lagða í svona dæmigerða spennumynd, en það er augljóslega einn kosturinn við það að ráða svona efnilegan leikstjóra til að gera sína fyrstu stórmynd. Hörkugóð afþreying og gerir margt rétt þó svo að hún misstígi sig stöku sinnum. Ef þér finnst þessi ekki vera að lágmarki býsna fín, þá ertu annað hvort með fullsterkt hatur gagnvart Tomma eða svona myndir eru bara alls ekki þinn tebolli.

Besta senan:
Hoffman telur niður… tvisvar.

Sammála/ósammála?