Funny Games U.S.

Ég hef aldrei nokkurn tímann verið hrifinn af skref-fyrir-skref endurgerðum. Það er bókstaflega enginn tilgangur með þeim, enda sóun á dýrmætri filmu vegna þess að það er enginn metnaður fyrir því að kanna nýjar slóðir, heldur er bara verið að kópera eitthvað sem er þegar til. Mér finnst líka virkilega súrt að Michael Haneke hafi sett sig í nákvæmlega sömu spor og áður. Þessi ameríska útgáfa af Funny Games er, án djóks, alveg eins að öllu leyti nema hún er á ensku og það eina sem gerir upplifunina ólíka er að þú þarft ekki að lesa texta allan tímann, en það veltur svosem á því hversu góð/ur þú ert í ensku. Nema þú skiljir þýsku óaðfinnanlega. Þá er akkúrat enginn munur.

Þú færð sömu upplifun út úr þessari og munt pottþétt ekki fíla söguna neitt síður. Það er bara spurning um hvor myndina þú sérð á undan. Burtséð frá því að ég sá bara sama hlutinn aftur þá finnst mér Funny Games virka betur á þýsku, einfaldlega vegna þess að öll sagan er einn stór útúrsnúningur á bandarískar klisjur, svo mér finnst það meira við hæfi að sjá evrópska mynd koma með þau skilaboð. Þar að auki fíla ég frummyndina betur vegna þess að leikararnir þar eru örlítið eftirminnilegri. A.m.k. þessir sem eru í lykilhlutverkunum. En auðvitað fíla ég frummyndina fyrst og fremst betur vegna þess að hún var unnin af listrænum metnaði. Hér er öll framleiðslan bara eitt feitt copy/paste.

Þegar ég sá gömlu myndina fyrst var ég ekkert æðislega hrifinn (mig minnir að fyrstu viðbrögð mín hafi verið: „Whuut ðe fökk??“). Það var ekki fyrr en ég náði að melta hana og pæla í því sem hún var að segja þegar ég sá hversu snjöll, óvænt og öðruvísi hún er. Hún stillir sig upp – stundum með blekkingum – eins og klisja þar sem þú þekkir framvinduna og telur þig vita framhaldið. Maður býst við kvikmynd sem er á sjálfsstýringu, en það er hún alls ekki. Mér fannst líka brilliant hvernig hún náði að rjúfa fjórða vegginn og ávarpa áhorfandann með það í huga að hann átti von á formúlumynd. Manni er refsað út og inn fyrir að búast við blóðbaði á skjánum, þannig að í staðinn kemur eitthvað miklu óþægilegra og eðlilegra.

Funny Games U.S. er ótrúlega vel leikin, það vantar ekki. Naomi Watts neglir hlutverkið glæsilega án þess að apa eftir upprunalegu leikkonunni. Tim Roth er líka mjög öflugur. Myndin er samt alfarið í höndum þeirra Michael Pitt og Brady Corbett. Þeir standa sig mjög vel en samt hverfa þeir svolítið í skuggann á leikurum upprunalegu myndarinnar. Mér finnst það líka ekki virka eins vel þegar Pitt ávarpar áhorfandann. Það virkar ekki eins mikið fyrir frammistöðu hans og það gerði fyrir Arno Frisch, sem var hátt í fullkominn í hinni myndinni.

Myndatakan er síðan alveg nákvæmlega eins, sem þýðir að hún er sjúklega flott. Haneke hefur greinilega þurft að leggja meira á sig til að endurskapa sömu skotin sem einkenndu frumútgáfuna, eins og allar þessar löngu, óklipptu tökur þar sem heilar senur spilast út í fjölmargar mínútur. Andrúmsloftið er eins og m.a.s. tónlistarnotkunin líka. Heneke hefur sjálfsagt vitað hversu vel hann stóð sig í fyrri lotu, en þá verð ég að halda áfram að spyrja: Til hvers þá að gera sama hlutinn aftur??

Funny Games U.S. er ábyggilega geggjuð mynd fyrir þá sem vilja sjá eitthvað öðruvísi og hafa ekki séð frummyndina. Mér finnst hún samt óþörf. Reyndar hef ég sjaldan vitað um eins tilgangslausa endurgerð og þessa og þar er heilmikið sagt („if it ain’t broke, don’t fix it“). Ef þið spyrjið mig, þá vil ég frekar benda ykkur á að horfa á þessa gömlu og sjá þar þá kvikindislegu en merkilega sterku ádeilu á ofbeldi (og hvernig bandarískar myndir gera það „töff“) sem hún er. Þessi má sitja í hillunni og safna ryki. Fær nokkur stig fyrir leikaranna.

Besta senan:
Rewind-senan er ennþá soddan gull.

2 athugasemdir við “Funny Games U.S.

  1. Ég þarf greinilega að sjá upprunalegu myndina! Af því að ég fýlaði þessa í botn, og veit ekki hvað það var með karakterinn hans Pitt sem mér fannst snilld, og talið við áhorfandan mjög gott.

  2. Það er það sérkennilega við „shot-by-shot“ endurgerðir. Ef þú sérð nýju myndina á undan þá ættirðu varla að fíla hana mikið verr en ef þú værir að horfa á þá upprunalegu.

    Ég hefði örugglega verið mjög ánægður með þessa ef ég hefði ekki séð þessa þýsku og þar af leiðandi vitað hversu latur leikstjórinn var að þessu sinni.

Sammála/ósammála?