50/50

Ég get ekki ímyndað mér að maður geti oft sagt að mynd sem fjallar um lífshættulegt krabbamein sem hellist yfir ungan mann sé á köflum ógurlega fyndin. Myndin 50/50 á víst heima í þessum einstaka flokki og leikstjórinn virðist gera sér grein fyrir því hversu brothætt það getur verið að móta dramatíska gamanmynd (eða gamansama dramamynd, þið megið velja) úr slíku efni. En myndin ber bara höfuðið hátt og leikstjórinn gerir það sem honum sýnist, og gerir það vel. Ekkert óaðfinnanlega en samt nógu vel til að dást að.

Það koma fyrir tímabil þar sem manni finnst eins og tvær ólíkar myndir séu að keppast um athyglina; Önnur er brómantísk gamanmynd þar sem Seth Rogen kemur, smókar og stelur senunni en hin er grafalvarleg dramamynd þar sem Joseph Gordon-Levitt vinnur sér hratt inn samúð áhorfandans. Í handritinu er samt passað að tónninn sé ávallt í léttlyndari kantinum, svona til að koma í veg fyrir að áhorfandanum líði ekki of illa gagnvart aðalpersónunni en á réttum augnablikum sýnir hún styrkleika sinn og grípur mann ansi sterkt.

Uppsetningin á þessari áhrifaríku sögu er samt mjög uppskriftarleg og oft koma fyrir sveiflur þar sem fáeinar senur breytast bara í risastórar klisjur. Aukapersónurnar virka líka stundum eins og einfaldaðri útgáfur af athyglisverðari karakterum og það kemur til dæmis lítið á óvart hversu þunnan prófíl leikkonan Bryce Dallas Howard fær. Þessi kona virðist bara ekkert sækjast í annað en að leika tvívíðar persónur! Einhver tekið eftir því að undanförnu?

Annars er það Gordon-Levitt sem kemur best út úr allri myndinni, en ef svo hefði ekki verið hefði leikarinn valið sér kolrangt starf þar sem sagan snýst í kringum hann. Þvert á móti minnti þessi mynd mig enn og aftur á það að þessi ungi maður er einn albesti leikarinn sem við höfum á þessum aldri. Hann og Ryan Gosling virðast stöðugt ætla að skylmast um að ná hrifningu minni.

Gordon-Levitt hefur oft tekið að sér erfið hlutverk og brillerað í þeim en meira að segja í léttari rullunum geislar af honum heilmikill sjarmi sem gerir hann ofsalega geðþekkan, og 50/50 sýnir nokkurn veginn það besta sem hann getur með sínum eiginleikum. Rogen spilar líka vel á móti honum, en hann er auðvitað ekkert nema bara sami gamli Rogen, í aðeins alvarlegri gír. Það má vel vera að maðurinn sé heldur einhæfur, en að minnsta kosti hefur hann hjartað á rétta staðnum þegar þörf er á því. Seinast þegar hann var svona góður var í Funny People, en hún á ekki lítið sameiginlegt með þessari mynd. Augljóst kannski.

50/50 býður sem sagt upp á kunnuglega ferð með aðeins örfáum óvæntum stoppum en ekki nógu mörgum til að gera góða efnið framúrskarandi. Það eru leifar af svoleiðis verki hér til staðar, en engu að síður er þetta mynd sem mann langar til að faðma ansi fast.

Besta senan:
Rogen ryðst inn um dyr og „feisar“ fröken Howard.
Served!

Sammála/ósammála?