Sherlock Holmes (2009)

Hetjur í rándýrum Hollywood-myndum eru oftast ekki mjög gallaðar, og ef þær eru það, þá eru það oftast frekar “kúl” gallar sem þær hafa. Annars hefur lykillinn alltaf verið sá að hafa þær eins sjarmerandi – og ekki síður aðlaðandi – og hægt er til að hinir hefðbundnu bíógestir eigi auðvelt með að halda með þeim.

Ég er svo feginn að Warner Bros. hafi leyft Guy Ritchie að gera risastóra, hasardrifina (en samt ekki) bíómynd um Sherlock Holmes þar sem fráhrindandi, andfélagslegi persónuleiki hans fær að njóta sín í botn. Það er ekkert verið að fegra hann sem bæði karakter og helsta hetja myndarinnar. Í mannlegum samskiptum er Holmes algjört skítseiði sem fær einstakt “kikk” út úr því að vera gáfaðri en allir aðrir, og egóið hans skákar jafnvel Tony Stark á hvaða degi sem er. Þessi mynd er heldur ekki hönnuð fyrir hefðbundna bíógesti. Þeim er velkomið að fljóta með en þyngdin á margbrotnum söguþræði er aðeins meiri en hjá hasarnum. Í stuttu máli: Hún er alltof flókin fyrir þá þótt hún sé hávær og flott.

Loksins tókst Ritchie að búa til góða mynd eftir að hafa hrasað töluvert síðan hann gerði Snatch. Kaldhæðnislega byrjaði hann með Madonnu stuttu eftir að sú mynd var kláruð. Svo gerði hann viðbjóðinn Swept Away þegar samband þeirra var komið á gott skrið. Eftir hana reyndi leikstjórinn að koma sér aftur í krimmagírinn með Revolver, en það gekk ekkert alltof vel. Hann reyndi svo aftur með Rocknrolla, en þá voru hjónin farin að eiga erfiðleika. Sú mynd var fín en hitti ekki alveg í mark. Síðan loksins þegar Ritchie tókst að skilja við dívuna, þá kemur hann með Sherlock Holmes. Og þetta er klárlega langbesta myndin hans síðan Snatch, og þó svo að ég haldi þá mynd í örlítið meira uppáhaldi, þá er þessi sú best heppnaða og vandaðasta frá honum síðan hann byrjaði. Það er rosalegt hvað mönnum getur batnað mikið þegar æxlin eru fjarlægð.

Samt, í rauninni fór ég ekki að kunna að meta myndina jafnmikið og þegar ég sá hana í annað sinn. Ég var býsna hrifinn af henni fyrst en fannst söguþráðurinn óþarflega flókinn einungis vegna þess að titilkarakterinn mun hvort eð er útskýra hann allan og fylla upp í eyðurnar í lokahlutanum. Allir sem hafa horft á Sherlock (í hvaða formi sem er, jafnvel House-þættina) ættu að vita það fyrirfram. Það má vera að áhorfandinn sé bara að fylgja persónunum hvert sem þær fara í millitíðinni áður en svörin koma í ljós, en að minnsta kosti virðist leikstjórinn gera sér grein fyrir því og bætir það upp með stórskemmtilegum atriðum sem eru reglulega stráð út söguna.

Slagsmálaatriðin, og uppsetningin á þessum helstu, eru stórkostleg og handritið finnur ýmsar sniðugar leiðir til að gera margt frumlegt og skemmtilegt með hasarinn í stað þess að fara eftir uppskrift. Myndin er svosem ekkert löðrandi í aksjóni, en þegar slík atriði koma fyrir, þá passar Ritchie að þau séu oftast tímans virði. Það er ekki fyrr en á síðustu 10 mínútunum þar sem myndin hrekkur aðeins of mikið í Bruckheimer-gírinn, og það er ansi fúlt hvernig allt kaosið sem á sér stað í lokin sé ekki nærri því jafn grípandi og öflugt og mest allt sem gerist á undan.

Ritchie er reyndar mjög mistækur handritshöfundur og hefur ekki skrifað almennilega gott handrit síðan áður en hann gerðist tíkin hennar Madonnu. Þess vegna hjálpar það að Sherlock Holmes skuli vera skrifuð af öðrum heldur en honum. Minnismerki leikstjórans, semsagt þessi jákvæðu, eru samt brennimerkt út alla heildina. Stíllinn er t.a.m. fullkominn fyrir myndina og peppar hana rosalega upp; alveg frá klippingum til myndatöku og tónlistarnotkunar, sem er eitthvað sem Ritchie hefur ávallt staðið sig vel með.

Handritið er samt miklu snjallara heldur en Hollywood-myndir eru vanar að sjá og hlutirnir eru aldrei stafaðir út nema bráðnauðsynleg þörf séu á því. Myndin flæðir ofsalega vel og kemur huggulega á óvart með ansi óvenjulegum strúktúr í fyrri helmingnum (t.d. hvernig opnunarsenan hendir manni beint í fjörið). Svo er sjaldan langt í humor, en það er samt meira leikurunum að þakka. Robert Downey Jr. hefur alltaf verið eins og Johnny Depp í mínum augum, bæði áður og eftir að hann komst inn í mainstream-ið. Hann er aldrei óáreiðanlegur, ávallt fjölhæfur og hefur eitthvað nýtt fram að færa í hverju hlutverki sem hann þiggur (nema þegar handritin eru léleg). Hann er eins og happagripur sem allir leikstjórar slást um og hann er að mínu mati frábær sem titilkarakterinn. Hans útgáfa af Holmes er kannski aðeins öðruvísi en persónan sem feður okkar og afar muna eftir, en hann er nokkuð magnaður engu að síður og með réttu einkennin alveg á hreinu. Downey nær semsagt að vera gáfaður, montinn, sterkur (og hvílíkar slagsmálasenur! Ég get ekki sagt það nógu oft), þrjóskur, hvatvís og ávallt vel mæltur. Allur pakkinn má segja.

Ég hefði tekið því sem sjálfsögðum hlut að hvaða leikari sem léki Dr. Watson myndi vera jarðaður af Downey, en mér til mikillar undrunar nær Jude Law að vera jafningi hans að öllu leyti, og saman eru þeir stórkostlegir og aðgangseyrisins virði einir og sér. Þeir eru fyndnir, skemmtilegir og óvenju svalir með smá vott af „brómantík“ í samskiptum þeirra. Downey og Law eru svo flottir að aðrir leikarar hverfa hiklaust í skuggann á þeim, meira að segja Mark Strong, sem hefur yfirleitt mjög sterka nærveru. Rachel McAdams er skítsæmileg sem dæmigerða vinkonan/kærastan sem skal ekki treysta og fær alltof lítið til að gera. Hún kemur söguþræði myndarinnar lítið við. Ritchie hefur annað hvort sótt skærin og klippt út einhverjar senur með henni, eða hann hefur ákveðið að byggja upp samband hennar við Holmes fyrir næstu mynd. Myndin eyðir einmitt dálitlu púðri í að stilla upp mynd nr. 2, kannski fullmiklu ef þið spyrjið mig.

Þessi “hipp” túlkun á Sherlock Holmes-ævintýri er kannski efnislega í dálitlu rugli og mætti vera meira fullnægjandi á sumum stöðum, en ef ég á að vera hreinskilinn þá bjóst ég alveg við því frá Ritchie. Ég verð samt að gefa manninum smá aukahrós fyrir að virða gamla hráefnið og einnig krydda upp á það fyrir nýju kynslóðirnar. Sviðsmyndir sem og öll umhverfi eru glæsileg og gera heildarsvipinn á framleiðslunni flottari. Yfir heildina er ég bara mestmegnis feginn að hafa náð að halda glottinu allan tímann og ég er pínu spenntur að sjá hvað verður úr þessari seríu.

Með aðeins sterkari endi hefði einkunnin náð áttunni á augabragði.

Besta senan:
Í fullri alvöru, þá á ég mjög erfitt með að velja eina. Opnunin var geggjuð, hasarinn við skipið var töff og björgunin í sláturhúsinu var grátlega spennandi. Á endanum segi ég samt að sú sena sem ég muni mest eftir hafi verið þegar Holmes lemur stóran lurk í klessu, útskýrir á meðan hvað hann gerir og stórgræðir á slaginum eftirá. Klassískt Downey móment.

Sammála/ósammála?