The Curious Case of Benjamin Button

Það er athyglisvert að sjá David Fincher, sem er venjulega þekktur fyrir skuggalegar og almennt svartsýnar sögur, tækla súrrealískt drama af þessari tegund. Efnislega séð líkist The Curious Case of Benjamin Button ekki á neinn hátt fyrri myndum Finchers. Þetta er einföld en hjartnæm saga sem kafar ofan í gildi lífsins, og þá á talsvert fjölskylduvænni hátt heldur en Fight Club gerði.

Ég hef mikið heyrt talað um hvað þessi mynd er lík Forrest Gump (enda báðar myndirnar skrifaðar af sama manninum), og þó svo að ég sjái nokkur svipuð einkenni í sögunum (sakleysislegur einstaklingur, sem er talinn „öðruvísi,“ upplifir ævina í gegnum þekkt kaflaskipti í mannkynssögunni – og sækist ávallt eftir „æskuástinni“ sinni), þá eru myndirnar jafn líkar og þær eru ólíkar. Benjamin Button er hægari og ekki eins áberandi „skemmtileg“ kvikmynd og Forrest Gump, en aftur á móti hefur hún dýpri boðskap og miklu flottara útlit.

The Curious Case of Benjamin Button er gríðarlega nálægt því að vera frábær mynd. Það er hellingur við hana sem ég dýrka, og fáeinar senur eru algjört gull (eins og t.d. „Chaos theory“ senan fræga – þar sem allir litlu hlutirnir tengjast). Aftur á móti finnst mér myndin vera óneitanlega fulllöng, og einfaldleiki sögunnar gerir það erfitt fyrir hana að fylla upp í rúmlega tveggja og hálfs tíma lengdina. Slíkt getur komið fyrir þegar örsögur eru gerðar að myndum í fullri lengd. En það er ekki bara það, heldur fannst mér myndin enda svona korteri seinna en hún átti að gera. Þegar líður nær lokum fer mórall sögunnar að verða vel áberandi og titilkarakterinn búinn að ganga í gegnum helstu breytingarnar, en samt heldur myndin áfram, og eiginlega að óþörfu. Áhorfandinn veit vel hvað gerist seinustu mínúturnar, svo maður er nánast farinn að bíða eftir að ræman klárist, sem er aldrei gott. Ég tala nú ekki einu sinni um það að myndin gefur manni aldrei fullnægjandi dramatískt högg til að réttlæta teygðu lengdina.

Sagan er þó engan veginn áhrifalaus, og hún skilur heilmikið eftir sig þrátt fyrir að vera hvergi fullkomin. Ég var kannski ekki *eins* heillaður af henni og ég hefði viljað, en ég gef henni margfalt hrós fyrir að vera blessunarlega laus við alla væmni. Myndin græðir samt mest á Brad Pitt. Hann eignar sér ekki aðeins myndina, heldur er hann ástæðan fyrir því að sagan er svona falleg. Ég tala þá ekki um hrausta útlit leikarans (eða jú, það líka), heldur þennan stórfenglega leik sem er bæði lágstemmdur og sakleysislegur. Fullkomin endurspeglun á karakternum. Pitt nær hiklaust að láta þér líka vel við Benjamin, og þar af leiðandi heldur maður upp á hann út alla myndina.

Cate Blanchett á líka lúmskan leiksigur. Hlutverkið krefst ekki mikilla leiktilþrifa frá henni (og sama má reyndar segja um Pitt), en hún gerir allt sem hún getur með það, og rúmlega það. Meira að segja aukaleikarar gera líka furðulega mikið með lítinn efnivið. Taraji P. Henson, Jared Harris, Jason Flemyng, Tilda Swinton og Julia Ormond skilja öll eftir spor sín og hafa eitthvað auka til að bæta ofan á persónur sínar. Yfirleitt í kvikmyndum yrðu slíkar aukapersónur litlausar og fljótgleymdar, en Fincher fer með þetta fólk eins og það sé allt helstu stjörnur myndarinnar. Svakalegt.

Öll helstu Fincher-útlitseinkennin eru síðan til staðar, en þeir sem hafa séð einhverja mynd (eða allar) eftir hann ættu að vita að þær líta allar stórfenglega út (m.a.s. Alien 3 – hans versta mynd – var gífurlega stílísk). Stíllinn í þessari mynd einkennist af takmarkaðri litanotkun, sem er venjubundið hjá leikstjóranum – en ótrúlega flott. Maðurinn meðhöndlar einnig kvikmyndatökuna eins og sitt eigið barn. Hún er stórkostleg, og aldrei neitt að auglýsa sig. Nokkurn veginn eins og tæknibrellurnar. Það er einmitt annað sem ég dái við Fincher. Hann notar yfirleitt mikið af tölvubrellum í myndunum sínum, en þær sjást mjög illa því þær eru notaðar til að falla fullkomlega inn í umhverfið. Þær nýtast eins og hver önnur sviðsmynd, í stað þess að vera gimmick, og því betri sem brellan er í þessu tilfelli, því ólíklegra er að þú sjáir hana. Aftur – svakalegt!

Flestir með lágmarks vit á kvikmyndum vita vel að David Fincher er einn af bestu leikstjórunum starfandi í dag. Myndirnar hans eru ekki allar snilldarverk (en þær sem eru svo góðar munu seint gleymast), en þær eru allar vel leiknar, vel uppbyggðar, virkilega flottar og skilja eitthvað eftir sig sama hvað þér finnst um þær. Fincher er einnig þekktur fyrir að skapa óþægindatilfinningu meðan að maður horfir á sumar myndirnar hans, og þar af leiðandi er það óvenjulegra að sjá hvernig hann fer með Benjamin Button, sem er í samanburði tiltölulega létt – þótt kannski örlítið sorgleg – saga.

Ég mun sennilega ekki telja Benjamin Button vera meðal betri mynda Finchers þegar uppi er staðið, einfaldlega vegna þess að hún er of hefðbundin. Helvíti góð, jú, en hefðbundin og því miður svolítið langdregin. Þó svo að frásögnin sé ekki til fyrirmyndar, þá er kvikmyndagerðin á bakvið myndina fyrsta flokks, að nærri öllu leyti.

Myndin vekur upp fjöldann allan af skemmtilegum spurningum varðandi lífið og tilveruna ásamt því að þeyta því framan í okkur hvað ekkert endist og að við ættum að nýta okkur öll tækifæri sem okkur gefast o.þ.h. Sama hvar við erum í lífinu, þá óskum við öll þess að vera einhvern tímann aðeins yngri eða eldri. Eitt er þó víst, og þrátt fyrir óvenjulega ævi titilpersónunnar, þá sýnir hún að þegar öllu er á botninn hvolft er öruggt að við endum öll í bleium.

Besta senan:
Chaos theory. Döö…

(þessi grein var upphaflega skrifuð þann 06.02.2009)

Sammála/ósammála?