Tinker Tailor Soldier Spy

Eins mikið og ég hef nú oft gaman af hávaðsömum og hraðskreiðum afþreyingarmyndum, þá er ég líka alveg vitlaus í myndir eins og þessa; Myndir sem eru hægar, gáfaðar, margbrotnar og sóa ekki senum í það sem skiptir engu máli. Myndir sem setja söguþráðinn í 150% forgang og velta sér ekkert upp úr því að stafa hlutina út fyrir áhorfendum sem fylgjast ekki nógu vel með. Myndir sem verðlauna þolinmæði þína og gera gott enn betra með ómótstæðilegum leikurum.

Þeir sem vilja hafa njósnasögur sínar ójarðbundnar, byggðar upp eftir föstum formúlum og helst í hinum heitasta Hollywood-stíl, þeir munu missa fljótt athyglina og geispa reglulega í gegnum þessa ræmu bíðandi eftir að einhver dragi upp byssu eða botni bensíngjöfina. Hins vegar, ef það hljómar vel að fylgjast með vandaðri „giskaðu-á-svikarann“ sögu þar sem hinir reyndustu fagmenn í leikarabransanum sitja oftast og spjalla um upplýsingar, staðreyndir og reyna að púsla söguþræðinum saman á sama hraða og áhorfandinn, þá ætti þetta að vera þinn tebolli. En eins þurr og lýsingin hljómar, þá get ég fullyrt með ansi sterku öryggi að ég var ótrúlega hrifinn af þessari mynd.

Tinker Tailor Soldier Spy er risastór upplýsingaorgía sem krefst ansi mikils af áhorfendum sínum. Myndin rennur á skjaldbökuhraða, en þeir sem festast í sögunni sjá að það er hvergi dauðan punkt að finna. Það er næstum því galli hvað handritið bombar miklu framan í þig, því maður þarf að muna skuggalega mikið af nöfnum og upplýsingum  á meðan sífellt nýir hlutir koma í ljós. Sumum gæti liðið eins og þeir séu að upplifa tveggja tíma hraðferðarlærdóm, eins og öll myndin sé til prófs. Og frásögnin er heldur ekki alltaf línuleg, svona til að þyngja hlutina aðeins.

Þetta er samt týpískur afrakstur þess þegar mjög efnisrík bók er tekin og þjöppuð niður í tæpa tveggja klukkutíma skjátíma (og ég tek það fram að ég hef ekki séð mini-seríuna frá ’79 sem var byggð á henni). Myndin þjáist alls ekki mikið fyrir þetta, og hún er langt frá því að vera óskiljanleg, en óneitanlega virkar hún stundum á mann eins og nokkuð stór biti, og maður þarf sífellt að skófla í sig nýjum á meðan maður er enn að tyggja þann síðasta. Þetta sýnir samt líka það að handritið er ekkert að drolla, og í stað þess að mata ofan í mann útskýringar, þá hleypur hún beint í það sem skiptir máli. Þeir sem eru jafnhrifnir af þessari mynd og ég eru eindregið hvattir til þess að horfa á hana oftar en einu sinni. Bæði til þess að melta hana á þægilegri hraða í annað skiptið, og líka vegna þess að hún er bara svo fjandi góð. Svo eiga leikararnir alveg skilið aukaathyglina.

Eins mikið og ég elska Gary Oldman á venjulegum degi, þá elska ég hann meira hérna. Karakterinn George Smiley er einn sá besti sem hann hefur leikið – sem segir HELLING – og það er með ólíkindum hvað þessi eðalleikari getur mikið gert úr litlu. Ekki það að hlutverkið sé beinlínis illa skrifað, heldur nær hann frekar að segja manni svo mikið um persónu sína með svo fáum orðum og aðeins svipbrigðum, og sama má í rauninni segja um alla hina leikaranna líka. Þessir sem stóðu þó mest upp úr voru þeir menn sem virðast aldrei nokkurn tímann geta staðið sig illa, og það eru þeir Mark Strong, Toby Jones, Tom Hardy, Colin Firth og Benedict Cumberbatch. Þeir líta allir út fyrir að vera hvert annað skrautið (og ljóst er að frægu andlitin voru ráðin til að hjálpa manni að þekkja nöfnin betur í sundur) en samt er nýtingin á hverjum og einum svo góð. Firth er að vísu hugsanleg undantekning. Hver og einn fær reyndar sitt augnablik til að skína en í miklu uppáhaldi hjá mér var Cumberbatch. Ef þið hafið ekki enn kynnt ykkur BBC-seríuna Sherlock, þar sem hann er í titilhlutverkinu, þá eruð þið að missa af miklu.

Það kemur samt lítið á óvart að góðir leikarar standa sig svona vel. Það sem kemur enn meira á óvart eru vinnubrögð sænska leikstjórans Thomas Alfredson, sem þrepar sig rosalega upp á virðingarskalanum. Fyrir utan það að vera skotheldur með leikaranna, kjarkaður með flæðið (og meðfylgjandi skilaboðum sem segja „Aumingja þú,“ ef þú nærð ekki að fylgjast nógu vel með) þá er períódustíllinn alveg hreint fullkominn. Það sást strax í síðustu myndinni hans, Låt den rätte komma in, að hann hefði gott auga fyrir andrúmslofti með útpældum skotum í myndatökunni sem og nákvæmum lýsingum. Þessi Svíi sýnir efninu – og ekki síst útlitinu – svo mikinn áhuga að hann er umhugsunarlaust orðinn að þessum kvikmyndagerðarmanni sem maður fylgist áhugasamur með í náinni framtíð. Það eina sem hann hefði mátt leggja meiri vinnu í voru þessar máttvana senur í kringum endasprettinn. Ég hefði verið nær því að kalla þetta framúrskarandi mynd með aðeins sterkari og minnisstæðari endi. Það er svo óþolandi þegar magnaðar spennusögur enda með veikum hvelli.

Tinker Tailor Soldier Spy vil ég samt meina að sé ein af bestu myndum síðasta árs. Þetta er glæsileg Bond-andstæða sem heldur athygli hugsandi áhorfandans út í gegn og býr til eðlilega spennu án þess að auka hraðann eða bæta við gagnslausu adrenalíni. Það getur stundum verið góður hlutur að vera vanur svona mörgum vitfirrtum Hollywood-sprengjum, því þá metur maður myndir eins og þessa ennþá betur.

Besta senan:
Erfitt val. Í alvöru talað. Myndin heldur svo þrusugóðum dampi að það er erfitt að draga út einhverja eina virkilega öfluga senu. Ef ég þyrfti samt að velja – sem ég geri – þá segi ég kaflinn þar sem Cumberbatch er að upplýsingalaumast. „Tense“ stöff.

Sammála/ósammála?