War Horse

Á meðan ýmsir upprennandi leikstjórar eru að reyna að herma eftir klassískum frásagnareinkennum og leikstjórnartöktunum hjá Steven Spielberg (J.J. Abrams með Super 8 kannski?), einni áhrifamestu fyrirmyndinni í bransanum í dag, þá er Spielberg sjálfur að sækjast í sínar eigin hetjur með War Horse með því að hverfa aftur í tímann um hálfa öld eða meira. Fortíðarþráin hefur svosem alltaf verið til staðar hjá honum en sjaldan hefur maðurinn gengið eins langt með metnaðinn sinn og í þessu staka tilfelli. Myndin er ekki bara umhyggjusamur virðingavottur gagnvart gamaldags kvikmyndagerð, heldur ER hún gamaldags kvikmyndagerð, og áhorfandinn fær hana beint í æð, hvort sem honum líkar það betur eða verr.

Reynið að sjá fyrir ykkur samsuðu af mynd eftir John Ford (sem Spielberg hefur alltaf dýrkað) og leikinni Disney-ævintýramynd frá sjöunda áratugnum (svipaðar og þær voru oft sýndar á RÚV á föstudögum, munið eftir því?) með örlitlum keim af stríðsepík að hætti Gone with the Wind. Það virðist gleymast að einu sinni var nefnilega sá tími þar sem fólk fór ekki í bíó til að kvarta undan óraunsæjum smáatriðum heldur fór það fyrst og fremst til að sjá góða sögu, og öll mjólkaða dramatíkin ásamt yfirþyrmandi tónlistarnotkuninni var notuð til að minna mann á það að þetta væri töfrandi upplifun sem fer með þig í gegnum alls konar tilfinningar en ekki eitthvað sem þú upplifir í garðinum heima hjá þér.

Til að skilja þetta betur þarf maður að hugsa aftur til tímabilsins þegar stórmyndir voru t.d. nýbyrjaðar að vera gerðar í CinemaScope. Þessi stíll er ekki bara retró heldur eitthvað sem er frekar löngu orðið útdautt, og það þýðir að War Horse sé ótrúlega fráhrindandi mynd fyrir ýmsa hópa, sérstaklega þá sálarlausu og þá sem eru bara hreinlega ekki vanir svona verkum. Kvikmyndaunnendur, sem muna í alvörunni eftir því hvers vegna þeir elska bíómyndir og virða gamalt og gott „cinema,“ munu fatta strax hvað Spielberg er að reyna að gera og sjá að honum tekst það næstum því óaðfinnanlega. Það eru svo skuggalega margir kvikmyndagerðamenn sem hafa reynt og margoft feilað til að ná þeim anda sem Spielberg fangar hér eins og sannur fagmaður, sem auðvitað sýnir að hann er ekki bara frægt nafn í Hollywood af engri ástæðu. Myndin veit alveg hvað hún er að gera og gerir það meistaralega, og það besta er að henni er skítsama um þá svartsýnu og sálarlausu sem munu njóta þess að fussa og sveia yfir þessari botnlausu melódramatík. Því, ó guð, hvað hinir svartsýnu og munu þjást yfir þessari mynd. Þið vitið alveg hverjir þið eruð.

Í alvöru talað, ég hef sjaldan séð Spielberg-mynd sem er jafn skelfilega VÆMIN og War Horse, sem er nokkuð andskoti mikið sagt þegar ferill leikstjórans er grandskoðaður. Hins vegar er retró-stíllinn og bíóandinn svo huggulegur, einlægur og vandaður að ég gat ómögulega annað en fílað þessa epísku dramaveislu. Ég get ekki sagt það nógu oft að það tekur næstum því á að fylgjast með því hversu hrottalega væmin þessi mynd er, ekki bara á köflum, heldur reglulega út í gegn. Seinustu senurnar eru þær verstu og lokaskotið algjört morð á sálina, en þangað til þær komu var ég afskaplega hrifinn af þessu öllu því myndin hittir alveg í mark án þess að vera pirrandi eða pínleg, nema í lokin þ.e.a.s. Ég skammast mín jafnvel svolítið fyrir að fíla myndina svona mikið, því mér finnst eins og hún eigi bara ekki að ganga upp. En hún gerir það, og í tvo og hálfan klukkutíma sat ég pikkfastur við skjáinn og var umsvifalaust fluttur aftur til þess tíma þegar svona myndir voru algengar til áhorfs hjá foreldrum okkar, og foreldrum þeirra.

Það eru til ýmsar gerðir af Spielberg. Þessi sem var (og reyndar er) fyrirtaks „genre“ leikstjóri og sérhæfði sig meðal annars í spennandi og skemmtilegum popp og kók-myndum. Svo er þessi kaldi, átakanlegi Spielberg sem er algjörlega óhræddur við það að fara í myrkari áttir og hamra á þeim til tilfinningum sem hann getur. Sá gaur vill oftast fá Óskarsverðlaun. Síðan er þessi fjölskylduvæni sem leggur áherslu á það að flytja áhorfendum á öllum aldri í gegnum ekta bíómyndasögu, sem gerir sér alveg grein fyrir því að hún er fyrst og fremst bíómynd og reynir sem minnst að minna þig á alvöru heiminn eins og við þekkjum hann. Sá gaur vill líka Óskar.

War Horse er svona eiginlega það sem gerist þegar seinni tvær týpurnar af leikstjóranum sameinast, sem segir manni að það sé svolítill Óskarsbeitufnykur af þessu. Það þarf þó ekki að vera slæmt. Við vitum nú samt flest að þegar maðurinn er kominn í stríðsmyndagírinn, þá er lítið til að fegra, en þar sem aldursstimpillinn skýst ekki hátt höfðar sagan til mjög breiðra hópa og eru dökku hliðarnar oftast notaðar til að auka kraftinn og ekki síst samúðina gagnvart lykilpersónunni. Stríð er vissulega algjör viðbjóður en ekki síst fyrir greyið hrossin sem voru dregin í þau. Fínt að skriðdrekarnir tóku síðar við.

Spielberg er einn af þessum vinnuölkum sem langflestir þekkja til, og þótt allir hafi ólíkar skoðanir á verkum hans, þá er ekki hægt annað en að bera mikla virðingu fyrir þessum manni fyrir það sem hann hefur gert fyrir kvikmyndaiðnaðinn eins og við þekkjum hann í dag. Samt veit ég hreinlega ekki úr hverju maðurinn er gerður því eftir árið 2011 skaust þessi virðing mín upp á allt annað plan. Til að byrja með, þá vann hann við War Horse og Tintin á svipuðum tíma, og þá á sjötugsaldri, án þess að önnur myndin hafi þjáðst mikið í gæðum eftirá. Ég hef reyndar sterkar grunsemdir um að Peter Jackson hafi hjálpað meira til við gerð teiknimyndarinnar heldur en báðir aðilar myndu þora að viðurkenna, en þrátt fyrir það er ekki auðvelt verk að hafa yfirumsjón yfir útlitslega flókinni teiknimynd, sérstaklega þegar bíómynd á stærð við War Horse er í vinnslu á sama tíma. Eftir að hafa séð Tintin hélt ég að War Horse yrði myndin sem myndi þjást, en hún gerir það ekki. Hún hittir á allar þær nótur sem hún vill, svo ekki sé minnst á það hversu krefjandi verk það hefur verið að tækla þetta kvikindi. Og Spielberg er orðinn 65 ára!

Burtséð frá því að frásögnin, tónninn, rammauppsetningin, sviðshönnunin og tónlistin sé gallalaust í stíl við kvikmyndatýpur sem sjást varla lengur í dag, þá skulum við ekki gleyma því að Spielberg tókst að búa til ævintýramynd sem gerist í fyrri heimsstyrjöldinni og fjallar um hest sem flakkar á milli sögusviða og gengur í gegnum alls konar tilgangslaust helvíti. Leikstjóranum tekst semsagt að búa til alvöru karakter úr þessum hesti án þess að nota asnalegar brellur eða (guði sé lof!) talsetningu eða texta til að áhorfandinn skilji hvernig honum líður eða hvað hann er að hugsa. Það er auðvitað ekki erfitt að sýna dýri samúð sem er dregið út í stríð þegar það vill ekkert annað en að komast heim til eiganda síns (mjög Disney-legt, ekki satt?). Um leið og kvikmynd er farin að misþyrma skepnu á svona grimman máta, þá eru flestir áhorfendur komnir þeim megin sem leikstjórinn vill. En eins ódýrt og þetta er, þá vill maður fylgja þessum hesti því áhuginn hjá leikstjóranum er svakalega mikill, og maður finnur svo sterkt fyrir honum.

Leikararnir eru líka annaðhvort fullkomnir, með einstaklega mikið karisma, eða bæði. Það eru þeir sem gera söguna trúverðuga og heillandi. Hver og einn er líka tjúnaður inn í rétta leikstílinn, eins og allir hafi stigið beint út úr mynd sem var gerð löngu áður en flestir þeirra fæddust. Það er freistandi að nefna hvert nafn fyrir sig, en frekar vil ég tína út aðeins þá minnisstæðustu til að spara tíma og dýrmætan orðafjölda. Hinn ungi Jeremy Irvine fær sennilega erfiðasta hlutverkið, og það er alfarið í hans höndum að smita umhyggju sína gagnvart kraftarverkahestinum yfir á áhorfandann – sem tókst. Ég hef nú kannski ekki mikinn bakgrunn í leiklist, en ég get ekki ímyndað mér að það sé auðvelt að leika á móti hesti, og hvað þá þegar hann á að vera besti vinur manns.

Irvine er í næstmikilvægasta hlutverkinu, á eftir þessum fjórfætta, en þar sem sagan er sögð í gegnum áberandi kaflaskipti, frá sjónarhorni titilpersónunnar, þýðir það að hinir ýmsu karakterar koma og fara. Engum er samt sóað og flestir eru svo góðir að maður vildi að þeir fengju lengri skjátíma. Bestir af aukaleikurunum eru Peter Mullan, David Thewlis, Tom Hiddleston (sem hefur jafnmikla útgeislun í örfáum senum og hann hafði í allri Thor-myndinni), Benedict Cumberbatch og Toby Kebbell. Þessi síðastnefndi skilur mest eftir sig í einni albestu senu myndarinnar þar sem gaddavír spilar stórt hlutverk. Myndin er einmitt smekkfull af undarlega sterkum atriðum sem eru álíka minnisstæð og þau eru væmin, á einn hátt eða annan. Þetta merkilega hross leynir samt á sér og þótt ég hafi kannski ekki alveg fundið fyrir sorgar- eða gleðitárum, þá leið mér tímabundið eins og annarri manneskju.

Ég veit ekki hvernig þessi mynd hefði komið út ef einhver annar en Spielberg hefði gert hana, eða ef félagar hans, John Williams, Michael Kahn og Janusz Kaminski, hefðu ekki séð um tónlistina, klippinguna og myndatökuna og í kjölfarið fattað nákvæmlega hvers konar filing var sóst eftir. Engu að síður er War Horse hátt í stórkostleg, þökk sé ólýsanlegri fagmennsku á bakvið gerð hennar og spikfeita hjartanu sem stýrir sögunni.

Og ég er ekki einu sinni hestamanneskja!

Besta senan:
Fullt í boði! En ég segi enn og aftur þessu með Toby, stríðsandstæðinginn og gaddavírinn.

Sammála/ósammála?