Paranormal Activity

Paranormal Activity er draugamynd sem heldur betur notar hráefnin rétt, og það gerir hún með aðeins 15,000 dollara framleiðslukostnaði, sem er auðvitað algjör brandari. Hún notar aðferðina sem allar bestu hrollvekjur – og sérstaklega myndir sem fjalla um yfirnáttúruleg völd – gera, þ.e. að spila með sálfræðina, og í þokkabót notar hún óþægilegt andrúmsloft til að halda áhorfandanum vakandi, í stað þess að koma með tilgangslausar bregður bara til að vera viss um að stelpurnar öskri við og við. Minna er klárlega meira í þessu tilfelli og það er með ólíkindum hvað þessi mynd gerir vel það sem rándýru færibandsmyndirnar hafa reynt að gera árum saman en takast það aðeins í fáeinum tilfellum. Ég ætla ekki að ganga svo langt með að segja að þessi mynd hafi hrætt úr mér líftóruna en hún gaf mér rosalega gæsahúð allan tímann og hélt mér í heljargreipum fram að seinasta rammanum.

Ef ég ætti að bera Paranormal Activity saman við aðrar „fyrstu persónu-shaky cam“ myndir þá myndi ég hiklaust telja hana vera miklu betri heldur en The Blair Witch Project, sem mér fannst alltaf vera fín en voða ómerkileg og einhæf. Paranormal er að vísu ekki eins mögnuð og spænska hrollvekjan [Rec], en ég get heldur ekki sagt að hún sé langt frá því þó. Það er líka skemmtileg tilbreyting að sjá mynd nota þennan stíl sem er ekki stöðugt á hreyfingu eins og myndatökumaðurinn sé með nagdýr inn á sér. Myndin gerist líka nánast öll innandyra þannig að það er lítið um hlaupagang. Svo er heldur ekkert verið að „fegra“ leikaranna neitt. Aðalleikararnir eru afar hversdagslegir og venjulegir í útliti (það er samt virkilega erfitt að stara ekki á barminn á konunni út alla myndina! Namm), annað en má sjá í myndum eins og Cloverfield, þar sem hver einasti karakter lítur út eins og Hollywood-leikari (nema gaurinn sem var á bakvið vélina allan tímann).

Einfaldleikinn er það sem selur myndina. Oren Peli (sem leikstýrir og skrifar) hefur mann allan tímann í vasanum sínum með alveg merkilega lúmskri uppbyggingu sem gerir spennuna alveg óbærilega á köflum. Þessi uppbygging er einmitt það sem gerir óhugnanlegu atriðin kröftug, og þau virka á mann. Ákveðin atriði læðast svo sterkt upp að manni, og með góðri aðstoð frá hljóðvinnslunni og ímyndunarafli áhorfandans verður gott ennþá betra. Myndin er heldur ekki að leika sér með langsóttar hugmyndir, og að geta ekki sofnað vegna skrítinna hljóða í herberginu eða umhverfinu er ekki tilfinning sem er erfitt að tengja sig við. Hrollvekjur lenda oft í því að feila vegna þess að maður er ekki tilbúinn til að kaupa það sem er að gerast, en ég keypti þessa mynd alveg 100% og lifði mig þ.a.l. þvílíkt inn í hana.

Það gerist samt einstaka sinnum að maður viti ekki alveg hvert myndin er að fara, og ég fékk m.a.s. þá tilfinningu að Peli hafi ekki sjálfur vitað hvað hann ætti að gera með þessa sögu. Þetta er enginn alvarlegur galli þar sem útskýringar eru ekki beinlínis nauðsynlegar þegar saga er sögð með þessum stíl, en það er erfitt að hundsa þá pælingu að Peli hafi ekki verið með efnið nógu vel skipulagt. Svo hef ég heyrt að hann hafi upprunalega ætlað að enda myndina öðruvísi og var sá endir jafnvel tekinn upp. Viðbrögðin þóttu víst ekki nógu sterk þannig að það var krafist þess að nýr – og talsvert meira sjokkerandi – endir yrði settur í staðinn. Ég er mjög forvitinn að sjá gamla þennan endi, en ég fíla þennan nýja mjög vel, þó svo að hann sé svolítið í hefðbundnari kantinum. Maður verður annars að spyrja sig hvort að aðstandendur hafi frekar fórnað almennilegri úrlausn fyrir hræðslugildið.

Það sem bjargar myndinni þó og bætir upp fyrir nokkra vankanta er skjáparið sem myndin fjallar um. Manni líkar strax við persónurnar og finnur til með þeim þegar atburðarásin fer af stað. Spennan stigmagnast líka þegar manni er ekki sama um fólkið á skjánum. Og jafnvel ef fólk er ekki hrætt við þessi „gimmick“ sem eru notuð, þá er alltaf hægt að líta á myndina sem athyglisverða karakterstúdíu um afskaplega eðlilegt og indælt par sem smám saman brotnar niður og hringsnýst niður í skuggalegt svarthol.

Það er að sjálfsögðu einstaklingsbundið hvernig Paranormal Activity leggst í mann, og persónulega finnst mér gríðarlega mikilvægt að það sé horft á hana með fullri athygli og auðvitað í algjöru myrkri, á stórum skjá með hljóðið hátt stillt. Þeir sem kunna að meta trausta sálfræðihrollvekju sem gerir nákvæmlega það sem hún ætlar sér verða alls ekki svekktir. Þetta er ekki týpísk gelgjuhryllingsmynd að neinu leyti, og ef maður sýnir ekki þolinmæði á meðan áhorfi stendur verða áhrifin ekki þau sömu. Ég mæli allavega sterklega með þessari mynd og frá því ég sá hana ákvað ég að sofa tímabundið með ljósin kveikt frammi.

Besta senan:
Þegar maður sér „fótsporin!“ Því þá hugsar maður: HÓ-LÍ KRÆST!!

(þessi grein er upphaflega skrifuð þann 4.11.2009)

Sammála/ósammála?