The A-Team

The A-Team er ekkert annað en dæmigerð sumarmynd, nema í stað þess að vera ein af þessum fokdýru, kjánalegu og klisjukenndu, þá fellur hún í þann hóp að vera ein af þessum sem eru svo tryllt skemmtilegar, alveg sama hversu yfirdrifnar þær eru. Myndin setur sér það einfalda markmið að skemmta áhorfendum sínum með látum og karlmennsku, og henni tekst það með stæl. Hún er gjörsamlega troðin hasarsenum, óraunsæjum áhættuatriðum og skemmtilega þurrum one-linerum. En hasar og gaman er akkúrat það sem ég vildi sjá áður en ég settist niður til að horfa á þessa mynd. Helst vildi ég reyna sem minnst á heilabúið og ég mæli með því að þið stillið væntingar líka þannig fyrirfram.

Keyrsla myndarinnar er sterkasta hlið hennar. Hún er ofboðslega hröð og hættir nánast aldrei nema til að krydda örlítið upp á pappírsþunna plottið eða tvívíðu persónusköpunina. Það hljómar eins og galli auðvitað, en þegar um svona mynd er að ræða, þá skiptir fátt annað máli heldur en fjörið og töffaraskapurinn. Joe Carnahan er líka fagmaður í kaosi. Þeir sem sáu myndina Narc ættu að vita að kallinn leikur sér að hráum stílbrögðum eins og það séu tússlitir. Smokin’ Aces var síðan lítið annað en æfing í hæfileikum Carnahans til að byggja upp hasar í kringum þennan hæper stíl sem hann hefur. The A-Team ber næstum því sömu útlitseinkenni og sér um að hafa stílinn jafn öfgakenndan og hasarinn á köflum. En kaldhæðnislega kemst þessi mynd óvenju vel upp með það að vera ýkt og yfirdrifin. Hún líka afsakar sig fáránlega vel. Liam Neeson orðar það best sjálfur í seinni hlutanum: „Overkill is underrated.“

Annað sem lætur myndina virka er samspil leikaranna. Liam Neeson, Sharlto Copley (úr District 9), Bradley Cooper og Quinton „Rampage“ Jackson uppfylla allir sín skilyrði með því að vera harðir og einstaka sinnum fyndnir. Þessir tveir fyrstnefndu skilja samt dýpstu sporin eftir sig. Neeson nær auðvitað alltaf að vera töffari þegar hlutverkið býður upp á það og Copley er næstum því stöðugt fyndinn sem Mad Murdock, sem er áberandi ekki heill á geði þar sem hann hlær í hvert sinn sem hann er við það að deyja. Fjórmenningarnir eru samt svo svalir og ná svo vel saman að manni er samstundis skítsama um aðra leikara á borð við Jessicu Biel og Patrick Wilson þegar maður sér þá. Wilson nær samt að vera skíthællinn sem honum er ætlast til að vera þannig að hann fær smá hrós fyrir það.

Ég hef samt ekki minnstu hugmynd um hvernig þessi mynd mun leggjast í aðdáendur sjónvarpsþáttanna, því ég hef bara ekki séð nógu mikið af þeim. Það sem ég veit er að Carnahan ásamt Scott-bræðrum (Tony og Ridley – sem eru meðframleiðendur) tók gáfaða ákvörðun með því að „pimpa“ aðeins upp þessa ’80s froðu sem þættirnir voru ásamt því að vera nokkurn veginn í takt við þá efnislega. En þegar öllu er á botninn hvolft þá get ég tvímælalaust sagt að ég hafi fengið nákvæmlega það sem ég vildi út úr þessari mynd.

Við erum að sjálfsögðu ekki að ræða um neitt sem skilur einhvern svakalegan hvell eftir sig, og ég er einnig nokkuð viss um að flestir verða búnir að gleyma myndinni eftir nokkra daga. En það þýðir samt ekki að Neeson og félagar geti ekki skemmt ykkur með þvælunni sinni á meðan lengdartíma stendur.

Sterk sjöa fyrir líflega þvælu. Hvað annað?

Besta senan:
„Satan walks into this bar…“

ATH. FORÐIST Extended-útgáfuna (sem er 15 mínútum lengri). Hún er teygir lopann óþarflega mikið í frekar gagnslausum senum og almennt séð er flæðið í fyrri helmingnum ekki eins öflugt og það er í bíóútgáfunni.
Og þegar mynd af þessari týpu hreyfist hægar heldur en hún ætti að gera, þá eru gallarnir (t.d. grunna plottið, augljósi skúrkurinn, óspennandi aukapersónur, misgóðar brellur) oft mun meira áberandi. Þannig er einmitt tilfellið hér.

Sammála/ósammála?