The Expendables

Að lýsa The Expendables er eins og að lýsa flestum karlmönnum; Myndin er barnalega einföld og hugsar mestmegnis um aðeins eitt hlut. Að vísu, í þessu tilfelli er miskunnarlaust ofbeldi það helsta sem svífur í kringum heila þessarar myndar í staðinn fyrir það sem við karlkynið hugsum oftast um. Þessi testósteróntrukkur er einnig alveg rosalega ástfanginn af sjálfum sér og hreðjum sínum sérstaklega. Söguþráðurinn er ekkert nema afsökun til að líma saman hasarsenur og persónusköpun er algjörlega látin vera, þar sem í staðinn koma pappafígúrur sem eru annaðhvort sköllóttar, bilaðslega vöðvastæltar eða bæði, fyrir utan litla, stórhættulega Kínverjann sem talar bjagaða ensku. Sylvester Stallone áttaði sig samt á því strax að hann væri ekki að gera þessa mynd fyrir gagnrýnendur eða art-mynda fíkla, heldur fólk sem fær óhugnanlega ánægju úr því að sjá yfirdrifnar sprengingar, one-linera, limlestingar og granítharða töffarastæla sem fá vonandi bringuhárin til að vaxa um nokkra millimetra.

Ég vissi nákvæmlega hvað það var sem ég vildi fá út úr þessari sterasamloku, og viti menn, ég fékk einmitt það sem ég vildi – eða svo gott sem. Ég fékk reyndar einfaldaðri útgáfu af ræmunni sem ég hefði vonast eftir (meira um það bráðlega) en hún er engu að síður hröð, skemmtileg og kaótísk. Hávaðinn og klikkunin sem á sér stað í lokahlutanum á myndinni ætti að halda hverjum einasta manni í salnum vakandi, og líklegast með galopinn kjaft og smásuð í eyrum. Stallone sér til þess að senda markhóp sinn labbandi út úr salnum með vítt bros límt við smettið. Þegar öllu er á botninn hvolft eru til aðeins tvær týpur af kvikmyndaáhugamönnum þegar kemur að svona myndum: Þeir sem vilja ekkert með svona þunnildi hafa og kunna ómögulega að slökkva á heila sínum í 90 mínútur, og síðan þeir sem sjá ekkert rangt við það að eyða jafnlöngum tíma í sterabaði eins og þessu.

Það hefði samt verið hreint út sagt brilliant hefðum við fengið mynd sem nýtir leikhópinn stóra örlítið betur, eins og t.d. eitthvað í líkingu við The Dirty Dozen eða Magnificent Seven. Hefði Stallone tekið sér aðeins meiri tíma í að gera þessa mynd, víkkað skjátíma lykilhópsins, leyft hverjum og einum að gera meira (og kannski bætt við Bruce Campbell og Liam Neeson? bara svona persónulegir draumórar), þá hefði The Expendables orðið að öflugustu strákamynd sem hægt væri að finna á seinastliðnum 10 árum. Markaðssetning þessarar myndar þrýstir öllum þessum frægu hasarhetjunöfnum við andlitið á okkur á meðan myndin fjallar í rauninni bara um Stallone, Jet Li og Jason Statham. Svo koma Eric Roberts og Dolph Lundgren en allir aðrir eru til að fylla upp í laust pláss. Ég mundi samt kvarta meira ef myndin hefði ekki nýtt þessa efstu þrjá eins og hún gerði. Og nokkrir sem tilheyra „skrautinu“ fá einnig ágætis móment til að sýna hvað í þeim býr.

Stallone er svo vanur svona hlutverkum að hann gæti gert það jafn vel á meðan hann gengur í svefni. Li er alltaf flottur og lærir smám saman betri og betri ensku með árunum. Statham er þó einhver langsvalasti gaurinn á skjánum, og miðað við þau nöfn sem hér eru að finna segir það SLATTA. Held að hann hafi aldrei verið jafnharður í sér og hérna, og ef þetta hlutverk átti að vera leið hans til að sanna sig sem einn sá allra svalasti í hasarmyndageiranum, þá stóð hann sig eins og stórmeistari. Snillingurinn Terry Crews – sem gerir allt betra sem hann leikur í – fylgir svo fast á eftir í öðru sæti og Dolph-inn svo í þriðja. Annars er að sjálfsögðu betra að hafa lítið af mönnum eins og Mickey Rourke og Bruce Willis heldur en ekkert, en það er augljóst að þeir hafi verið fengnir í mjög stuttan tökutíma bara svo þeir geti verið með á plakatinu – til að gera markaðssetninguna ennþá meira villandi. Tortímandinn fær einnig gott (en tilgangslaust) cameo, sem spilar skemmtilega með samband hans við Stallone í raunheiminum eins og það var áður.

Maður fær samt oft þá tilfinningu að þessir töffarar séu stanslaust að berjast (bókstaflega!) um skjátímann. Það er annaðhvort merki um að Stallone hefði átt að skipuleggja sig betur (og þarna tala ég um hann sem leikstjóra) eða hafa myndina aðeins lengri og kjötaðri. Ég gæti vissulega skrifað margar efnisgreinar um galla myndarinnar en mér finnst gagnslaust að meta hana eins og aðra hverja bíómynd þegar hún veit fullvel hvað hún er og hvað hún er ekki. Síðan virkar ’80s fílingurinn þokkalega (fyrir utan nútímalega shaky-cam tökustílinn) og ætti það að gefa eldra pakkinu smá nostalgíupest. Nokkrir bjórar ættu heldur ekki að skemma upplifunina.

Ég skil samt ekki alveg af hverju Jean Claude og Steven Seagal höfnuðu hlutverkum í þessari mynd. Ég skil mögulega Seagal þar sem hann var ábyggilega að gera Machete, en hafði Van Damme VIRKILEGA eitthvað betra að gera??

Besta senan:
Körfuboltavöllurinn, bryggjan og Terry með tröllavopnið sitt. Allt þrennt er best.

(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 13.08.2010)

Sammála/ósammála?