Taken

(Ath. Forðist PG-13 útgáfuna! Sem betur fer fengum við Íslendingar þessa óritskoðuðu en, til vonar og vara, reynið að vera smámunasöm í þessum málum. Þetta er lítið atriði sem skiptir öllu!)

Taken er nú helvíti langt frá því að vera frumleg bíómynd. Það sem hún er, aftur á móti, er fyrirtaks afþreying sem kemur sér beint að efninu og heldur þér í heljargreipum meðan þú horfir á Liam Neeson berja frá sér hvern vonda kallinn á eftir öðrum á meðan hann er í kapphlaupi við tímann í leit að dóttur sinni. Stærsti kosturinn við þessa blessuðu ræmu er einfaldlega sá að hún er í háum gír frá upphafi til enda og heldur spennunni nánast allan tímann. Handritið er voða standard, jafnvel fyrir mann eins og Luc Besson. Myndin er einföld en samt eitthvað svo skemmtileg og ef það væri ekki fyrir þennan stálharða töffaraskap í Neeson, ofbeldishlaðborðið og þessa keyrslu hefði myndin rétt eins getað farið beint á DVD. Flest allt sem Besson framleiðir virðist því miður eiga oft erindi þangað.

Neeson hefur alltaf verið toppleikari og átt ýmis móment sem sýna hversu brjálæðislega svalur hann getur verið. Það þekkja allir söguna; hann frelsaði t.d. fullt af gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni, var langflottasti karakterinn í glataðri Star Wars-mynd, talaði fyrir tilbeðið guðatákn í Narníu-myndunum, þjálfaði bestu bíóútfgáfuna af Batman og lék riddara í Kingdom of Heaven sem barðist heilu tvo daganna með ör í öðru eistanu (gerðu betur, hr. Norris!). Áður en ég settist niður til að horfa á Taken var ekkert sem bjó mig undir það hversu mikið þessi leikari ætti eftir að toppa sig í áliti hjá mér, enda leikur hann ekki hefðbundinn spennumyndakarakter, heldur jarðýtu með tilfinningar. Hann gerir kannski ekkert sem Kiefer Sutherland gerir ekki reglulega í 24-þáttunum (þ.e. að vera grimmur og hlaupa mikið), en karakterinn hans er algjör ljúflingur í rólega gírnum en svo dáist maður endalaust að taktíkinni hjá honum þegar villimaðurinn brýst út. Hann rústar mönnum eins og það sé ekkert flóknara en að fara með ruslið í tunnuna. Síðan lemur hann bókstaflega allt frá sér sem er í vegi hans. Maður heldur klárlega með þessum ofurpabba og trúir því að þessi maður gæti e.t.v. lúbarið Jason Bourne og Bond á sama tíma eins og smástelpur.

Myndin er langsótt og stundum fyrir neðan allar hellur í trúðverðugleika en því er bætt upp með öllu sem er hægt að bæta slíkt upp með. Leikstjórnin er miskunarlaus, þá á góðan hátt, og Pierre Morel (sem á undan gerði adrenalínvímuna District 13 – sem alltof fáir sáu) veit greinilega hvernig best skal meðhöndla svona hefndarmynd – ef hefndarmynd skildi kalla. Hún er svona eiginlega þessi snilldarblanda af hefndar-hasar og „ticking clock“ þriller. Leikstjórinn gerir sér a.m.k. grein fyrir hvað það er sem flestir vilja sjá af svona mynd, og hefur hann dauðar eða tilgangslausar senur í lágmarki, og afþreyingargildið í hámarki. Ekki margar myndir komast upp með slíka keyrslu, en þessi gerir það vegna þess að hún er svo asskoti þunn og stigmögnunin verður svo mikil og reiðin svo sterk að hún hlær beint í opið geðið á þeim sem gagnrýna hana fyrir að vera fulleinföld í efnistökunum.

„Stanslaus rússíbani frá upphafi til enda“ er lýsing sem ég kýs yfirleitt að fara sparlega með, en mér finnst hún alveg eiga við um Taken. Fyrri helmingurinn er hægari en sá seinni, en hann hoppar samt mátulega hratt yfir helstu upplýsingar. Persónur eru kynntar til leiks og sambönd þeirra, en svo um leið og söguþráðurinn er kominn á skrið, þá þýtur kvikindið af stað og neitar að hægja á sér það sem eftir er af lengdinni. Ef eitthvað, þá er pikkað svakalega upp hraðann því lengra sem á líður. Kvikmyndataka og klipping heldur myndinni líka á réttu nótunum, og kemur hvort tveggja vel út og setur réttan fíling á atburðarásina. Hljóðvinnslan er sömuleiðis helviti öflug. Brák í beinum og byssuhvellir koma þar mikið við sögu. Eðlilega.

Þetta er alls ekki fullkomin mynd, en svona myndir eru það nú voða sjaldan. Ég fyrir mitt leyti skemmti mér engu að síður konunglega og var límdur við tjaldið allan tímann. Það er líka með því jákvæðasta sem hægt er að segja um afþreyingarmynd, sérstaklega svona dæmigerða, og héðan í frá sef ég með risastórt plakat af Neeson við hliðina á rúminu mínu. Það veitir mér öryggi.

Besta senan:
Erfitt val. Svo sannarlega. En bara út af sjokk-gildinu ætla ég að nota stykkorðin „eiginkona“ og „flesh wound.“ Ég held að ég hafi misst andardráttinn í þrjár sekúndur.

(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 12.12.2008)

Sammála/ósammála?