Unknown

Liam Neeson er bara eitthvað það svalasta kvikindi sem er á lífi í dag. Þetta er ekki smekksatriði, heldur staðreynd! Eftir hina mjög svo óvæntu og eiturhörðu Taken er maðurinn bara opinberlega kominn í einhvers konar guðatölu. Hann hefur alltaf verið í svolitlu uppáhaldi hjá mér (þrátt fyrir örlítið bjagaðan amerískan hreim) en nú til dags þegar ég fer á spennumynd með honum er lítill krakki inni í mér sem öskrar hástöfum yfir hverju höggi sem hann gefur frá sér.

Ef þú ferð á Unknown í leit að nýrri Taken þá er ég hræddur um að þú verðir fyrir vonbrigðum. Ég mun samt skilja þig fullkomlega ef þú ferð með slíkar væntingar því markaðsdeild Warner Bros. hefur greinilega lagt blóð, svita og tár í að selja hana sem sambærilega bíómynd (meira að segja bíóplakötin eru furðulega Taken-leg). Unknown er meira í líkingu við Hitchcock ráðgátu í Bourne-stíl á meðan hin var straightforward „lemja-gaura-í-klessu“ mynd. Það er ágætan hasar hér að finna en það er ekki fyrr en á seinustu 10 mínútunum þar sem Neeson hrekkur í kunnuglega gírinn og breytist í slagsmálakónginn, og jafnvel það endist í rétt svo 5 mínútur. Taken-aðdáendur verða vissulega svekktir, en ég get lofað ykkur að þetta eru grjótharðar 5 mínútur.

Myndin fer vel af stað og nær athygli manns fljótt með áhugaverðu plotti sem þróast síðar út í algjöran absúrdleika. Leikstjórnin – og að sjálfsögðu aðalleikarinn – sér samt einhvern veginn til þess að þessi vitleysa nái alltaf að haldast skemmtileg, og þegar myndin reynir að byggja upp spennu þá oftar en ekki nær hún markmiði sínu. Söguþráðurinn heldur manni ávallt giskandi um áframhaldið og úrlausn ráðgátunnar er alls ekki jafn fyrirsjáanleg, ófullnægjandi eða bjánaleg og maður heldur á köflum.

Hún sígur kannski örlítið rétt eftir miðju og ef skal segjast eins og er þá er gríðarlegur „séð-þetta-alltsaman-áður“ fílingur á þessu öllu. Formúlur finnast dreifðar hér og þar, og persóna hennar Diane Kruger sennilega stærsta klisjan í allri myndinni. Ég efast samt um að slíkir þættir fara í þig ef þú ert tilbúinn til að kaupa allt sem er í gangi í þessari mynd. Ég gerði það og gekk ljómandi sáttur út úr bíóinu. Ég fékk kannski ekki aðra Taken, en myndin var heldur ekki að reyna að vera þannig.

Besta senan:
Það væri spoiler að segja það, en það kemur nokkuð skýrt fram í þessari litlu umfjöllun.

(þessi grein er upphaflega skrifuð þann 20.03.2011)

Sammála/ósammála?