Black Swan

Því verður aldrei neitað að Darren Aronofsky er hreint út sagt geðveikur leikstjóri, og þá á ég við báðar merkingar orðsins. Myndirnar hans, hvort sem þér líkar vel við þær eða ekki, finna sér sess inni í heilanum á þér og halda sér þar í óákveðinn tíma. Þegar Aronofsky er í stuði, þá grillar hann í þér þangað til þú getur ekki komið út úr þér einföldum orðum (sbr. Pi, Requiem for a Dream og The Fountain), en hins vegar þegar hann tekur létt á þér (The Wrestler) þá tekst honum samt að skilja eftir sín spor og gera eitthvað öðruvísi.

Black Swan undirstrikar aðeins það að þessi leikstjóri er alveg jafnhrifinn af tilfinningaríku kaosi í dag og hann var þegar hann byrjaði. Hann er aðeins meira á heimavelli hér en þegar hann gerði The Wrestler hvað andrúmsloft varðar en ekki alveg jafn beittur og í Requiem. Myndin situr samt einhversstaðar þarna á milli, bæði efnislega og tæknilega séð, og hún er eiginlega afrakstur þess ef myndirnar tvær yrðu skelltar saman í blandara. En þó svo að efniviðurinn sé kunnuglegur – þá aðallega fyrir leikstjórann – þá er Black Swan samt æðisleg mynd, og af öllum þeim 2010-myndum sem ég hef séð, þá er þessi sú sem fríkaði mig hvað mest út og hafði áhrifaríkasta endinn. Það er eitthvað við truflandi tæknivinnsluna, þessa myrku, symbolísku, lagskiptu mænd-fokk sögu og framúrskarandi frammistöðu hjá Natalie Portman sem gerir myndina alveg ógleymanlega.

Þessi KEXruglaða sýra er svo „intense“ allan tímann að hálfa væri nóg, nánast upp að þeim punkti að hún breytist hálfgerða hryllingsmynd, en rennur samt þannig hjá að maður er stöðugt dáleiddur við skjáinn. Það mætti þó saka myndina fyrir að vera heldur of einblínd á ringulreiðina og blekkingarnar heldur en tilfinningalega kjarnann, og ef þessi mynd er borin t.d. saman við The Wrestler og Requiem for a Dream þá hafa þær það fram yfir þessa að lykilpersónurnar náðu það sterkt til manns að maður fór í rúst þegar eitthvað slæmt kom fyrir þær, sama hversu gallaðar þær voru. Black Swan gerir nánast allt rétt, nema það að leyfa sögupersónunni að tengjast manni ögn betur. Hefði mér þótt eins vænt um Portman hér og Mickey Rourke í The Wrestler, eða fjórmenninganna í Requiem, þá hefði þessi perla fengið hjá mér fullt hús stiga án umhugsunar. Í staðinn bíður maður bara spenntur eftir óhjakvæmanlegum örlögum hennar, og nýtur þess alla leið.

Portman er svo ólýsanlega góð í hverri einustu senu að myndin verður erfiðari á augun og andlegu heilsuna einungis vegna hennar. Alveg síðan ég sá hana fyrst í Léon vissi ég að þessi stelpa væri efni í góða leikkonu en áður en ég sá þessa mynd taldi ég að Closer sýndi það besta sem hún gæti. Hlutverkið hennar í Black Swan er svo skuggalega kröfuhart en samt nær Portman að hitta naglann á höfuðið og gerir e.t.v. meira en maður héldi að væri hægt við rulluna. Þó svo að það sé stutt liðið núna er ég viss um að þessi leikur verði minntur sem einn af þeim kröftugri sem munu sjást á þessum áratug. Það skemmir alls ekki að aukaleikararnir eru mjög svo öflugir líka. Það eru þau Vincent Cassel, Mila Kunis (sem hefur aldrei verið jafn heit!), Winona Ryder og Barbara Hershey. Allar þessar aukapersónur hafa sín lög, þrátt fyrir mismikinn skjátíma, og ég get lofað því að álit ykkar á þeim mun breytast út söguna frá fyrstu kynnum.

Eins og gengur og gerist í tilfinningalegum rússíbönum að hætti leikstjórans þá tekur myndatakan, klippingin og tónlistin fullan þátt í óþægindunum og er séð vel til þess að áhorfandanum sé tuskað til jafn mikið og persónan sem við fylgjumst með. Aronofsky veit alveg hvað hann syngur og ég er fullviss um að daginn sem hann gerir mynd sem situr ekki örlítið eftir í manni þá fer hæfileikum hans sígandi. Mér þætti það nokkuð athyglisvert að sjá hvernig The Wrestler og Black Swan myndu koma út ef maður horfir á þær í röð, enda eru þær óopinberar systkinamyndir sem spegla hvor aðra nokkuð mikið í innihaldi sínu þótt gerólíkar séu. Hvað aðeins þessa mynd varðar ætla ég að skella góðri níu á þetta skrímsli, sem þýðir að ég skipa ykkur að sjá hana, en helst ef þið kunnið gott að meta. Og til þeirra sem hafa séð myndina: Sjáið hana aftur (!) og athugið hvort það var eitthvað sem fór framhjá ykkur í fyrsta áhorfinu. Ég er nánast handviss um það.

PS. Eins og það eru nógu margar ástæður til að sjá þessa snilldarsýru þá deila þær Portman og Kunis sjóðheitri senu gæti fengið kynvísar stúlkur til að efast um sína eigin kynhneigð eftir að hafa horft á hana.

brill

Besta senan:
Sálfræðilega, STURLAÐA ringulreiðin sem endirinn var!

(þessi grein er upphaflega skrifuð þann 16.02.2011)

Sammála/ósammála?