Requiem For a Dream

Requiem For a Dream er ein af örfáum myndum sem ég hef séð sem ég myndi segja að ALLIR í heiminum ættu að sjá, þar sem ég tel þetta vera ein af mikilvægustu og átakanlegustu dæmisögum sem hefur verið gerð á nýju öldinni. Auðvitað munu ekki allir meika það að horfa á hana, og þeir sem gera það fá löngun til þess að leggjast í fósturstellingu við tilhugsunina um hana, en ég veit ekki betur en að það sé nákvæmlega tilgangurinn með henni. Því ekki er nú alltaf fallegt lífið hjá hörðum eiturlyfjafíklum, nema ég sé að misskilja.

Það kæmi fólki á óvart hversu margar myndir um neyslu verða oft hægar, leiðinlegar og tilgerðarlega þungar á predikun, en þessi veit alveg hvaða leið á að fara. Darren Aronofsky tók ótrúlega djarfa og að mínu mati snjalla ákvörðun með uppsetningu og takt sögunnar, og hún lýsir sér einfaldlega þannig að þér líður allan tímann eins og þú sért dópaður á meðan myndinni stendur. Það er grimmur músík-vídeó andi yfir þessu öllu, sem getur þýtt dauði fyrir margar myndir – en ekki þessa. Kvikmyndatakan og klippingin setur sér engar reglur burtséð frá því að vera reglulega í takt við tilfinningar persónanna, og hún gerir það á svo beittan og áhrifaríkan hátt að myndin verður sífellt athyglisverð og lifandi.

Það sem gerir myndina samt svo óaðfinnanlega er að allir þeir styrkleikar sem hún hefur haldast þétt í hendur. Ef eitt af lykilhráefnunum yrði tekið burt (hvort sem það eru leikararnir, stíllinn eða ómetanlega tónlistin frá Clint Mansell), þá væri þetta ekki sama myndin. Leikararnir selja manni söguna og græja lífi í persónur sínar. Síðan, þegar þungu hliðarnar dragast að manni springa þessir leikarar alveg út og hitta á hverju einustu nótu. Og með hjálp frá alveg bandbrjáluðum (og vægast sagt óþægilegum) stíl ásamt tónlist (sem gefur flæðinu grípandi takt og situr lengi í manni) verður þessi „psychedelic“ martröð að ofvirku meistaraverki um brostna drauma, slæmar ákvarðanir og fíkn, í öllum sínum formum (dópfíkn, megrunarfíkn, sjónvarpsfíkn o.s.frv.).

Góð dramamynd á yfirleitt að gefa manni nokkur óvænt högg í smettið en þegar þessi er komin í gírinn, þá tæklar hún mann strax niður og lemur úr þér tennurnar á meðan þú liggur. Sagan hefur fullkominn strúktúr, með þessari klassísku þriggja kafla skiptingu, þar sem aðstæður og líf persónanna verða smám saman erfiðari og erfiðari í lok hvers kafla. Fyrst kemur dópaða hamingjufíknin, síðan versna málin talsvert  með hraðahindrunum áður en lokaþriðjungurinn dregur alla stöðugt dýpra og dýpra inn í helvítið. Aronofsky fer alls ekki fínt í neitt enda vill hann að sjá til þess að maður gleymi ekki afleiðingunum og andlega ruglinu sem myndast á skjánum, til að tryggja það að færri manneskjur í heiminum komi nálægt sambærilegum aðstæðum. Þess vegna ÞARF að sýna þessa mynd í öllum grunnskólum. Ekki forvarnarkennslu í menntaskóla, heldur GRUNNSKÓLUM!

Leikararnir í þessari mynd eru gjörsamlega brilliant. Jared Leto, Jennifer Connelly og Marlon Wayans (sem sýnir einstaklega óvænta hlið sem hann hefði alveg mátt glenna oftar) eru öll frábær þótt að Ellen Burstyn steli allri myndinni. Frammistaða hennar er svo óhugnanleg vegna þess að maður kaupir hana allan tímann og vegna þess að manni líkar ekki illa við persónuna er hún líkleg til þess að græta hin hörðustu steratröll þegar langt er liðið á myndina. Reyndar eru allar persónurnar í myndinni raunsæjar og viðkunnanlegar og þess vegna fær maður andlegt áfall þegar maður sér hvert líf þeirra stefna.

Requiem For a Dream er ástæðan af hverju Darren Aronofsky er fæddur til þess að gera öðruvísi kvikmyndir og segja dökkar, manneskjulegar, ryþmískar sögur. Allt sem hann lærði eftir frábæru frumraun sína, Pi, er tekið á nýtt stig og áhrif hennar skilja engan eftir ósnortinn, síst af öllu lokaspretturinn! Eftir að Darren gerði þessa mynd hefur hann nokkru sinnum komið nálægt því að gera mynd sem er jafngóð en, eins og staðan er í dag, er þetta besta, erfiðasta og örugglega mest skerí myndin hans – sem er nokkuð mikið sagt.

Besta senan:
Ef seinustu 20 mínúturnar fá ekki hjartað þitt til að slá á rakettuhraða, þá er þér ekki viðbjargandi.

Sammála/ósammála?