Star Wars: Episode 1 – The Phantom Menace

Auðgleymdar ferðir í bíóið eru því miður alltaf algengari heldur en þessar sem skara fram úr, og þannig er það á hverju ári. Þess vegna met ég það mikils þegar ég sé eitthvað sem hittir beint í litla, nöldrandi hjartað mitt og þess vegna elska ég þá hugmynd að koma með gamlar, sígildar myndir í bíó aftur. Þá er einmitt hægt að njóta þeirra eins og var alltaf ætlast til, þótt það sé alltaf betra að horfa á Star Wars-mynd á risastóru tjaldi með  miklum hávaða, þá er takmarkað hversu oft maður nennir að eyða tíma í eitthvað sem fer alltaf jafnmikið í taugarnar á manni – eins og fyrstu myndina af hinum margumtalaða prequel-þríleik, The Phantom Menace.

Ef fólk þarf í alvörunni að spyrja sig hvers vegna Star Wars-myndirnar eru gefnar út enn einu sinni í bíó, með tæknilegum nýjungum, þá greinilega hefur það ekki náð tökum á hugtakinu „kapítalismi.“ Áður en lengra er haldið mæli ég ágætlega með heimildarmyndinni The People vs. George Lucas, sem segir mestallt sem segja þarf um hrörnun seríunnar. Red Letter Media er líka meira eða minna búinn að loka allri Star Wars-umræðunni, en hann hafði líka meira en fjóra klukkutíma til þess að útskýra (í óhugnanlegum smáatriðum) hvers vegna merkið er löngu orðið ónýtt.

Það er ekki hægt að segja neitt um þessa mynd sem hefur ekki verið sagt hundrað þúsund sinnum áður (eða sagt betur af manni eins og Harry S. Plinkett), enda er hún þekkt sem einhver stærstu vonbrigði í kvikmyndasögunni. Eftir sextán ára bið bjuggust aðdáendur við vönduðu verki en frekar ákvað George Lucas að lemja þá í fésið í tvo tíma með dótageimflaug á meðan hann röflar um viðskiptadeilur með hátíðnirödd. Gamla trilógían var kannski ekki fullkomin en hún hitti á réttu nóturnar og gaf manni sögu sem gerðist í dásamlegum heimi, með skemmtilegum persónum og heilmiklu fjöri. Svo kom loksins fyrsta myndin í nýja þríleiknum, sem var illa skrifuð, barnaleg, pirrandi og óspennandi brellusúpa sem gengur mestmegnis út á það að selja leikföng, þrátt fyrir að vera einhver pólitískasta fjölskylduævintýramynd sem hefur nokkurn tíma borið þekkt vörumerki. Hinar tvær myndirnar voru töluvert skárri, en kjánahrollurinn var enn til staðar.

Nýju Star Wars-myndirnar, fyrir utan það að vera massaflottar og með æðislega John Williams-tónlist, eyðilögðu nafn seríunnar út af metnaðarleysinu og sölumennskunni og þess vegna er engin ástæða til að kíkja á þessa aftur (hvorki í bíó, né á Blu-Ray) nema þú sért undir tólf ára aldri og fílir píndan húmor, blikkandi ljós og skrípalegan hasar. Fullorðnir geta ómögulega haldið eðlilegum svip yfir vondu atriðunum og þau eru svo sannarlega mörg.

En stóra spurningin tengist náttúrlega helsta aðdragandanum fyrir nýju bíóútgáfunni: „Er þrívíddin góð?“

Skiptir það máli? Slök bíómynd hættir ekki að vera slök þótt sjónræna gildið sé örlítið betra. Og ef þú þolir ekki þrívídd, þá fer þetta einungis versnandi. Það er ótalmargt í The Phantom Menace sem ég get samviskusamlega kallað slappt ef ekki óásættanlegt; t.d. skelfilega ófókuseraði fyrsti hálftíminn, slapstick-húmorinn í Jar Jar (fokkaðu þér!) Binks, pínlega dýptarleysi karaktera, samtölin sem hljóma allt annað en eðlilega, óathyglisverði söguþráðurinn, talsmátinn í Jar Jar Binks, teygða Podrace-keppnin, grautþunna fimleikaillmennið, tilgangslausu fataskipti drottningarinnar og síðast en ekki síst sú staðreynd að Jar Jar Binks getur ómögulega leyft sér að hverfa í bakgrunninn þegar hann kemur atriðum ekkert við. Í staðinn þarf hann semsagt nauðsynlega að láta vita af sér með sálarkveljandi smábarnahúmor eins og hann sé með athyglisbrest, ofvirkni, Asperger-heilkenni og óþolandi rödd í einum pakka.

Myndin er ekki léleg, heldur bara asnalega útfærð og pirrandi út á alla kanta. Eitt það jákvæðasta sem ég get sagt er að hún er ekki beinlínis mökkleiðinleg því hlutirnir (sama hversu óþolandi) gerast oft hratt og virðist nóg um að vera á þessum tveimur tímum, en aftur á móti er hausverkurinn sem hún gefur manni í staðinn svosem lítið skárri. Sem betur fer tekst Liam Neeson að láta sínar stirðu línur hljóma eitthvað örlítið sannfærandi, enda er þessi naglharði töffari sá eini í allri myndinni sem rís upp óniðurlægður eftir þessa mynd. Ewan McGregor sleppur fyrir horn líka því hann fær það skemmtilega djobb að annaðhvort vera viðstaddur sem skraut eða taka virkan þátt í hasarnum. Hvað söguna sjálfa varðar kemur Obi-Wan henni lítið við í þessum kafla, sem er nokkuð góður díll, en það breytist auðvitað allt í næstu lotu.

fjarki

Besta senan:
Duel of the Fates. Jafnvel ef þú lokar augunum.

Categories: Ævintýramynd, Teiknimynd | 2 Comments

Post navigation

2 thoughts on “Star Wars: Episode 1 – The Phantom Menace

  1. Eftirfarandi ætti að hjálpa þér að ná þessu vonda Jar Jar Binks bragði úr munninum:

  2. Bravó!
    Þetta er einmitt það sem mig vantaði til að skola burt Jar Jar Binks bragðið. Ég hélt að ég þyrfti að liggja undir vaskinum í hálftíma eftir að þessi tölvugerði viðbjóður nauðgaði kjaftinum á mér með orðum eins og „Pee-yu-sa.“

    Þetta er líka eina Star Wars-myndin sem ég hef aldrei horft á oftar heldur en fimm sinnum.

Skildu eftir svar

Powered by WordPress.com.

%d bloggers like this: