Paranormal Activity 2

Þegar ég sé hrollvekju sem ég verð rosalega hrifinn af þá verð ég alltaf kvíðinn fyrir þeim degi þar sem framhaldsmynd skýtur upp kollinum. Við vitum auðvitað öll að langflestar framhaldsmyndir í þessum geira eru skólabókadæmi um metnaðarlausar endurvinnslur. Ég var ekkert minna smeykur heldur þegar ég komst að því að Paranormal Activity 2 ætlaði að skipta sér af „sögu“ fyrstu myndarinnar og reyna að byggja ofan á hana. Þetta hljómaði ekkert svo vel í fyrstu því eina ástæðan fyrir tilvist þessarar myndar er sú að sú fyrri breyttist skyndilega í óvæntan smell. Akkúrat núna er ég byrjaður að velta fyrir mér hvort örlög þessara mynda verði eitthvað í líkingu við Saw-seríuna, þar sem ein kemur á hverju ári og gæðin dala með hverju eintaki.

Ég bjóst við því versta áður en ég settist niður til að horfa á PA2, en fljótlega kom í ljós að ég var farinn að horfa á eitthvað sem hafði smá metnað á bakvið sig, og annað en margar framhaldsmyndir gera sem tilheyra geiranum þá ber þessi mikla virðingu fyrir forveranum og reynir að betrumbæta hann jafnvel með því að stækka út svokölluðu söguna með þessari mynd. Það er samt sem áður pínu hæpið að kalla þetta framhald því í rauninni er þetta forsaga. Ekki nema menn vilji vera ofurnákvæmir, því ef svo er þá er þetta 95% prequel-mynd og 5% framhaldssaga. Þið fattið hvað ég á við um leið og þið sjáið hana.

Helsti galli myndarinnar er samt einfaldlega sá að hún er meira af því sama. Það eru fáeinar breytingar í stíl (eins og það að fjölga kamerum með því að láta öryggismyndavélar bætast við – mjög áhrifarík tilbreyting) en annars er uppbyggingin alveg sú sama. Það sem gerir þetta að galla er að við sem áhorfendur erum núna orðin einu skrefi á undan frásögninni. Þegar ég sá fyrstu myndina hafði ég ekki hugmynd um við hverju átti að búast og hvenær, en núna veit maður hvað er verið að gera manni. Og með því að láta strúktúrinn vera eins er maður aðeins meira undirbúinn því sem er verið að hræða manni með. Ég hefði líka verið til í að sjá aðeins öflugri endi. Þetta litla „epilogue“ í lokin gerir mann mjög spenntan um leið og það byrjar, en svo bara hættir myndin og við vitum í rauninni ekkert meira en við gerðum þegar fyrri myndin kláraðist. Hefði ekki verið sniðugt að bara klára þetta allt núna í stað þess að krefjast annarrar framlengingar? Ég efast um að Paranormal Activity 3 sé málið þar sem þessi er þegar búin að stela svo miklu úr sínum forvera.

Ég er samt alls ekki að tæta myndina í sundur þrátt fyrir nokkra alvarlega galla. Ég nefnilega fílaði hana frekar mikið! Og ástæðan fyrir því er ekki flóknari en að hún hélt mér vel vakandi allan tímann (og mun sjálfsagt gera það næstu nætur heima. Svekk!) og fullt af atriðum voru svo taugatrekkjandi og truflandi að hálfa væri nóg. Hræðslan svínvirkar og þær örfáu nýjungar sem stíllinn kemur með hindrar það að manni líði eins og maður sé að horfa á sömu mynd aftur. Alveg eins og nr. 1 gerði þá nær þessi oft að halda ótruflaðri athygli manns þrátt fyrir að ekkert sérstakt sé á seiði á skjánum, og það er útaf því að andrúmsloftið nær að móta ákveðna óþægindatilfinningu sem breytir manni í litla gelgju þegar óhljóðin byrja. Báðar PA-myndirnar virða líka þá klassísku reglu að betra er að sýna lítið sem ekkert. Áhorfandinn fyllir í eyðurnar með eigin ímyndunarveiki.

Ef þessi mynd hefði komið með örlítið beittari endi þá hefðu báðar myndirnar verið mjög sterkar saman og virkað sem tvær tengdar hrollvekjur. Í staðinn ákvað hún að fara „sequel bait“ leiðina og það finnst mér vera heldur ódýrt. Ég mæli samt eindregið með þessari og tel hana hiklaust vera á meðal óþægilegri mynda sem ég hef séð síðan sú fyrri kom út.

Besta senan:
Eldhússjokkið!

(þessi grein er upphaflega skrifuð þann 01.12.2010)

Sammála/ósammála?