Haywire

Enn og aftur sannar Steven Soderbergh það sem mér hefur ávallt fundist um hann; Hann er sniðugur leikstjóri sem ég ber virðingu fyrir en næ aldrei að elska. Hann nýtur þess alltaf að prófa öðruvísi hluti sem eru kryddaðir einkennilegum stíl. Hann hleypur í hlutina eins og kvikmyndaskólanemi sem hatar normalt form, og það er ekki endilega slæmur hlutur. Ljóst er að minnsta kosti að ef bíómynd eftir þennan mann virðist vera dæmigerð úr fjarlægð, þá eru litlar eða engar líkur á því að hún sé það. Haywire er í rauninni Bourne-mynd með kvenmanni í aðalhlutverkinu, en bíósnobbið sem Soderbergh er sér til þess að hún sé svo miklu meira en bara það.

Það sem angrar mig við margar Soderbergh-myndir er að hann er stundum er upptekinn við það að stilla upp óhefðbundnum skotum eða velja skringilega tónlist að myndirnar sjálfar verða rosalega kaldar. Það vantar oftast spennu og sál í þær. Bestu myndirnar hans eru þær sem sameina viðeigandi stíl við flugbeitt handrit (eins og Out of Sight, tvær af þremur Ocean’s-myndum og Contagion), en það gerist voða sjaldan, og oftast þykjast handritin hans vera skarpari en þau eru. Ferskleikann vantar semsagt ekki, en bragðið er nokkuð dautt.

Það getur eiginlega hvaða leikstjóri sem er tekið beinagrindina að týpískri spæjaraspennumynd og útfært hana með einhvers konar artý retró-stíl og óhefðbundnu flæði, en trikkið er að gera slíka mynd spennandi og fyrst og fremst skemmtilega. Haywire er allt sem hún á að vera á yfirborðinu og maður sér alveg að leikstjórinn passaði að brennimerkja sig. Myndin er stundum eitursvöl og fer skrautlega að sumum hlutum en þegar upp er staðið er ekkert í innihaldinu sem mér var ekki drullusama um. Ég veit heldur ekki hvort það var meðvituð ákvörðun eða ekki að sleppa allri spennuuppbyggingu, en myndin komst aldrei á það gott skrið að ég fór að spennast upp í sæti mínu. Það gæti jafnvel verið að ég hafi verið nálægt því að geispa einu sinni eða tvisvar.

Soderbergh hlýtur að vera einhver léttlyndasti leikstjórinn þarna úti og þar af leiðandi með mjög þægilegan móral á setti. Það held ég a.m.k. miðað við hvað hann er mistækur samt alltaf góður með (þekkta) leikara og oftast hefur hann nóg af þeim. Í Haywire hafa safnast saman ýmsir fínir leikarar (og Channing Tatum) og sumir fá voða lítið til þess að gera. Varla samþykktu þeir bara hlutverkin til þess að fá tækifæri til að lemja kvenmann sem þeir eiga engan séns í. Gina Carano er allavega stjarna myndarinnar og styrkleikar hennar sem MMA-bardagakona skína alveg í gegn og koma að góðum notum í bestu atriðunum. Ef myndin hefði verið hraðari, hnitmiðari og ekki svona alvarleg, þá hefði Carano smellpassað. Tónninn hefði verið þá réttur og þá hefði ekki trúverðug frammistaða skipt eins miklu máli.

Fyrir utan það að líta andskoti vel út er Carano ekki sem verst á skjánum, en hún þarf að æfa sig betur ef hún ætlar að leika oftar. Kannski er hún ástæðan fyrir því að persónan nær engum tengslum við mann, en handritið gæti svosem líka verið sökudólgurinn þar (eða hvort tveggja). Þegar kemur að slagsmálasenum er harkan hins vegar í hámarki. Carano er líka svo grjóthörð að kynlíf með henni myndi krefjast þess að karlinn þyrfti að vera með hjálm og hnéhlífar. Hún gæti lamið mig fjórfalt án þess að kreista út einum svitadropa. Atriðin eru raunveruleg og brútal, en þegar áhugi manns á myndinni byrjar að fjara út, þá á það líka við um ofbeldið.

Þeir sem sleikja allt upp með bestu lyst sem lekur út frá Soderbergh, þeir eru líklegri til þess að sjá eitthvað í Haywire sem ég gerði ekki. Ef ekki, þá munu þeir e.t.v. bara eiga auðveldara með að hundsa gallanna. Ef myndin er að reyna að vera spennumynd, þá mistekst henni frekar mikið. Ef hún er að reyna að vera gamaldags njósnaþriller, þá vantar allt bit og bragð í efnið. Enn og aftur kemur leikstjórinn með tilraun sem ég kalla athyglisverða, en athyglisvert er samt ekki nóg. Ég vildi gott bíó.

PS. Ljóst er að þessi mynd hafi verið sett á hilluna í nokkuð langan tíma. Soderbergh tók hana upp beint eftir The Informant (2009), og var þá Contagion gerð eftirá, þó svo að hún hafi komið út fyrr. Bara svona smá trivia sem greinilega segir að framleiðendur/dreifingaraðilar höfðu ekki hugmynd um hvað þeir voru með í höndunum.

fimm

Besta senan:
Slagsmálasenan með Tatum. Sem þýðir það að myndin verður aldrei betri eftir fyrstu senuna. Fúlt?
Ég held það nú bara.

Sammála/ósammála?