Project X

Gott partý er gott partý, og EPÍSKT partý er oftar en ekki þess virði að ræða um en þó í mjög takmarkaðan tíma ef maður upplifði það ekki sjálfur. Ég skil ekki alveg hvers vegna ég ætti að vilja horfa á heila bíómynd, og þá gamanmynd, í fullri lengd þar sem aðaláherslan er lögð á það að sýna hvað fólk skemmtir sér mikið með engu tilliti til þess að móta úr efninu það sem gerir góða gamanmynd þess virði að horfa á. Hún er einhæf, þreytandi, sjálfumglöð og, það sem verst er, voða sjaldan fyndin. Auk þess lemur hún allt fjörið úr „sögunni“ með því að gera allar persónurnar að valsandi klisjum og found-footage formið er ekkert nema hausverkur og afsökun til þess að gera myndina ódýra.

Það gerist svo mikið í þessari mynd, en samt leið mér eins og það gerðist ekki neitt… fyrr en í lokahlutanum. Ég er ekki einu sinni svo viss um að ég myndi sjálfur nenna að horfa á 80 mínútna vídeó af partýi sem ég var persónulega staddur í og kvikmyndaði. Kannski myndi ég kunna betur að meta það sem Project X er að reyna að gera ef hún gerði eitthvað brakandi ferskt eða myndi í það minnsta bjóða upp á unglingadjöfla sem væri gaman að fylgjast með. Ég er ekki einu sinni að ætlast til þess að myndin gefi mér viðkunnanlegar eða þrívíðar persónur, heldur bara karaktera sem standa eitthvað aðeins upp úr minninu svo það sé einhver tilfinning fyrir metnaði í framleiðslunni.

Persónurnar heita allar sömu nöfnum og leikararnir, og atburðarásin er ekkert nema kaos út í eitt, eins og ekkert skipulag hafi verið á tökunum, annað en að sjá til þess að það væri nóg af fullu fólki í partýinu. Allt annað sem líkist sögu eða persónusamskiptum er bara leið til að drepa tíma og fylla upp í lengdina. Lengi velti ég því fyrir mér hversu stór hluti af myndinni væri í rauninni spunninn á staðnum. Ég giska svona 75% af því sem við sjáum.

Það eina sem Project X gengur út á er að sýna hvernig steindauð afmælisveisla verður að stjórnlausu partýi. Hún gengur eins langt með brjálæðið og 12 miljón dollara fjármagn leyfir, en þegar maður veit nákvæmlega hvert þetta allt stefnir verður það stöðugt meira augljóst hversu mikið uppfyllingar-gimmick þessi mynd er. Það er hnefafylli af skemmtilegum uppákomum sem dreifast um hér og þar, en oftast með löngu millibili. Mesta fjörið (burtséð frá túttuskotunum og reiðum dverg) er auðvitað í síðustu 10 mínútunum en eins og margt annað byrjar lokaspretturinn líka að þreytast töluvert. Leikstjórinn ryðst inn á persónulega svæði manns – hoppandi upp og niður – og spyr hvort manni finnist þetta ekki ROSALEGA klikkað allt saman. Svarið við því er: Jú, þetta er nefnilega dálítið klikkað. En þegar þetta er það eina sem myndin sýnir áhuga sé ég ekkert nema bara ósköp venjulegt gimmick.

Gleymum því svo ekki að það er næstum því ómögulegt að horfa á myndina án þess að líða eins og maður hafi séð hverja einustu persónu einhvers staðar áður; t.d. saklausa, reynslulausa slánann (sem Michael Cera hefði venjulega leikið), besta vininn sem lætur eins og skíthæll með sorakjaft og greddu og síðan sorglega lúðann sem telur sig eiga meiri séns í kvenfólk en hann hefur. Allir þessir prófílar voru t.d. notaðir í Superbad, og mun betur. Reyndar er Project X eins og found footage útgáfan af Superbad, en bara ef sú mynd hefði verið með óminnisstæðari leikurum, lélegri bröndurum og einfaldari, fyrirsjáanlegri atburðarás. Þessi er þó villtari og töluvert ódýrari. Það er eitthvað, en ekki nóg.

Álit mitt á found footage geiranum er ekki að hækka mikið eftir að hafa horft á myndina. Project X hefur sniðuga og skemmtilega grunnhugmynd en greinilega ruku aðstandendur of hratt í að kvikmynda hana, og það er slæmt merki þegar svona stutt mynd dregst á langinn áður en klukkutími er liðinn. Í stuttmyndaformi hefði þetta kannski brillerað. Ég held samt að drengir sem eru nýbyrjaðir að kynnast áfengi og sjá ekki heiminn fyrir brjóstum og rössum eiga kannski eftir að sjá einhverja snilld í þessu sem við hinir með alvöru bíóáhuga (og snobbaðir foreldrar) munum aldrei átta okkur á. En þeir sem munu ná að hlæja oft yfir myndinni eru álíka líklegir til þess að hlæja sig andvana yfir öllu því helsta frá Happy Madison-teyminu, og þessi mynd er grófari heldur en flestar þeirra, sem eykur kannski ánægjuna.

Ég elska að sjálfsögðu bjór, stemmningu, eyðileggingu og blautar stelpur í sundlaug jafnmikið og annar hver karlmaður. Það er margt í lífinu sem ég hef ótrúlega gaman að en það þýðir ekki að ég nenni að horfa á manneskjur gera þessa sömu hluti á kameru endalaust. Partýgamanmynd á að gefa mér eitthvað smávegis extra og einu raunhæfu kröfurnar eru skemmtilegar persónur og góður húmor. Mér leiddist hins vegar bara í skömmtum og það tel ég vera eðalhrós, alveg eins og ég skemmti mér bara í skömmtum. Það kalla ég ávísun á miðjumoð.

Besta senan:
Allt með öryggisvörðunum. Þeir áttu bestu partanna.

Sammála/ósammála?