Act of Valor

Ef einhver myndi velta fyrir sér hvernig mynd eftir Michael Bay yrði eftir að hann myndi missa annað augað, fá heilaskaða og nota svona 5% af fjármagninu sem hann notar venjulega, sem dælist í handrit sem var skrifað á handabakið hans, þá yrði Act of Valor sú ólyktandi filma.

Jákvæðustu áhrifin sem þessi hafði á mig var að sýna mér hversu mikið allir hafa vanmetið Bay sem kvikmyndagerðarmann. Auðvitað má finna margt sem hans myndir og Act of Valor eiga sameiginlegt (t.d. blæti fyrir sérsveitarmönnum, slow-mo, bjánaleg tónlist, hlægileg dramatík og kaotísk myndataka) en a.m.k. er Bay orðinn expert í að fróa kananum á meðan þessi veit ekkert hvora höndina á að nota. Þess vegna er Act of Valor ekkert mikilvægari eða meira spennandi heldur en ruslahaugur að nóttu til. Myndin er líka hársbreidd frá því að vera áróðursmynd og vantaði bara skilaboðin í lokin: „Við erum bestir í heiminum! Gakktu til liðs við okkur og berstu fyrir fjölskyldu þína.“

Myndin má eiga það að vera raunsærri heldur en allt sem Bay hefur gert, en þegar efnistökin eru svona óvönduð gæti mér ekki verið meira sama og fór ég umhugsunarlaust að þrá eitthvað ýktara og fjörugra. Myndin er ekki svo slæm í byrjuninni og hún rétt svo kitlar athyglina fyrsta hálftímann eða svo. Sérsveitarmennirnir sýna hversu skipulagðir, óttalausir og töff þeir eru og í smátíma er útlitið á atburðarásinni ekki svo slæmt. Stundum nær kameran öflugum skotum en ég myndi dást meira að þeim ef myndatakan væri ekki oft svona amatör og leiðinleg. Það svífur svo mikill stafrænn sjónvarpsmyndabragur yfir allri framleiðslunni (sem er ekki skrítið vegna þess að ég held að myndin hafi upphaflega ekki átt að fara í bíó) og maður nær aldrei að sogast inn í hasarinn og spennuna eins og ætlast er til. Þetta er eins og heimildarmynd sem hefur verið endurröðuð í klippiherberginu til að líta út eins og bíómynd, með viðbættum atriðum úr sjónvarpsþáttum um hryðjuverk að hætti 24.

Eftir þennan fyrsta hálftíma áttar maður sig fljótt á því að persónusköpun er ekki bara fjarverandi, heldur óskiljanlegt tungumál í augum þessarar myndar. Allir karakterarnir hrúgast saman í eina móðurkennda minningu og er ómögulegt að muna nöfnin á þessum helstu því það er aldrei stoppað til að gefa upp svo mikið sem óljósan bakgrunn. Svo þegar einhver deyr er skyndilega ætlast til þess að maður eigi að vera svekktur. Tónlistin verður væmnari og slow-mo skotin teygðari, sem sýnir að þessi mynd skammast sín ekkert fyrir það að fara eins ódýrt í hlutina og hún getur.

Í svona myndum er manni oftast frekar sama um allt ef persónusköpunin er slök, en þegar hún er svona hroðalega léleg byggist upp hatur og síðan óþolinmæði gagnvart heildarlengd myndarinnar. Manni dauðleiðist yfir hasarnum vegna þess að þetta eru bara flugeldar og öskur. FPS-skotin eru skemmtileg í smástund en síðan langaði mig bara til að finna tölvuleikjafjarstýringuna fyrir þessa mynd svo ég gæti hoppað beint í Menu og slökkt á henni. Það er enginn til að halda með og söguþráðurinn er svo úldinn og óspennandi að tveir tímar líða eins og sex. Það að þetta sé „byggt á sönnum hetjudáðum“ er engin afsökun til að matreiða svona metnaðarlausa sérsveitarmyglu sem sýnir okkur fullt af atriðum án þess að nokkur hugsun eða umhyggja sé lögð í þau.

Ef eitthvað þá eiga þeir sem upplifðu atburðina skilið miklu vandaðra verk. Ég skil samt ekki hvaða grænmeti datt það í hug að setja alvöru sérsveitarmenn í hlutverkin í myndinni. Oftast eru þeir látnir vera ráðgjafar í svona myndum, og af góðri ástæðu. Þessir sem leika í Act of Valor eru kannski reynsluríkir í aðgerðum, og það skín í gegn, en í dramasenum hélt ég fyrir augun svo þau myndu ekki slíta sér frá hausnum til að fremja sjálfsmorð. Ég hef svosem séð verri tilfelli þegar fólk reynir að gubba út úr sér drama, en hverjir sem þetta eru í þessari mynd virðast vera sannfærðir um það að þeir séu að slá á réttu dramanóturnar. Og það gerir rólegu senurnar ennþá vandræðalegri.

Það væri hægt að nota fyrstu 20 mínúturnar úr Act of Valor sem tiltölulega ómerkilega en samt þolanlega stuttmynd með stórfínu ofbeldi. Restin á myndinni má fara í rassgat, og aðeins þeir sem gera engar kröfur til bíómynda gætu séð einhverja afþreyingarmynd í þessu sem mér tókst ekki að finna. Annars er þetta alfarið fóður fyrir heimska kana og þá sem koma að bandaríska hernum á einhvern hátt. Myndin hefði aldrei átt að fá dreifingu annars staðar en vestanhafs til að byrja með…

Besta senan:
Ég verð nú bara að segja fyrsta mission-ið, eða allavega einhverjar leifar af því.

Sammála/ósammála?