Alice in Wonderland

Þegar ég heyrði fyrst að Tim Burton ætlaði að gera kvikmynd um Lísu í Undralandi þá gat ég ekki annað en orðið frekar bjartsýnn á heildina. Loksins hafði maðurinn aðgang að frægum heimi sem er eins súrrealískur og hægt væri að ímynda sér. Ég sá fyrir mér að þetta væri eins og rólóvöllur fyrir hann. Það ætti heldur ekki að vera erfitt að sjóða einhverja flotta sögu úr klassíska efninu sem er þegar til. Það er allavega nóg af hugmyndum til að leika sér með.

Svona í alvöru, hvað gæti mögulega farið úrskeiðis?

Þessi spurning hafði verið undirstaða væntinga minna. Ég get þó ekki sagt að Burton hafi alltaf verið góður leikstjóri, en ég hafði örugga trú á honum hér. Ég var samt ekki langt kominn inn í þessa nýju Alice in Wonderland-mynd þegar heilinn á mér byrjaði skyndilega að undirbúa svarið við þessari spurningu, sem er: Tjah, fyrir utan útlitið… Nánast ALLT saman!

Þessi mynd er ekki bara vonbrigði, heldur fyrirmynd vonbrigðar! Svo er hún líka bara einfaldlega slök. Hiklaust versta mynd Burtons til þessa (miklu verri en Planet of the Apes að mínu mati) og sömuleiðis einhver leiðinlegasta „flotta mynd“ sem ég hef lengi séð. Leikstjórinn feilar á gjörsamlega öllu sem gerir ævintýramynd þess virði að horfa á. Til að byrja með vantar alla sál og hlýju í söguna. Áhorfandanum er nefnilega slétt sama um Alice og alla skrítnu vini hennar. Þau eru kannski öll litrík og fjölbreytt að útliti, en býsna auðgleymd engu að síður. Frásögnin er líka bara merkilega löt, og maður er ekki lengi að fatta það að Burton tók sígildu sögurnar (Alice’s Adventures in Wonderland og Through the Looking-Glass), krumpaði þær saman og kastaði þeim burt úr augsýn. Í staðinn ákvað hann að búa til glænýja sögu úr gömlu heimildunum sem er látin líta út eins og framhald, og það gerir hann að sjálfsögðu með því að breyta öllu til. Minnir dálítið á myndina Hook, bara ekki eins „edgy.“

Hugmyndin að gera eitthvað nýtt með efnið er mjög sniðug, en þá er lykilatriði að leikstjórinn *skilji* efnið, sem mér fannst Burton ekki gera. Umhyggjuna vantaði alveg. Venjulega sér hann til þess að við höldum upp á óvenjulegu persónur sínar en hérna held ég að honum sjálfum hafi verið skítsama um allt og alla nema umhverfið. Þessi „nýja“ saga er heldur ekkert að virka. Hún er bara óáhugaverð í orðsins fyllstu merkingu og frekar illa skrifuð. Persónusköpunin er bara almennt léleg, atburðarásin líflaus svo ekki sé minnst á það að bæði spennu og skemmtanagildi vantar. Endirinn skilur mann líka eftir með þannig tilfinningu að maður spyr sig: „Er þetta virkilega allt og sumt??“ Svo til að nudda salti í sárið verður myndin svo barnaleg á köflum að ég sat hneykslaður í óþægilega langan tíma eftirá. Þetta er ein af örfáum Burton-myndum þar sem ég fékk gríðarlegan kjánahroll, og toppsætið hirðir stutt en pínlegt dansatriði hjá Johnny Depp í lokin. Er enn að jafna mig á þeirri sjón.

Talandi um Depp… Maðurinn hreinlega niðurlægir sjálfan sig í illa skrifuðu og frekar pirrandi hlutverki sem fær alltof mikinn skjátíma. Karakterinn er líka stöðugt að hoppa úr skoskum hreim yfir í smámæltan framburð án þess að nokkur útskýring sé þar á bakvið. Það tekur á taugarnar eftir stutta stund. Ég er mjög hissa á Depp, því eins og við öll vitum þá er þessi maður mjög kröfuharður þegar kemur að hlutverkavali. En hann er einnig faðir og góðvinur leikstjórans þannig að ákvörðunin hefur ábyggilega ekki reynst erfið. Ég hélt samt að hann hefði meiri sjálfsvirðingu en þetta.

Helena Bonham Carter sýnir smá lit, þótt mér finnist sú ákvörðun að gera Rauðu (hjarta?)drottninguna að sympatískum karakter vera hlægileg. Anne Hathaway virðist ekkert vita hvað hún er að gera og lítur út eins og hún sé á sveppum allan tímann. Ég var hálf þreyttur í handleggjunum bara á því að horfa á hana. Crispin Glover gerir svo nákvæmlega ekkert (án djóks, EKKERT) og því miður er það meira en ég get sagt um þá sem ljá raddir sínar. Þrátt fyrir slatta af hæfileikaríku fólki í aukahlutverkum voru aðeins örfáir sem skildu eitthvað eftir sig, og það munu vera Alan Rickman, gaurinn sem talaði fyrir sturlaða hérann og Matt Lucas (Little Britain). Lucas hitti naglann á höfuðið í hverjum einasta ramma og var vægast sagt fullkominn sem tvíburarnir sem Tweedledee & Tweedledum. Hvað Alice sjálfa varðar, hana Miu Wasikowska, þá er ógurlega lítið að segja. Leikkonan er bráðfalleg en allan tímann svo áhugalaus. Ég er enn að velta fyrir mér hvort vitlaus stelpa hafi verið valin eða hvort að handritið hafi bara farið svona illa með góðan (og áberandi mikilvægan) karakter.

Þar sem þessi Alice in Wonderland-mynd er byggð upp eins og framhald þá koma alls kyns tilvísanir í „gamla“ ævintýrið, sem flestir þekkja. Við fáum meira að segja stutta flashback-senu sem sýnir söguna sem gamla Disney-teiknimyndin var gerð eftir. Ég var mjög fúll eftir þessa senu, því mér leið eins og ÞAÐ hafi átt að vera myndin sem ég vonaðist til að sjá hér. Burton hefði líka átt að vita betur en að skíra myndina sína eftir gömlu sögunni, í stað þess að láta hana heita Return to Wonderland eða e-ð álíka. Þetta er eins og Hook hefði bara einfaldlega heitið Peter Pan. Algjör ruglingur bara.

Ég átta mig heldur ekki á því hverjum myndin er ætluð. Persónulega finnst mér hún vera of barnaleg fyrir fullorðna og alltof súr og viðburðarlítil fyrir börnin. Hún gerir svo margt rangt að það er í sjálfu sér merkilegt að maður taki eftir einhverju jákvæðu. Burton hefur auðvitað aldrei ollið vonbrigðum þegar kemur að útliti, enda hefur það oftast haft forgang hjá honum. Myndin lítur auðvitað frábærlega út og þau fáeinu skipti þar sem Danny Elfman-tónlistin fær að njóta sín er hægt að hrósa andrúmsloftinu mjög mikið. En hvað þýða flottar umbúðir ef innihald pakkans er ekki upp á marga fiska?

Og hvað þá það að þýða að gefa ekki Elfmann-inum almennilegan kreditlista í byrjunni svo hann geti dregið okkur inn með músíkinni?? Ég er ekki frá því að besti parturinn við Charlie and the Chocolate Factory hafi verið byrjunin, út af þeirri ástæðu.

fjarki

Í hnotskurn fer þessi einkunn í tölvuvinnuna, fáeina góða brandara og nokkra fína karaktera, sem reyndar fá síðan ekkert að gera. Að auki digga ég setninguna: „I’m not crazy, my reality is just different from yours,“ sem segir eiginlega allt um Burton.

Besta senan:
Þegar Alice datt ofan í holuna. Það var alveg eins og það átti að vera.

(þessi grein er upphaflega skrifuð þann 04.03.2010)

Sammála/ósammála?