Funny People

(ath. Í þessari umfjöllun eru léttir spoilerar sem gefa sterkt í skyn hvert persónusköpunin stefnir í myndinni. Ef þú hefur ekki séð hana er betra að hoppa beint í síðustu efnisgreinina til vonar og vara)

Það er auðvelt að gera þau mistök að halda að hér sé einhver gamanmynd á ferðinni. Merkin eru ekki bara áberandi heldur skelfilega villandi. Titillinn er auðvitað fyrsta merkið, síðan kómísku aðalleikararnir og svo auðvitað Judd Apatow-nafnið. Í rauninni er eins og markaðssetningin sé viljandi að reyna að grilla í áhorfendum vonandi að einhverjir afmarkaðir hópar kunni betur að meta það sem þeir fá í staðinn. Þess vegna er lykilatriði að stilla væntingar rétt svo það sé hægt að sjá hversu ótrúlega góða mynd er hér um að ræða. Funny People á miklu, miklu meira erindi í dramaflokkinn, og þeir sem búast við öðru eiga eftir að líta reglulega á úrið eða klukkuna á gemsanum. Þ.e.a.s. ef þeir gefast ekki upp eftir hálftíma.

Ég skal reyndar sjálfur viðurkenna að ég vissi ekki við hverju átti að búast þegar ég sá bragðlausu sýnishornin. Ég hef fílað mest megnið af Apatow-gamanmyndunum og sérstaklega þær sem hann hefur leikstýrt sjálfur. Hann hefur oftast gott auga fyrir (spuna)húmor vel en passar líka alltaf upp á það að hafa persónusköpun í fyrirrúmi. En myndirnar hans eru samt svolítið góðar með sig stundum og tilhugsunin að þessi leikstjóri – og vægast sagt öflugi framleiðandi – myndi halla sig meira að dramanu, og í kjölfarið minnka brandaramagnið, var meira fráhrindandi heldur en ekki því hann hannar oftast myndirnar sínar þannig að dramað hjálpar gríninu, og öfugt. En skeptíska hugarfar mitt var greinilega tilgangslaust þar sem þessi mynd er hiklaust í hópi þeirra bestu sem hann hefur nokkurn tímann merkt sér.

Ég skal alveg segja að þessi mynd sé fyndin, því hún er nefnilega mjög fyndin. Það er t.d. hellingur af uppistandssenum (sem eru reyndar voða misfyndnar) og trúverðugum vandræðalegheitum, en samt sem áður er húmorinn sjaldan það besta við myndina. Af þeim myndum sem Apatow hefur leikstýrt er Funny People er með öllum líkindum sú þroskaðasta. Hún á næstum því meira sameiginlegt við myndir eftir James L. Brooks eða Cameron Crowe heldur en fyrri Apatow-verk. Það kemur meira að segja á óvart hvað hún er raunsæ í persónusköpun sinni. Það er voða lítill Hollywood-keimur til staðar og það er aldrei slæmur hlutur ef unnið er vel úr efninu. Það er að vísu ekki mikið um söguþráð hérna en það er gomma af persónum sem Apatow vill leyfa að njóta sín, og þær gera það. A.m.k. þær sem skipta máli.

Adam Sandler er í sínu besta hlutverki síðan Punch-Drunk Love, sem er skondið þar sem hann leikur hérna algjöra andstæðu við ljúflinginn þar. Hér leikur hann ógeðfellda útgáfu af sjálfum sér, þ.e.a.s. leikara sem gerir kjánalegar mainstream-myndir og er algjör skíthæll. Það er mjög erfitt að líka vel við hann, eða öllu heldur ómögulegt, en maður vill hafa trú á honum og dokar maður sífellt við og vonast eftir að hann sýni lágmarks kurteisi með tímanum. Mér finnst einmitt athugavert hvað persónuþróunin hjá Sandler er raunsæ. Ég þoli ekki þegar skíthælar í kvikmyndum taka ótrúverðugar breytingar á mettíma og verða allt í einu lífsglaðir og æðislegir (köllum þetta bara Ebenezer Scrooge heilkennið). Funny People sýnir okkur alvöruna með því að segja okkur að fólk breytist ekki svona allsvakalega á skömmum tíma. Í besta falli eru leiðindabelgirnir meðvitaðir um galla sína og reyna smátt og smátt að vinna úr þeim.

Sandler er nánast magnaður, og ég verð að viðurkenna að mér fannst Seth Rogen vera suddalega góður líka. Ég virkilega þoldi hann ekki í Observe & Report og var farinn að efa að hann gæti leikið annað en sömu týpuna alltaf. Í þessari mynd leikur hann mjög óöruggan einstakling sem maður heldur með. Það er e.t.v. skemmtilegast að fylgjast með þessum sálarlausa djöfli sem Sandler leikur en hjarta sögunnar er geymt í búknum á Rogen, og einkennilega, ófyrirsjáanlega vinasamband þeirra er það sem heldur myndinni á floti. Handritið tekur líka mjög hefðbundnar aukapersónur og treður aðeins flóknari persónuleika í þær en maður býst við. Eric Bana (skondið að sjá hann þarna. Man einhver hvað Rogen sagði um hann í Knocked Up??) er til dæmis kynntur sem hálfgerð „douche“ stereótýpa, en þróast síðan í viðkunnanlegan og afar jarðbundinn gaur. Svipað má eiginlega segja um Leslie Mann, Jonah Hill og Jason Schwartzman. Þau byrja sem eitt, en verða síðan að öðru.

Funny People er samt hæg og FÁRÁNLEGA löng (146 mínútur!). Mikið lengri heldur en margir kæra sig um. Apatow hefur líka alltaf haft þann vanda að vera aðeins of örlátur með lengd. The 40-Year-Old Virgin fannst mér óþarflega löng (sérstaklega eftir að Extended-útgáfan var gefin út) og Knocked Up var einnig vel á mörkunum. Þessi mynd er samt allt öðruvísi og vegna þess að hún stýrist meira af sögu og samböndum og minna af bröndurum fannst mér hún sleppa. Ég hefði nú samt ekkert brjálast ef Apatow hefði sótt skærin og tekið burt svona 10-15 mínútur. Sumar senur eru átakanlega teygðar og oft eru það þessar sem bæta ógurlega litlu við heildina. Svo eru örfá tilfelli þar sem Apatow hefði mátt einblína meira á önnur atriði. Mér fannst líka ákveðinn bút vanta inn í myndina, þá helst þegar persóna Sandlers ákveður að opinbera krabbameinið sitt. Skyndilega vita það allir í kringum hann og er eins og myndin hafi hoppað ósjálfrátt um nokkra kafla. Þeir sem eiga samt eftir að kvarta mest út af lengdinni eru þeir sem búast við pjúra gamanmynd. Apatow þarf að vísu að gera sér grein fyrir því að það elska ekki allir að horfa á dæturnar hans jafnmikið og hann sjálfur. Það tekur á þolinmæðina að sjá hvað þær fá mikinn óþarfan skjátíma.

Í mínum augum er Funny People ein af þessum myndum sem nýtur sín best uppi í mjúkum sófa heima í stofu þar sem lengdin nýtur sín best. Það eru mjög skiptar skoðanir á þessari mynd, en mér fannst hún æðisleg, og ég hvet alla sem hafa áhuga að eyða lágstemmdri (en raunverulegri) kvöldstund með áhugaverðum persónum að kíkja á hana. Það má vera að hún sé gölluð en þrátt fyrir það er hún svo manneskjuleg og býsna hugguleg til áhorfs. Mér finnst sanngjarnara að kalla þetta fyndið drama frekar en gamanmynd með dramatísku ívafi. Og þar sem að þetta er nú einu sinni Apatow er auðvitað slatti af blótsyrðum, typpabröndurum og sjúklega fyndnum gestahlutverkum (sem er ekki aaaalveg jafnalgengt í myndum frá Brooks eða Crowe). Ég er mjög forvitinn að sjá hvað kappinn gerir af sér næst, og fyrir mitt leyti er ég ánægður að sjá hann prófa nýja hluti frekar en að hætta á því að endurtaka sig aftur og aftur.

Besta senan:
Sandler djókar grimmt í Rogen og biður hann um að drepa sig. Drullugott!

Sammála/ósammála?