The Town

Ég man þá tíð þegar Ben Affleck var í skömmustulega litlu áliti á meðal hörðustu kvikmyndaáhugamanna. Þetta væga hatur átti sér stað einhvern tímann á eftir Dogma, á undan Gone Baby Gone og það spannaði yfir nánast heilann áratug. Stundum gerði ég mitt besta til þess að verja hann, því þrátt fyrir að velja mörg glötuð hlutverk kann maðurinn sitt fag. En fyrir kannski hverja góðu mynd sem hann gerði fylgdu svona fjórfalt fleiri sem voru annaðhvort ekkert spes eða hreint út sagt niðurlægjandi (Reindeer Games, Pearl Harbor, Paycheck, Gigli, Surviving Christmas… listinn er býsna langur). Venjulega er hrikalega erfitt að vinna sér inn virðingu áhorfenda aftur eftir svona langan tíma.

Þegar Gone Baby Gone (ein besta mynd ársins 2007) kom út fóru menn að hugsa: „Helvíti er hann flinkur leikstjóri, ætli hann geti þetta aftur??“ Núna höfum við The Town fyrir framan okkur, og sú mynd reyndist vera það góð að ég held að Affleck geti heldur betur hlegið framan í andlitið á þeim sem sögðu að hann hefði enga hæfileika. Þessi mynd er ekki bara rugl góð, heldur eitthvað sem ég mundi kalla skylduáhorf fyrir ykkur sem kunnið að meta góða glæpamynd með meiru.

Það eina sem í rauninni dregur myndina niður er sú staðreynd að við höfum séð margt af þessu áður. Klisjur, þrátt fyrir að vera í lágmarki, finnast dreifðar hér og þar og almennt er þessi efniviður fullkunnuglegur. Það þýðir samt auðvitað ekki að það sé ekki hægt að búa til gæðaefni úr þessu, og Affleck stígur ekki feilspor á mikilvægustu sviðum sögunnar. Handritið er afskaplega vel unnið og það er einkum áhugavert hvernig myndin flakkar stanslaust á milli þess að vera annaðhvort grípandi, kröftug eða einfaldlega skemmtileg. Það sem lætur hana samt skara örlítið lengra fram úr hefðbundnum glæpadramamyndum (og upp í meistaradeildina á meðal mynda eins og Heat og The Departed) er leikurinn. Allir sem hér sjást á skjánum eru virkilega, virkilega góðir, hvort sem um er að ræða Affleck sjálfan, Rebeccu Hall, Jeremy Renner, Jon Hamm, Blake Lively, Chris Cooper eða Pete Postlewaite. Bókstaflega hver og einn af þessum leikurum fær sitt móment til að leyfa ljósi sínu að skína og oft á tíðum er rafmagnað að fylgjast með þessum karakterum og spennunni sem myndast á milli þeirra.

Affleck hefur greinilega mikið lært á reynslu sinni sem leikari á þá kúnst að leikstýra, með því einungis að fylgjast með samstarfsmönnum sínum. Og burtséð frá því hvað manni finnst um sumar myndirnar hans, þá er ekki hægt að neita því að hann hefur verið oft heppinn og þ.a.l. unnið með alvöru fagmönnum í gegnum tíðina – sérstaklega hasarmyndaleikstjórum (við erum þar að tala um nöfn eins og John Frankenheimer, Michael Bay, John Woo o.fl.). Það kemur nefnilega mikið á óvart hvað maðurinn er góður með hasarsenurnar hér, og spennan deyr aldrei þegar hún er komin á flug. Gott verður síðan ennþá betra þegar maður sér að Affleck lætur athyglina aldrei fara frá sögunni, sama hvaða læti eru í gangi.

Það gerist ekki oft að maður sjái svona sterka byrjun á leikstjóraferli og eins traustur leikari og Affleck er þá held ég að allir geta verið sammála því að leikstjórn sé klárlega sterkari hæfileiki hans. Gone Baby Gone var frábær og þessi er ekkert síðri. The Town er að vísu einfaldari og staðlaðri þegar á heildina er litið. Samt get ég ómögulega dregið hana niður því þeir kostir sem einkenna hana eru svo sterkir að ég get varla annað en sagt að þetta sé eitthvað það besta sem ég hef séð í ár. Hvernig er það ekki merki um fyrirtaks leikstjóra þegar maður er svona auðveldlega tilbúinn til að fyrirgefa það sem maður hefur áður séð?

Besta senan:
Það er fullt af öflugum mómentum en hasarfíkillinn í mér elskaði Heat-lega hasarinn.

Ein athugasemd við “The Town

  1. Virkilega sammála, sérstaklega allt um Affleck, alltaf líkað vel við hann.

Sammála/ósammála?