The Wrestler

The Wrestler hefði alveg getað orðið góð mynd með einhverjum öðrum í aðalhlutverkinu. Handritið er nógu sterkt og frásögnin vel áhugaverð. Þetta er afar sérstæð karakterstúdía sem kafar djúpt ofan í líf einstaklings sem áhorfandinn telur ólíklegt að maður gæti fundið til með, en maður gerir það samt. Mickey Rourke gerir allt annað við myndina að aukaatriði og setur fókusinn algjörlega á sjálfan sig. Eins öflugur og stíllinn er, eins vandað og handritið er, þá hefur ekkert af þessu roð við þessa frammistöðu sem Rourke hefur núna eignað sér. Hann gerir góða mynd nánast að meistaraverki, og það er engan veginn hægt að segja að hann eigni sér myndina – heldur ER hann öll myndin!

Það gerist aðeins nokkrum sinnum á áratug að ein mynd veltur alfarið á einum leikara – og brillerar eins og þessi gerir. The Wrestler er algjörlega sniðin handa Rourke, rétt eins og There Will be Blood var sniðin handa Daniel Day-Lewis, Raging Bull handa De Niro, A Clockwork Orange handa Malcolm McDowell o.fl. o.fl. Ég get talið upp langan lista.

Mér hefur alltaf fundist Rourke vera svalur leikari með sterka nærveru. Hann hefur átt þunga og virkilega skemmda ævi, en einhvern veginn hefur það gert hann að betri leikara því undanfarin ár hefur hann stolið hverri mynd sem hann hefur verið í (Sin City ber helst að nefna, m.a.s. Domino). Aftur á móti gæti sjónlaus maður séð að hann er tvímælalaust fæddur í hlutverk Randys „The Ram“ Robinson. Ef að menn eru að velta fyrir sér af hverju ég tala svona mikið um Rourke í þessari umfjöllun um myndina, þá hafa þeir greinilega ekki séð hana, og vita þar af leiðandi ekki hversu mikilvægt „element“ hann er.

Saga Randys er einhver sú merkilegasta sem ég hef séð kvikmyndaða í mörg ár, og það er enn merkilegra hversu miklar kröfur eru gerðar af áhorfandanum til að halda upp á þennan mann. Við fáum að finna fyrir ókostum hans og sjáum það allan tímann hversu sorglegt einkalíf hann á sér. Hins vegar sér maður ósköp eymdarlega og jarðbundna týpu í honum sem auðvelt er að líka við, og það gerir það að verkum að manni er hvergi sama um hann.

Það halda eflaust einhverjir að Rourke sé einungis að leika „sjálfan sig“ í myndinni (þ.e. sorglegan, útbrunninn gaur) og þar af leiðandi ekki þurft að taka á leikhæfileikana. Þessu gæti ég ekki verið meira ósammála. Þetta hlutverk er gríðarlega krefjandi, og að fá áhorfandann til þess að virkilega vera annt um þennan mann er hrikalega erfitt – en Rourke tekst það. Við vitum jafnvel að Randy á oftast ekkert betra skilið, en þrátt fyrir allt vill maður að allt blessist hjá honum. Senurnar með honum og dóttur hans eru gífurlega hjartnæmar, enda sjáum við tröllvaxinn mann sem hefur fengið milljón högg á sig loksins finna fyrir því sem er virkilega vont í lífinu.

Myndin sýnir það hversu auðvelt er að vanmeta það mikilvægasta í lífinu, og það sem ég hreinlega dýrka við hana er það að klisja finnst nánast hvergi. Kannski í hámark tveimur senum en jafnvel í þeim tilfellum virka þær ekki á mann eins og klisjur og smella senurnar vel við söguna, sem er áberandi vel útpæld. Dramatísku atriðin eru aldrei væmin heldur.

Síðan verð ég að dást að þessum endi! Ég lofa að kjafta ekki frá en mér kveið einmitt hvað mest fyrir því að sjá söguna ljúka því mér fannst það ósköp tilvalið fyrir myndina að detta út í formúlu. Mér til mikillar ánægju gerðist ekkert slíkt. Myndin endaði akkúrat á réttum stað, og þá með glæsibrag. Það er eins og Darren Aronofsky viti að við sjáum klisjuna úr fjarlægð, og ákveði síðan að draga mottuna undan manni og útrýma henni fyrir fullt og allt.

The Wrestler er kannski ekki besta mynd Aronofsky (enda þarf margt til að toppa það magahögg sem Requiem for a Dream var), og hún er pottþétt sú einfaldasta, blíðasta og jafnvel hefðbundnasta. Hún markar annars aðdáunarverð stílskipti fyrir manninn, en myndirnar hans eru gjarnan þekktar fyrir að grilla vel í hausnum á manni (sérstaklega Pi og The Fountain). En þessi mynd er einföld í frásögn, og þar af leiðandi er stíllinn gerður mjög einfaldur. Myndatakan minnir gjarnan á heimildarmynd, en hún undirstrikar aðeins það hversu góður leikstjóri Aronofsky er. Myndatökustíllinn auglýsir sig aldrei og Aronofsky hefur vit fyrir því að hemla sig á brjáluðum klippingum. Sagan er klárlega best sögð svona; Tónlistin er líka það lágstemmd að dramað virkar miklu betur í stað þess að blóðmjólka augnablikið. Það fór samt dálítið í mig hversu oft sömu tónarnir voru notaðir, eins og það hafi ekki verið til nóg af músíkefni.

Þrátt fyrir vel unnið handrit og efnisinnihald ætti The Wrestler varla að fá að komast upp með það að vera meira en „helvíti góð.“ Myndin er voða hefðbundin á sumum stöðum og finnst mér skrítið að það skuli ekki sjást betur í gegn. Í höndum Aronofskys verður sagan einhvern veginn að svo miklu, miklu meira og er hann fullkominn leikstjóri til að gera betri mynd úr efninu, og hann gerir það fullkomlega.

Bætið síðan leiksigur Rourkes ofan á þetta allt ásamt nær gallalausum aukaleik frá Marisu Tomei (kona á fertugsaldri með kropp á við tvítuga gellu) og Evan Rachel Wood og þá er skyndilega orðin klassísk mynd hér á ferðinni. Hún á eftir að gleymast seint vona ég. A.m.k. mun ég sjá til þess að kíkja á hana oftar um komandi ár.

brill

Besta senan:
Heftisenan eða „Broken down piece of meat“ ræðan.

Sammála/ósammála?