Friends with Kids

Friends with Kids setur markmiðin sín nokkuð hátt. Hún vill vera skörp, hún vill vera fyndin, hún vill vera raunsæ og helst vera troðfull af duldum skilaboðum um lífið, sambönd og barneignir. Samt gengur hún líka í gegnum þessa sykruðu formúlu þar sem ómögulegt er að reikna ekki út framhaldið, og þegar maður horfir á uppskriftarmynd sem reynir svo stíft að vera snjöll, hnyttin og hugljúf, þá verða klisjuatriðin helmingi vandræðalegri. Mér leið eins og ég væri að horfa á Life as We Know it ef Woody Allen hefði endurskrifað hluta af handritinu og leikstýrt myndinni sjálfur.

Myndin er stundum fyndin – þó ekki nærri því jafnfyndin og hún telur sig vera – og í ýmsum tilfellum eru samtölin mjög góð, þá bæði gáfuð og athyglisverð. Þetta eru fyrirtaks kostir í sjálfu sér því þarna eru strax komnir þættir sem tíðkast ekki reglulega í rómantískum gamanmyndum (myndin þykist ekki vera slík, en hver og einn sér það strax að hún er það). Leikarasamspilið er sömuleiðis að gera sitt enda verður myndin aldrei betri en þegar hópurinn er allur saman kominn – sérstaklega í skíðabústaðnum. Það er eitthvað við þetta hópsamspil, margar kameruuppsetningar og nýtinguna á New York, eins og borgin sé aukakarakter í sögunni, sem gerir Woody Allen keiminn rosalega bragðsterkan. Svo breytist myndin í Hollywood-klisju.

Seinni helmingur sögunnar fer í gegnum svo þreyttar hefðir, sem passar varla við þann fyrri að mínu mati og þegar handritið byrjar að tefja söguna svo óhjákvæmilegi klisjuendirinn komi ekki strax, þá byrjar myndin alveg að tapa eldsneytinu. Þegar maður veit alveg hvaða leiðir myndin mun fara í þessum seinni hluta, þá situr maður bara og bíður eftir öllu því sem maður veit að muni gerast. Það er ekkert geysilega mikill sjarmi dreifður yfir persónurnar og sumar þeirra vissi ég ekki einu sinni hvað hétu almennilega. Þegar Jon Hamm kom t.d. á skjáinn eða Kristen Wiig, þá tengdi ég þau aldrei við einhverja karaktera. Ég leit bara á þau sem Jon Hamm og Kristen Wiig, svo einhverjir séu nefndir.

Þessi Jennifer Westfeldt er merkilega mikil krúttsprengja en hún er líka pínulítið að nudda sitt eigið egó. Það lítur allavega þannig út þegar hún skrifar, leikstýrir og setur sig í aðalhlutverkið í bíómynd sem þykist vera aðeins meira en hún er. Westfeldt stendur sig samt prýðilega á öllum sviðum. Hún er sæt og saklaus í einu aðalhlutverkinu. Ekkert voðalega eftirminnileg samt, frekar en ójafna handritið eða leikstjórnin sjálf. Það kemur lítið á óvart að Jon Hamm, kærasti Westfeldt í raun, steli senunni og sýnir sínu hlutverki mikinn áhuga, alveg eins og restin af (Bridesmaids) hópnum. Maður fær þá tilfinningu að þetta séu allt góðir vinir í raun. Ef það er satt, þá sést það. Ef ekki, þá er leikurinn greinilega betri en maður hélt.

Svo skýtur Edward Burns (hvar hefur þú eiginlega verið??) upp kollinum í smástund og gerir lítið annað en að vera myndarlegur og lágstemmdur þangað til sagan ákveður allt í einu að henda honum út eins og leikarinn hafi bara ekki nennt að mæta á settið lengur. Það gleður mig líka mikið að sjá hversu lítið túrbótruntan Megan Fox fær að gera, og það sem Friends with Kids gerir frábærlega er að sýna að þessi leikkona gerir varla mikið meira við tíu mínútna skjátíma heldur en burðarhlutverk í heilli bíómynd. Það tók mig reyndar smátíma að átta mig á því að Kristen Wiig væri að leika dramahlutverk. Maður er einhvern veginn með það forritað í hausnum að allt sem hún segir er sorgardrifin kaldhæðni, en hér er henni víst alvara. Ég elska hana samt enn.

Á endanum hefur þessi mynd samt voða lítið nýtt að segja, sem er annað en hún heldur. Það er fullt gott við hana en næstum því ekkert sem lætur hana skara fram úr. Friends with Kids er bara þessi týpíska sófamynd sem vinkonur og makar geta horft á saman án þess að hugsa til hennar næsta dag. Myndin hefur ætlað sér að verða einhver rosa máltíð en síðan endað sem fínasti forréttur.

fin

Besta senan:
Adam Scott og Nonni Skinka rökræða í bústaðarferð.

Sammála/ósammála?