Iron Man 2

Þegar fyrri Iron Man-myndin kom út árið 2008 lenti ég í algerum minnihluta með því að kalla hana ágæta en ekki eitthvað súper-geðveika! (eins og langflestir – og þar á meðal hinir hörðustu gagnrýnendur – töldu hana vera) Hún hafði sína kosti en yfir heildina var hún frekar dæmigerð og (dirfist ég að segja það?) auðgleymd. Robert Downey Jr. stal auðvitað senunni í mynd sem hefði verið gríðarlegt miðjumoð hefði hann ekki verið á svæðinu. Það fer líka rosalega í mig hvað strúktúrinn og almennt sagan er mikið afrit af ónefndri Batman-mynd. Ekki vera alltaf í svona mikilli afneitun og láta eins og þið tókuð ekki tekið eftir því!

Menn verða að fyrirgefa það ef ég fór ekki á Iron Man 2 á sínum tíma með rugl jákvæðu hugarfari. Ég auðvitað vonaðist eftir traustri afþreyingu og í versta falli jafngóðri mynd og nr. 1, en frekar vildi ég láta koma mér á óvart heldur en að stilla væntingar eitthvað hátt. Ég hallaðist þó meira að bjartsýni heldur en svartsýni þar sem Marvel-framhaldsmyndir hafa oftast verið betri en forverarnir (sbr. X2, Spidey 2 og meira að segja Silver Surfer skrípóskitan). Það er líka nánast sjálfsagður hlutur í tilfelli (ofur)hetjumynda. Fyrstu myndirnar þurfa oftast að axla þá byrði að kynna persónur, bakgrunn og m.a.s. heiminn, sem yfirleitt hámar upp skjátíma og skilur lítinn tíma eftir fyrir alvöru fjörið. Í seinni lotunum er yfirleitt meira frjálsleg frásögn, sem í mörgum tilfellum býður upp á ófyrirsjáanlegri atburðarás. Ég get hiklaust sagt það að Iron Man 2 sé ekki eins týpísk í frásögn og sú fyrsta, en þrátt fyrir að það sé fínn kostur í sjálfu sér þá skortir myndina það sem virkilega skiptir máli: Fokking fjörið!

Ég get a.m.k. hrósað fyrri myndinni fyrir að hafa traust flæði og ákveðna orku. Þessi er býsna flöt og alveg merkilega sparsöm á hasarinn þegar á heildina er litið, sem er undarlegt miðað við það að hér sé um pjúra sumar/afþreyingarmynd að ræða. Við fáum alveg nett aumingjalegan (og að mínu mati ALLTOF stuttan) bardaga á Formúlubraut snemma í fyrri helmingnum, en síðan kemur varla neitt fyrr en á síðasta korterinu (fyrir utan kómískan róbó-slag). Lokahasarinn er reyndar helvíti flottur en (alveg eins og ég nefndi áður) tekur alltof fljótt enda, og þá sérstaklega bardaginn við helsta lillmenni myndarinnar. Mér finnst það vera heldur slappt fyrir mainstream sumarhasar/ofurhetjumynd að geta ekki framkallað fullnægjandi skammt af hávaða. Leikstjórinn/leikarinn Jon Favreau sagði reyndar sjálfur að hann fékk tæplega þrjú ár til þess að gera fyrri myndina en rétt svo tvö til að rusla þessari út í bíó. Það er næstum því hægt að segja að það sjáist munur á vinnubrögðunum. Það er eins og Iron Man 2 vilji vera stærri myndin, en tímaramminn leyfði það ekki.

Mér væri samt skítsama um litla hasarmagnið ef myndin hefði eitthvað annað vitsmunalegt upp á að bjóða, en það gerir hún ekki. Handritið þykist vera mjög snjallt og telur sig vera að gera margt gagnlegt í einu. En nei… Myndin er bara troðin. Kannski ekki alveg eins pökkuð og t.d. Spider-Man 3 var, en hún engu að síður reynir að gera allt of mikið við of lítinn tíma. Það er jafnframt skondið hvað það virðist vera mikið í gangi þrátt fyrir að það sé varla nokkur vottur af söguþræði til staðar. Það virðist greinilega ekki hafa verið pláss fyrir neinn slíkan. Það er bara alltof mikið af persónum og samtímis reynir handritið að koma fullmiklum upplýsingum til skila á of stuttum tíma, hvort sem það tengist persónum eða sé bara einfaldlega upphitun fyrir Avengers-myndina. Það fer líka pínulítið í mig hvernig myndin ætlast of mikils til af áhorfendum sínum, til dæmis bara með því að leyfa Nick Fury (Samuel Jackson) að hoppa inn í miðja mynd án þess að það sé verið að minna mann á það *hver* hann er og nákvæmlega *hvað* það er sem hann gerir. Það er varla nefnt hann á nafn heldur. Favreau getur ekki ætlast til þess að ALLIR (þ.e.a.s. þeir sem eru ekki myndasögunördar) hafi séð senuna sem kom eftir kreditlistann í fyrstu myndinni. Frekar leim.

Leikararnir gera samt helling fyrir myndina, en þó ekki nærri því eins mikið og þeir ættu að gera. Robert Downey feilar ekki frekar en fyrri daginn, þótt ég vildi að handritið hefði gefið honum fleiri fyndnar línur. Það er annars dásemd að sjá fagfólk á borð við Mickey Rourke, Don Cheatle (sem tekur við Rhodey-hlutverkinu af Terrence Howard), Scarlett Johansson og Sam Rockwell á svæðinu (takið sérstaklega eftir hverjum ég sleppti, enda fer hún oft í taugarnar á mér). Þau skilja öll eitthvað eftir sig og snillingarnir tveir í hlutverki skúrkanna eru vafalaust bestir (á meðan SJÓÐheit Johansson fylgir sterkt eftir) en manni finnst samt eins og þau máttu gera miklu, miklu meira. Cheatle af öllum fannst mér mátt fá aðeins meiri athygli þar sem hann er greinilega mikilvægari karakter í þetta sinn. Og talandi um það… Hvernig í ósköpunum stóð á því að Rhodey gat bara allt í einu lært að fljúga um leið og hann fór í búninginn sem tók Tony Stark nokkuð margar tilraunir til þess að mastera?? Ég veit ekki hvort ég á að kalla þetta handritsgalla eða leti í leikstjóranum þar sem hann augljóslega pældi ekkert í því sjálfur.

Annars finnst mér þetta vera skólabókadæmi um mynd sem reynir að gera alltof mikið en með of litlum metnaði. Hún lyktar af flýttri framleiðslu sem hefur verið keyrð í gang strax í miðju peningaflóði fyrri myndarinnar. Ég vildi að hún hefði tekið betri myndasögumyndirnar til fyrirmyndar með því að kafa örlítið dýpra ofan í aðalkarakterinn, þ.e.a.s. persónuleika hans og erfiði. Myndin reynir að gefa Tony Stark alvöru vandamál en eftir ákveðinn tíma er eins og hún nenni ekki lengur að pæla í þeim. Reddingin er líka vægast sagt kjánaleg, og vísindalega séð algjör brandari.

Þó svo að það séu nokkur drullugóð atriði og fáein mjög fyndin (atriðin með „the ex wife“ vopninu voru organdi snilld) þá er svo margt sem vantar upp á til að gera þetta að verðugri en ekki bara skítsæmilegri afþreyingu. Sumir myndu kannski kalla þetta „nitpick“ í mér, en ástæðan fyrir þessari krufningu minni er einfaldlega sú að ég náði aldrei almennilega að sogast inn í þessa svokölluðu rússíbanareið og þess vegna fóru allir litlu hlutirnir að angra mig. Bestu afþreyingarmyndirnar eru þær sem fá þig til að reglulega missa þig úr gleði og útiloka heilbrigðan hugsunarhátt.

Besta senan:
Black Widow rústið. Eða allt með „pennanum.“

Sammála/ósammála?