Iron Man

Robert Downey Jr. er einn skemmtilegasti leikari í heimi sem er oftast eins. Ég hef notið þess að horfa á hann síðan ég sá hann fyrst í Chaplin þegar ég var 9 ára. Þá vissi ég strax hversu góður leikari hann er og veit ég síðan ekki hversu oft ég hef horft á Less Than Zero, Wonder Boys og Natural Born Killers. Downey er fullkominn sem Tony Stark, og í rauninni afskaplega djarft val á aðalleikara fyrir ofurhetjumynd. En annað en margir halda þá er takmarkað hvað kómískur spuni og persónutöfrar hjá einum góðum leikara geta mikið bjargað bitlausu og óeftirminnilegu handriti þegar á heildina er litið.

Ég ætla að koma mér beint að efninu og segja að Iron Man sé virkilega fín mynd. Ekkert mjög góð, en virkilega fín. Leikstjórinn/handritshöfundurinn/leikarinn Jon Favreau (sem ég mun alltaf kalla betri helming Vince Vaughn úr Swingers/Made) býr til glansandi sumabíó sem lúkkar töff, hljómar vel og er greinilega gert af miklum áhuga. Favreau hafði staðfest það að hann ætlaði að gera hálfgerða blöndu af James Bond-mynd og Batman Begins, bæði hvað stíl og frásögn varðar. Þetta hefur komist nokkuð vel til skila, en ekki endilega á góðan hátt.

Reynum að gleyma því í smástund að strúktúrinn á myndinni er klunnalega líkur Batman Begins (ekki láta mig fara að telja upp senurnar – sem ég geri þó pottþétt), því það er nógu stór kvörtun í sjálfu sér. Iron Man hefur reyndar ferskan, snyrtilegan stíl en alltof kunnuglegan efnivið (köllum þetta Origin 101). Hún er nokkuð skörp fyrstu tvo þriðjunganna en springur svo alveg út í skrípalega, ófullnægjandi tjöru í lokahlutanum (sorrý en ég hata „Translate“ senuna svooo mikið! Sjaldan séð eins aulalega handritsreddingu í stórri mynd sem þykist vera jarðbundin). Fyrirsjáanlega illmennið missir marks og anti-climax merkin eru fleiri en ég kæri mig um í ofurhetjumynd. Ég hef horft tvisvar-þrisvar sinnum á þessa mynd og alltaf í kringum klukkutíma markið hugsa ég: „Bíddu nú við, þetta er bara nokkuð gott!“ Svo finnst mér eins og hafi hellst heitt kaffi á „third act“ blaðsíðurnar í handritinu.

Aldrei mun ég skilja hvernig Iron Man gat fengið betri dóma á Rotten Tomatoes heldur en t.d. Batman Begins (hvað þá Inception, helvíti hafi það!). Mig langar að dýrka þessa mynd, en mér finnst hún bara ekki gera mikið sem Batman Begins gerði ekki töluvert betur. Nolan kom fyrst og Nolan fer alltaf síðastur út!

fin

PS. Takið eftir stórkostlega áberandi Burger King-auglýsingu…

Og já… Ef þið trúið því ekki að þessi mynd sé nánast bein eftirlíking af Batman, þá skal ég koma með nokkur dæmi:

(SPOILER – auðvitað)

– Milljarðarmæringurinn Bruce Wayne/Tony Stark kynntur til sögunnar, einhvers staðar úti í rassgati.
– Flashback sem sýnir hver hann er og svo hvernig hann komst þangað sem hann er í byrjuninni.
– Wayne/Stark fær samvisku. Hann sleppur með látum (og sprengingum). Hetjan fæðist.
– Miðkaflinn fókusar á Wayne/Stark og hvernig græjurnar verða til. Búningurinn enn í vinnslu.
– Smá rómantik inn á milli (gellan að vísu algjört „cock-tease“ – í báðum tilfellum)
– Búningurinn tilbúinn! Best að lumbra á „petty“ glæpamönnum til að sýna hvað hann getur.
– Nálægt lokum komumst við að því að Liam Neeson/Jeff Bridges var aðalskúrkur myndarinnar frá upphafi. Wayne/Stark þekkti karakterinn vel og er nett sjokkeraður.
– Hasar í borg. Einvígi í lokin. Kabúmm! Hetjan opinberuð.

Sammála/ósammála?