The Incredible Hulk

Til þess að geta fjallað um The Incredible Hulk er eiginlega nauðsynlegt að segja hvað manni fannst um Ang Lee-myndina frá 2003, og mér líður eins og ég þurfi að setja á mig hjálm og skothelda brynju þegar ég segi að mér fannst hún miklu, miklu betri en þessi. Hágæðamynd skal ég alls ekki kalla hana, en annað en þeir sem vildu bara sjá “Hulk smash!” þá líkar mér vel við sálfræðidramað, art-fílínginn, tónaskiptingarnar og vægast sagt yfirdrifna “ég-vil-líkjast-myndasögu” klippistílinn. Ang Lee tók skrípalega hetju og gerði edgy blöndu af grískum harmleik og teiknimyndalegri hasarblaðamynd.

Ég hata samt ekkert þá tilhugsun að eiga tvær ólíkar útgáfur af einhverju skemmtilegu, og The Incredible Hulk er fljót að vinna sér inn góðvildarstig með því að móta söguna sína þannig að það er auðveldlega hægt að líta á hana sem beint framhald af Ang Lee-myndinni (fyrir utan smá skekkju í origin-sögunni) en líka sem sjálfstæða endurræsingu. Þeir eru ansi snjallir þarna hjá Marvel-kvikmyndaverinu, og skapstóri Rumurinn er nauðsynlegur partur af uppbyggingunni fyrir The Avengers.

Það er ekki skrítið að mainstream hóparnir kjósi þessa fram yfir upprunalegu Lee-myndina; Hún er hraðari, háværri og meira straightforward, sem eru fínir kostir í sjálfu sér en ég myndi jafnframt bæta við þynnri og öruggari. Það eru sæmileg hasaratriði í henni en söguþráðurinn er ferlega óspennandi og persónurnar líka. Skásti karakterinn í allri myndinni er þessi sem Tim Roth leikur, en það er aðallega bara vegna þess að Roth getur aldrei leikið illa. Illmenni myndarinnar er semi-áhugaverður fyrsta helminginn eða svo en hann fær enga þróun og engan alvöru persónuleika (fyrir utan það að vera bara stanslaust reiður, valdasjúkur eða bara pjúra illur).

William Hurt heldur áfram að leika eins og hann vilji ekki tala of hátt og Liv Tyler er vitlaus væluskjóða í leiðinlegt kvenhlutverk sem þræðist beint inn í pirrandi rómantík. Edward Norton hefur síðan sjaldan verið jafn Edward Norton-legur, sem þýðir einfaldlega að mér finnst ég vera meira að horfa á leikarann heldur en persónu. Norton er stórkostlegur leikari í réttu hlutverkunum (American History X, Fight Club o.fl.) en þegar hann velur slöku handritin er hann oftast eins og sjóðast karakterarnir hans saman í eina minningu. Ég tel samt ekki ólíklegt að leikstjórinn Louis Leterrier hafi bara engan áhuga á leikurunum sínum nema þeir séu hlaupandi, vælandi, öskrandi eða í einhvers konar hættu almennt.

Fókusinn á hasarnum er mikill þó svo að brellurnar líti misjafnlega vel út, og ég er ekki frá því að Rumurinn hafi litið helmingi raunverulegri út í myndinni sem er fimm árum eldri. Hins vegar er útlitshönnunin á honum hér töluvert svalari. Ég veit annars ekki hvort það hafi verið ætlunin eða ekki, en í flestum tilfellum lítur ofbeldið út eins og blanda af teiknimynd og tölvuleik. Besta hasarsena myndarinnar að mínu mati er nálægt byrjuninni þegar tölvubrellur eru notaðar sem minnst. Þá sést best hvað Leterrier er góður á þessu sviði, enda vanur maður.

Ég hef gefið þessari mynd ýmsa sénsa og aldrei næ ég að njóta hennar í botn eins og mig langar til að gera. Mér er alltaf eitthvað svo sama um alla. Að vísu var ég ekkert bilaðslega hrifinn af Iron Man heldur en að minnsta kosti var aðalpersónan eftirminnileg. Hulk er aðeins meira fullnægjandi í hasarnum og það fer ekki framhjá manni að hún hefur verið gerð af miklum áhuga. En það fer heldur ekki framhjá neinum hversu mikið „fan service“ þessi mynd er, og þar er lokasenan mjög gott dæmi.

Besta senan:
Eltingarleikurinn og slagurinn í Brazilíu.

Sammála/ósammála?