Knight and Day

Knight and Day er heiftarlega gölluð en þó skrambi saklaus afþreyingarmynd sem sýnir tvær stórstjörnur vinna fyrir kaupi sínu með því að hlaupa á milli staða og daðra við hvort annað inn á milli. Höfum við séð þessa mynd áður? Já eiginlega. Það koma fyrir fáeinar snjallar senur sem gefa myndinni afar ferskan tón. Slíkar senur tíðkast einungis þegar ræman þykist vera einhvers konar njósnamynd í Bond-stíl sem sýnd er frá sjónarhorni (Bond)gellunnar sem flækist óvart í för með ýktu og aðlaðandi hasarhetjunni. Þessi stefna virðist koma og fara því á öðrum stundum breytist þessi mynd í býsna formúlubundna rómantíska gamanmynd… með byssum.

Það sem þessi mynd græðir stig fyrir að mínu mati er flæði hennar og Tom Cruise sjálfur, sem hefur ekki verið svona hress síðan… ég veit ekki hvenær. Sumar senurnar með honum eru svo skemmtilega hallærislegar (viljandi gert auðvitað, eða það vona ég) að stundum er eins og hann sé sjálfur að koma með spoof á Mission: Impossible-ímyndina sem við öll þekkjum. Myndin dalar eiginlega í hvert sinn sem Cruise er ekki á skjánum, sem gefur strax til kynna að Cameron Diaz er ekki alveg að gera sig í sínu hlutverki. Stelpan fær helling til að gera en persóna hennar er alls ekki nógu áhugaverð til að maður nenni að fylgja henni út alla myndina. Hún er í rauninni aðalpersóna myndarinnar, en þó svo að mér líki við þá hugmynd að sjá njósnamynd í Bond-stíl sem eltir (Bond)gelluna, þá þýðir það ekki að hún virki hér. Diaz hefur sín augnablik en því meira sem hún skrækir og heldur áfram að láta eins og ofvirkur bjáni því meira pirrandi verður hún. Ég er heldur ekki sáttur við það hvernig stórfínum leikurum eins og Peter Sarsgaard og Paul Dano er hent í hlutverk sem eru svo skelfilega einhliða að það er næstum því skömmustulegt. Líklegast töpuðu þeir veðmáli við Cruise.


(pósum fyrir kamerurnar – við erum falleg!)

Ég skil reyndar ekki hvað James Mangold var að gera hérna. Ekki það að myndin sé einhver sori – langt frá því – en hún er samt eitthvað svo asnalega dæmigerð og ég bjóst ekki við slíku frá þessum ágæta og fjölhæfa fagmanni. Hann hefur sýnt að hann kunni að gera drama (Girl, Interrupted, Walk the Line), hasar (3:10 To Yuma) og spennu (Identity – eða a.m.k. góði parturinn af henni) en það virðist ekkert af því vera til staðar í Knight and Day – ekki einu sinni sjarmi. Hverjum kosti fylgir a.m.k. einn galli. Sjálft skjáparið stendur sig þokkalega og myndar þokkalega kemistríu en samt nær maður aldrei að halda með því, en að hluta til gæti það verið Diaz að kenna og stælunum hennar. Handritið er stundum snjallt en oft hroðalega þurrt. Hasarinn er síðan ágætur fyrir utan það að hann er ekkert sérlega spennandi og mörg skotin í eltingarleikjunum eru eyðilögð af illa útfærðum bluescreen-skotum. Tónlistin er heldur ekki alltaf að passa við senurnar, sama hversu kómískar þær eiga að vera.

Titill myndarinnar fer einnig rosalega í mig. Hann er bara ógrípandi og satt að segja ljótur. Hann á sér heldur ekkert merkilegt samhengi við myndina sjálfa. Jú jú, það er ein persóna í myndinni sem heitir Knight, en hvað með það?? Þótt að önnur persona í myndinni hefði heitið Day þá er þetta samt aumur leikur að orðum. Einhvern veginn líður mér eins og framleiðendum gat ekki staðið meira á sama um heitið svo lengi sem Cruise og Diaz myndu skila einhverjum seðlum inn fyrir þá.

Þetta er samt ein af þessum myndum sem maður horfir á þegar maður vill eitthvað ofsalega meinlaust léttmeti. Hún skilar sínu mátulega ef maður slekkur á heilanum út lengdina og reynir að hafa húmor fyrir því sem er gert grín að. Cruise mætti endilega gera eitthvað meira svona flippað. Hann tók jákvætt skref með Tropic Thunder og núna er maður smám saman að byrja að finna fyrir því að gaurinn hafi húmor. Miðað við hvað hann hefur skapað sér umdeilda ímynd á undanförnum árum veitir honum ekki af því að vera á bandi meirihlutans með því að gera eitthvað svona léttara. Vel gert, nafni. Myndin sleppur samt bara rétt svo við það að vera hlandvolgt miðjumoð.

fin

Besta senan:
Fyrstu-persónu hasarinn þar sem Diaz er alltaf dottandi út.

Sammála/ósammála?