Magnolia

Þú annaðhvort elskar Magnolia eða hatar hana! Klassískara gerist það ekki, enda ég á ansi bágt með að trúa því að það sé hægt að ganga þarna einhvern milliveg. Hún er svo sérstök, svo pökkuð og krefjandi að maður siglir með henni alla leið fullur af hrifningu og aðdáun, og þá vegna þess að myndinni tókst mjög fljótlega að fá mann um borð til að byrja með, eða maður blótar og kúgast – sem að lokum leiðir til þess að maður ælir. Það er auðvitað vegna þess að þetta er skrítin, óhefðbundin og heljarinnar löng bíómynd sem er jafnvel býsna lengi að líða í augum þeirra sem elska hana. Þetta er heldur ekki ein af þessum myndum sem líkleg er til þess að batna ef manni leiðist fyrsta klukkutímann (af þremur). Ef áhorfandinn er ekki orðinn forvitnari eftir tíu mínútur og „húkkt“ á fyrsta hálftímanum, þá skal slökkva á henni undir eins til að spara tíma og leiðindi.

Paul Thomas Anderson hefur verið á meðal uppáhalds leikstjóra-og-handritshöfunda minna alveg síðan ég sá Boogie Nights í fyrsta sinn. Reyndar er lítið að marka það vegna þess að ég var þá ellefu eða tólf ára og kynntist þar með kvenmannslíkamanum í fyrsta sinn og hvað hann gerir þegar Heather Graham og Julianne Moore fóru úr fötunum (og má þá eiginlega segja að þessi mynd hafi verið mikilvæg á gelgjuárum mínum), en myndin hélt mér samt þvílíkt vel við efnið með æðislegum leikhópi, skemmtilegri sögu um athyglisverðan bransa og rokkandi ’70s (og pínu ’80s) fíling allan tímann. Álit mitt hefur ekkert breyst síðan þá, og ef eitthvað þá líkaði mér betur og betur við hana með árunum. Boogie Nights soundtrack-ið er enn í dag í miklu uppáhaldi hjá mér.

Anderson er snillingur. Ef hann er það ekki þá er lítið til af snillingum í þessum kvikmyndabransa. Allar myndirnar hans eru annaðhvort mjög góðar eða meistaraverk, og Magnolia er sú sem mér finnst hann mega vera hingað til stoltastur af. Hún gerir svolítið sem flestar myndirnar hans hafa gert; hún tekur mjög hefðbundið frásagnarform og djúsar það upp með sínum eigin einkennum og stíl. Í hnotskurn er eins og PTA hafi oft ætlað sér að skrifa hefðbundnar sögur en ákveðið síðan að gera það á sterkum efnum. Boogie Nights fór t.d. eftir ákveðinni „rags-to-riches-to-shithead“ formúlu, en hún vissi allan tímann af því og bragðbætti efnið á öllum þeim stöðum sem hún gat. Punch-Drunk Love var ekkert síður merkilegri uppfinning, því þar var allt í einu týpísk ástarsaga sett saman við Adam Sandler-mynd (þar sem hann lék þennan dæmigerða ljúfling með uppsöfnuðu reiðina) og með bættum töfrum frá PTA varð úr þessu krúttlegt og abstrakt listaverk.

Magnolia er eins og sápuópera ef djarfur kvikmyndaskólanemi fengi að sjá um hana, eða kannski frekar Robert Altman-mynd á eiturlyfjum. En í stað þess að missa vitið og fara út í algjöra steik tekst henni alltaf að halda greindavísitölunni og verða sífellt dýpri, skrítnari og athyglisverðari því lengra sem líður á hana. Greinilega hefur verið svona geysilega gaman að vinna með leikstjórnum því nánast allir leikararnir úr Boogie Nights snéru aftur án þess að hika, og það kæmi ekki á óvart ef persónurnar voru upphaflega skrifaðar með þetta fólk í huga. Að vísu lét Burt Reynolds ekkert sjá sig (hafði hann í alvörunni eitthvað betra að gera??) og Marky Mark var skipt út fyrir Tom Cruise (sem, að mínu mati, hefur ALDREI NOKKURN TÍMANN verið betri). Annars eru allir leikararnir í þessari mynd að gera hlutina rétt. Hver og einn fær tækifæri til þess að sanna sig – oft í löngum, óslitnum tökum í þokkabót – og allir sem einn eru ómetanlegir. PTA vinnur hér aftur með fjölbreyttum hópi og fær endalaust hrós frá mér fyrir að hafa einnig frábær tök á krakkaleikurum.

Að gera mynd um níu persónur er enginn brandari ef markmiðið er að einblína á þrívíða persónusköpun, en hér verður enginn útundan og eru allir trúverðugir og manneskjulegir á allan máta (semsagt engin Hollywood-tilgerð). PTA er samt ekkert að snerta sjálfan sig perralega með lengd myndarinnar, og hann er augljóslega meðvitaður um hana. Þess vegna er hann ekkert að tefja þótt hinir neikvæðu geta alltaf mótmælt vissum pörtum (þar á meðal „söngatriðinu“). Fyrir mitt leyti er þetta samt ótrúlega þétt mynd miðað við þessa svakalegu lengd, og leikstjórinn kemur sér oftast beint að efninu í hverri einustu senu. Sem betur fer er handritið einnig vel skrifað, og það tryggir það að samtölin (og auðvitað leikararnir) halda manni alltaf við efnið. Ég hef horft talsvert oft á myndina síðan hún kom út og mér tekst aldrei að finna senu sem er ekki réttlætanleg. Klippingin er vönduð, tónlistin fullkomlega notuð til að keyra betur flæðið á myndinni og með hverri mínútu fáum við að vita meira og meira um hverja persónu, sem stækkar vissulega (og styrkir) söguna um leið.

Samt, annað en margir halda, þá er Magnolia ekki mynd sem er sett saman úr mörgum litlum sögum, heldur er hún ein risastór saga þar sem allar einingar eru hugsaðar út. Það er reyndar rosalegt hvað tengslin eru öll útpæld og með þessari 180 mínútna tilfinningaorgíu er PTA að koma ótrúlega mörgu til skila varðandi uppeldi, sambönd við feður, persónuleikagrímur, dauða og fyrirgefningu ásamt ábyggilega fimmtíu öðrum þemum. Það á aldrei eftir að sjást persónulegri mynd frá þessum kvikmyndagerðarmanni aftur, og maður spyr sig hvernig samband hann hafi átt við sinn föður.

Eftir velgengni Boogie Nights var PTA í einstakri aðstöðu til þess að gera þá mynd sem hann vildi. Það var m.a.s. samningsbundið að hann fengi að ráða heildarlengdinni án þess að framleiðendur myndu skipta sér af henni, og sömuleiðis var innihaldið alfarið frjálst. Það segir manni í rauninni allt um þessa mynd þegar maður er búinn að horfa á hana, og ég get ekki ímyndað mér að margir leikstjórar kæmust upp með stefnuna sem endirinn tekur. Ég elska þegar kvikmyndir hlaupa í svona ófyrirsjáanlegar áttir, og hvað þá án þess að skemma afganginn á sögunni. Við erum semsagt að tala um það að þessi mynd er öskrandi snilld í cirka tvo tíma og fjörtíu og fimm mínútur, og svo kemur þessi endir, sem er svo hneykslandi, furðulegur og sérstakur að myndin verður sjálfkrafa miklu, miklu betri. Áhorfendur hljóta að velta fyrir sér á meðan sögunni stendur hvernig hún mun enda á fullnægjandi máta. Ja, það gerir hún. Og enginn (sem hefur ekki lesið sig til um myndina fyrirfram) mun geta reiknað endinn út fyrirfram. Hann er samt alls ekki bara notaður til þess að vera sjokkerandi og súrrealískur, heldur þræðir hann gallalaust saman örlög persónanna og gefur sögunni þá mátulegu lokun sem hún þarf.

En já…

Ég elska Magnolia eins mikið og nokkur maður getur elskað bíómynd sem spilast út eins og dökk sápuópera. Ég elska leikaranna, ég elska gölluðu karakterana, söguna, tónlistina, pælingarnar, tilviljanirnar, titilinn og ekki síst hann Tomma litla Cruise. Þetta er einn albesti drama-konfektkassi sem ég hef prufað. Ég stelst í hann með reglulegu millibili.

Besta senan:
(núna má ég svindla smá)

– formálinn
– persónukynningin
– Julianne Moore í apótekinu.
– Seinustu atriðin með Frank Mackey og pabbann.
– Endirinn!

7 athugasemdir við “Magnolia

 1. Var að klára hana enn og aftur.
  Allt við þessa mynd er gull. Karakterarnir eru raunverulegir, gallaðir og fékk ég samúð fyrir svo mörgum af þeim, sem má bæði þakka handritinu og geðveikum frammistöðum frá öllum leikurunum (Helst Cruise, Moore og Hall). Tenging á milli karakteranna og hvernig klippingin fer á milli þeirra á mismunandi hátt er úthugsuð (nafnið á myndinni hefur það líka). Þemurnar eru fjölmargar og komast vel til skyla og ég hef sjaldan séð eins ballsy endi og sú sem Magnolia kemur með.
  Ein besta mynd sem ég hef séð frá 10. áratugnum og áreiðanlega besta „multiple story“-mynd sem ég hef séð.
  PS: Mæli með að taka þessa mynd saman með The Fountain og Cloud Atlas.

 2. Hex:
  Fyrir minn pening tek ég Magnolia og Short Cuts frekar. Allt frábærar myndir en Atlas og Fountain eiga lítið sameiginlegt með þessari (ekkert frekar en He’s Just Not That Into You, sem notar sömu strúktúr-taktík). Hinar eru um miklu stærri hluti á meðan þessar myndir eru um sjálft fólkið og tengslanetið meira en nokkuð annað.

  Annars er ég sammála þessum elskulegu orðum.

 3. Boogie Nights > Punch-Drunk Love > Sydney/Hard Eight
  Þarf að sjá Magnolia og There Will Be Blood aftur áður en ég get sett þær þarna en verða að öllum líkindum á toppnum. Stuttmyndirnar hans (The Dirk Diggler Story og Cigarettes & Coffee) eru líka þess virði að kíkja á.
  En hvað með þig, Tommi?
  Jónas þetta comment sá ég á Gagnrýni Tómasar Valgeirssonar og var það skrifað í gær, samt talaraðu hér eins og þú þekkir Magnolia utanbókar?

Sammála/ósammála?