Babies

Það pirrar mig þegar ég stíg útaf kvikmynd og hugsa að ég hefði alveg eins getað fengið sömu upplifun með því að skoða helling af YouTube-vídeóum. Þar hefði bara dugað að skrifa „Cute babies“ og þá kæmi út svipuð niðurstaða og finnst hér. En núna þarf ég að passa mig svolítið á því sem ég segi svo ég hljómi ekki eins og mér líki eitthvað illa við ungabörn, en ég vil taka það sérstaklega fram að skoðanir mínar á þessari mynd endurspegla á engan hátt það sem mér finnst um þau. Allavega, í stuttu máli þá gengur Babies út á það að sýna fjögur mismunandi lítil kríli, sem öll koma frá ólíkum menningarheimum, og áhorfandinn fær að fylgjast með þeim frá fæðingu til fyrstu skrefanna. Þetta hljómar eins og ágætis grunnhugmynd fyrir heimildarmynd, en bara verst að þetta er ekki einu sinni grunnhugmyndin, heldur öll myndin í sinni heild.

Heimildarmyndir sem fjalla ekki um neitt og gera ekkert nema að sýna upptökur í x langan tíma fara oft í mig. Að horfa á Babies er eins og að horfa á Koyaanisqatsi nema án fallegu tónlistarinnar og með mun einhæfara myndefni í gangi. Þessi mynd sýnir bara ungabörn gera… tjah… það sem ungabörn gera, sem er augljóslega ekki mikið. Þau eru annaðhvort sofandi, að sofna, drekkandi brjóstamjólk eða að hjala eða gera eitthvað sem kætir mann að innan við að sjá. Og þrátt fyrir að sumt af þessu efni sé OFBOÐSLEGA krúttlegt (!!), þá er þetta engan veginn efni í heila mynd! Kannski stuttan fræðsluþátt, en alls ekki eitthvað sem þykist kalla sig heimildarmynd. Ég grínast ekki með það þegar ég segi að hún hefur ekkert annað til þess að gefa okkur. Mikið rétt, við horfum bara á börnin dást að umhverfinu og tilverunni í 70 mínútur, og það reynir svolítið á þolinmæðina þegar maður er búinn að sitja yfir því í cirka hálftíma, alveg sama hversu skondið eða dúllulegt það er.

Hér hefði verið tilvalið að troða einhverri umfjöllun inn í myndina og jafnvel fá einhver komment frá foreldrum barnanna, sem greinilega koma allir frá ólíkum bakgrunni. Myndin ætti að koma með einhver skilaboð um uppeldi eða barneignir, en í staðinn þá bara byrjar hún og gerir nákvæmlega ekkert þangað til hún klárast. Hún er hvorki ljóðræn né þýðingarmikil. Þetta er að vissu leyti áhugavert og ég efa ekki að nýbakaðir eða verðandi foreldrar eigi eftir að fá mikið út úr því að sjá þetta. Ef þú tilheyrir slíkum hópum, þá myndi ég samt frekar mæla með því að þú kannir þessa mynd á vídeói og horfir einungis á hana með öðru auganu á meðan þú gerir mikilvægari hluti. Það er ekki eins og þú sért að missa af einhverju sérstöku.

Besta senan:
Eitthvað dúlló. Þetta er flest allt eins.

Sammála/ósammála?