Water for Elephants

Það kemur alltaf jafn mikið á óvart þegar maður sér leikstjóra breyta skyndilega um gír og fara langt út fyrir það svæði sem hann er þekktur fyrir. Water for Elephants er næstum því jafn mikið stökk fyrir Francis Lawrence að fara frá Constantine og I Am Legend yfir í ástarsögu – af svipaðri ætt og The Notebook – og það var fyrir Mark Steven Johnson að skilja sig frá ofurhetjumyndum (s.s. Daredevil og Ghost Rider) og gera lélegan rómantískan farsa í staðinn (When in Rome). Lawrence lendir hins vegar á fótunum í þessu stökki sínu, annað en Johnson gerði, og þrátt fyrir að þessi mynd sé ekki dúndurgóð þá er ýmislegt aðdáunarvert við hana sem gerir hana vel þess virði að horfa á.

Hvort sem manni líkar það betur eða verr þá er Robert Pattinson kominn til að vera. Það má alltaf deila um gæði frammistöðu hans í Twilight-myndunum en burtséð frá þeim er hann óneitanlega efni í traustan leikara, og Water for Elephants sýnir það bara ágætlega. Hann gerir kannski ekki mikið nýtt en manni líkar strax vel við hann og það skiptir heilmiklu máli. Reese Witherspoon er líka sæt og fín við hliðina á honum (eitthvað þykir mér samt fyndið við það að bæði tvö skulu hafa leikið í sitthvorri myndinni sem bar heitið Twilight) en senuþjófurinn er samt án efa Christoph Waltz. Skuggar Hans Landa-rullunnar sýna sig enn og aftur (sem gerðist líka í The Green Hornet) og maður verður að velta fyrir sér hversu fjölbreyttur maðurinn getur verið í enskumælandi myndum. Hann er samt eini karakterinn í þessari mynd sem fær þrívíða persónu sem er athyglisverð. Waltz er ógnandi, kvikindislegur, viðkunnanlegur og hálf sympatískur; Allt í einum pakka. Taktu burt seinasta lýsingarorðið og þá ertu eiginlega kominn með sömu uppskrift að Inglourious Basterds-hlutverkinu. Engu að síður naut ég nærveru hans í botn allan tímann.

Sagan sjálf er og það er varla staka senu að finna sem er ekki fyrirsjáanleg að einhverju leyti. Aftur á móti er lúmskan sjarma að finna í henni og leikstjórinn meðhöndlar alvarlegustu senurnar prýðilega án þess að missa sig í melódramatík. Sviðsmyndir, búningar og almennt útlit myndarinnar er sömuleiðis gallaust. Tímabil sögunnar selst mjög vel og gleymist aldrei að maður sé staddur á fjórða áratug síðustu aldar. Myndin er samt því miður dregin svakalega niður af þeim galla að það vantar alveg neistaflugið hjá sjálfu skjáparinu, og þegar kemur að ástarsögu er það augljóslega mjög stór mínus. Skortur á kemistríu þýðir að þér er í raun alveg sama um elskhugana í sögunni og stundum eru þau Pattinson og Witherspoon eitthvað svo vandræðaleg saman. Kannski 10 ára aldursmunurinn hafi eitthvað um þetta að segja. Mér líkaði alveg við þau bæði svosem, en nánustu atriðin með þeim voru þau allra leiðinlegustu. Hápunkti áhugaleysis míns var náð í skelfilega dæmigerðu ástaratriði. Væminn píanósóló fylgdi m.a.s. með.

Annars hér um afskaplega notalega mynd að ræða sem er í senn æðisleg tilbreyting frá sumarhávaðanum og þrívíddarsprengingum. Hún rennur á þægilegum hraða og tapar sjaldan athygli manns. Fínasta deit-mynd allavega, og án efa skásta ástarsagan hans Robba hingað til. Næst væri fínt að sjá hann aðeins breyta um tón.

fin

Besta senan:
Þegar Waltz meiðir dýr. Ójá! He went there.

Sammála/ósammála?