The Virgin Suicides

Ég verð því miður að vera ósammála meirihlutanum sem segir að The Virgin Suicides sé góð eða jafnvel frábær kvikmynd. Mig langaði til að elska hana af öllu mínu hjarta. Í kringum þann tíma sem myndin var glæný hafði ég heyrt svo margar sögur um hversu grípandi, eftirminnileg og sorgleg hún væri. Ég stóðst ekki mátið að kaupa mér myndina á DVD og var spenntur að sjá hvað dóttir Guðföðursins, Sofia Coppola, myndi gera með sína fyrstu mynd. Niðurstaðan skildi mig eftir vægast sagt tómann og ef til vill þunglyndari heldur en helstu persónur myndarinnar. Ég náði skilaboðunum og mér finnst margt vera mjög jákvætt við heildina, en almennt fannst mér alveg þurft að hræra betur til í innihaldinu.

Ég veit varla hvar ég á að byrja. Í fyrsta lagi þá er sjálf frásögnin alveg úti á þekju. Handritið skiptir sífellt um stefnu – ekki á jákvæðan hátt – og nær heldur ekki að átta sig á því hverjar eru aðalpersónur myndarinnar. Ekki voru það systurnar (Kirsten Dunst og co.) sem sagan gekk út á, því þær fengu engan fókus (sem var kannski tilgangurinn. Engu að síður, þá fannst mér það ekki virka). Ekki voru það strákarnir sem bjuggu á móti þeim því þeir birtast mjög óreglulega út alla myndina og hverfa m.a.s. alveg í kringum miðkaflann. Ekki voru það heldur foreldrarnir því þeir voru mjög einhliða og litlausir, svona nokkurn veginn eins og flestir unglingar með hormónaköst líta á sína eigin foreldra. Svo gat það heldur ekki verið sögumaðurinn (Giovanni Ribisi) því við fáum aldrei að vita hver hann er! Ég er heldur ekki alveg að fatta tilganginn með Josh Hartnett í myndinni. Hann er kynntur til leiks eftir hálftíma en hverfur svo bara sporlaust

Myndin er byggð á samnefndri bók, en skildi bókin hafa sömu galla þá er það mjög sundurlaus bók. Ef ekki, þá hefur Sofia litla tætt hana alveg í sig. Það eru vissulega sorgleg atvik sem bregða fyrir í sögunni og þau skildu ýmislegt eftir sig en mér leið samt aldrei eins og ég væri tilfinningalega tengdur persónunum. Persónusköpun systrana var alltof óljós, foreldrarnir voru leiðinlegir og strákarnir fengu svo litla athygli að maður þekkti varla nöfnin á þeim. Það sem virkaði á mig voru leikararnir og tónlistin, þar sem ég er mikill aðdáandi Air. En meira segja fannst mér franski dúettinn geta gert miklu, miklu betri tónlist.

Kannski þurfti Sofia aðeins að finna taktinn sinn áður en hún fór að demba sér út í Lost in Translation, sem ég skal tvímælalaust kalla meistaraverk – og satt að segja einu myndina eftir hana sem ég get enn kallað vel heppnaða og virkilega góða. Leikstýran er greinilega mikið fyrir það að prufa ýmislegt nýtt og föndra sig áfram, sem er alltaf góður hlutur, en hérna feilar hún allavega á því að gera áhugavert efni… áhugaverðara, og mörgum tækifærum er sóað til að stúdera ýmsar þemur. Stíllinn hennar er líka hundleiðinlegur, og ef einhver getur sagt mér hvað örskotin með Dunst sem skutu upp kollinum á milli sena áttu að þýða þá væri það afar vel þegið. Einnig fór það svolítið í mig hvað myndin talar mikið niður til unglinga. Ég veit að unglingar eru ekki alltaf viðkunnanlegustu manneskjur í heimi, en hérna er alveg verið að stinga heilu hópana í bakið. Þetta finnst mér strika alveg undir helsta vandamálið, sem er að hún veit ekkert hvar fókusinn liggur. Maður veit ekkert hvort maður eigi að skilja unglingana og halda með þeim, finna til með þeim eða bara líta á þá með hornauga. Horfið frekar á Dazed & Confused. Hún gerist á svipuðu tímabili og fagnar a.m.k. unglingsárunum.

Ég skil ekki alveg aðdáunina á þessari mynd. Mér finnst eins og það sé mikið betri mynd innifalin í þessu öllu saman sem reyndi að troða sér í gegnum framleiðsluna en skilaði sér í brotum. Hún er vel þolanleg, metnaðarfull að vissu leyti og óaðfinnanlega leikin. Það ætti svosem alveg að gera hana „alltílæ“ á endanum.

fimm

Besta senan:
Reveal-ið í endann. Laumulega gróft.

Sammála/ósammála?