Spider-Man

Sam Raimi verð ég eiginlega að kalla hálfgerðan snilling þrátt fyrir að hann geri voða misgóðar myndir. Ég hef alltaf verið grimmur Evil Dead-aðdáandi og A Simple Plan tel ég vera nálægt því að vera týnda meistaraverkið hans. Allt sem kemur þó þarna á milli er voða upp og niður, en það sem ég hef alltaf kunnað að meta við Raimi er t.d. prakkaralegi húmorinn hans, áhersla á persónur með eftirminnileg hegðunarmynstur, þessi óhefðbundna spenna sem honum tekst oft að byggja upp og ekki síst hæfileiki hans fyrir því að koma manni dásamlega á óvart á réttum stundum.

Raimi er fínn kvikmyndagerðarmaður (og mikilvægur frumkvöðull á indí-gore sviðinu) en fyrst og fremst stórskemmtilegur persónuleiki. Og allir sem hafa einhvern tímann fylgst með honum í viðtölum eða aukaefni á DVD-diskum hljóta að vera sammála um það að hann er algjör ljúflingur í framkomu. Klárlega einn af þessum mönnum sem maður myndi vilja hitta í eigin persónu og nördast með, klukkustundum saman. Hjartað hans var hiklaust á réttum stað þegar hann gerði Spider-Man en ég held að Sony, Marvel og óhugnanlegi framleiðslukostnaðurinn gert hann pínu óöruggan þegar allt var farið í gang. Myndin nær mörgu rétt en klúðrar líka ýmsu og neikvæðu þættirnir koma að manni eins og hraðahindranir á skemmtanagildið.

Hvort sem manni líkar það betur eða verr þá markar þessi mynd nokkuð merkilegan kafla í kvikmyndasögunni. Reyndar var X-Men frá árinu 2000 aðeins á undan en það var í rauninni Spider-Man – og metaðsóknin í bíó á sínum tíma – sem opnaði flóðgáttirnar og kom þessari blockbuster-myndasögubylgju formlega af stað, sem á endanum leiddi til þess að ofurhetjumyndir urðu að sínum eigin bíógeira (þrefalt húrra fyrir það!). Krakkarnir í dag vita ekki hversu gott þeir hafa það núna (*klisja*), en þegar ég var lítill pjakkur þótti voða sjaldgæft að sjá stórar, flottar og metnaðarfullar ofurhetjumyndir. Maður sætti sig bara við það sem maður hafði, og þess vegna var tilhugsunin að sjá Kóngulóarmanninn í allri sinni dýrð afar kærkomin. Þessi tilhugsun varð svo ekkert leiðinlegri þegar eftirfarandi upplýsingar komu í ljós löngu fyrir útgáfu; að Danny Elfman sæi um tónlistina, að Willem „ég-datt-svo-snilldarlega-á-hnén-í-Platoon“ Dafoe yrði Green Goblin og að Raimi væri leikstjórinn. Mér fannst þetta dásamlegt en á sama tíma óvenjulegt val á leikstjóra fyrir svona mynd, en maður gat nú sagt það sama um Hringadróttinssöguna áður en hún kom út. Lengi lifi splatter-nördarnir!

Ég taldi mig vera hæstánægðan með myndina þegar ég sá hana fyrst en svo áttaði ég mig á því strax í öðru – eða þriðja – áhorfi að heilinn minn hafði andlega skellt upp þykkum afneitunarvegg. Ég tók eftir ýmsum göllum, en þessir alvarlegustu síuðust aldrei inn vegna þess að þetta var í fyrsta sinn á eftir X-Men þar sem mín kynslóð fékk að upplifa stórmynd með einni uppáhalds ofurhetjunni minni. Þegar ég settist fyrst niður til að horfa á þessa mynd, þá kom bara einhvern veginn ekki annað til greina en að hún yrði frábær skemmtun, og þegar Lói byrjaði að sveifla sér af viti í rauða og bláa búningnum (þar sem maður gat almennilega séð framleiðslupeningana á skjánum) fór mestöll dómgreind út um gluggann. En ég tek það líka fram að ég var 15 ára árið 2002, og sama hversu mikið ég reyndi að blekkja sjálfan mig, þá er smekkur kvikmyndanördans aldrei fullmótaður eða marktækur á þeim aldri. Að vísu eru til fáeinar undantekningar. Oftast undrabörn.

Úr fjarska virðist þessi mynd bjóða upp á fullt af herlegheitum en sundurlausa handritinu tekst ekki að vefja saman allar skemmtilegu senurnar sem eru hérna til staðar, eða a.m.k. ekki á náttúrulegan og snyrtilegan máta. Það er eins og Raimi hafi vitað fullvel hvaða atriði hann ætlaði sér að hafa í myndinni en handritshöfundurinn David Koepp hafði greinilega ekki hugmynd um hvernig best átti að tengja þau saman. Þess vegna verður myndin á köflum rosalega flýtt og flæðir oft frekar skringilega. Þetta er samt smotterísgalli við hliðina á því að samtölin í myndinni eru oft algjör viðbjóður, og sama hvað Raimi er með flotta leikara til að gera línurnar ögn trúverðugri, þá detta mikilvægar senur alveg í sundur. Þessar „áhrifaríku“ verða bara væmnar og asnalegar. Þessar sem eiga að vera spennandi verða stundum lúðalegar (líka þökk sé ógeðfelldri búningahönnun á Green Goblin – Shittur! Talandi um að fara vitlausa leið til að líkjast myndasögunum) og í þau fáeinu skipti þar sem Raimi býr til óvenju sterk atriði, þá er það oftast þegar leikarar (í engum búningum) steinþegja og tónlistin tekur alveg við.

Raimi er samt greinilega aðdáandi og þess vegna sést rosalega vel að reyndi að búa til bestu myndina sem hann gat úr efninu sem honum var gefið. Stíllinn hans er bjartur, poppandi, teiknimyndalegur og frekar hreinn, og kemur hreint prýðilega út þannig. Tónlistin stendur líka fyrir sínu og leikararnir eru oftast mjög góðir saman. Mér hefur að vísu aldrei fundist röddin hans Tobey Maguire passa við þennan hörkuflotta Spidey-búning en hann stendur sig vel sem nördinn litli, hann Peter Parker. Langbestu senurnar hans eru í fyrri hluta myndarinnar, þegar athyglin beinist mest að honum. Kirsten Dunst er einnig ágæt, þrátt fyrir að líta út eins og unglingur, en ég býst svosem við því að atriðið í rigningunni reddi því. Dunst gerir Mary Jane nokkuð sæta og huggulega, en ég efa ekki að einhver önnur stelpa hefði getað tekið hlutverkið á annað level. Mér líkaði auðveldlega vel við M.J. en þótti aldrei neitt svakalega vænt um hana. Þessi tilfinning versnar því miður með hverri mynd.

James Franco fær ósköp lítið að gera, en af afsakanlegri ástæðu og Willem Dafoe er býsna kröftugur þangað til hann reynir að eigna sér myndina með ofauknum ofleik. Búningurinn er heldur ekki að gera manninum neina greiða. Að fylgjast með Green Goblin-karakternum er eins og að fylgjast með leikfangi, og í hvert sinn sem einhver ýtir á ákveðinn takka kemur týpískur illmennafrasi með röddinni hans Willem Dafoe. Raimi hefði átt að vinna aðeins betur í vonda kallinum á forvinnslustiginu, því þarna hefði miklu öflugri karakter getað skilað sér út, sérstaklega með þessum leikara. Þeir sem koma best út úr myndinni og líkjast myndasöguhliðstæðum sínum hvað mest eru Cliff Robertson, Rosemary Harris og J.K. Simmons. Þessi síðastnefndi er gjörsamlega fullkominn, beint stiginn út af myndasögusíðunum en hin tvö lenda oft á stirðum samtölum.

Það sést á hasarnum að Raimi er enn að hjóla í gegnum þessa framleiðslu með hjálpardekkin á, og það er ekki fyrr en í næstu mynd þar sem hann var farinn að geta séð um sig sjálfur og margfalt betur. Það eru nokkrar undantekningar en í þessari mynd eru hasaratriðin oft voða teiknimyndaleg, og ekki á góðan hátt. Fyrst og fremst skynjar maður sjaldan þyngdarlögmálið; Kóngulóarmaðurinn stekkur eða flýgur á milli staða lítandi oft út eins og persóna úr tölvuleik sem var gerður löngu fyrir 2002. Hreyfingar eru svo ónáttúrulegar stundum og tölvubrellurnar líta stöku sinnum út eins og Pre-Viz skot. Bestu hasarsenurnar að mínu mati eru þessar sem nota tölvubrellur sama og ekki neitt, eins og þegar Parker áttar sig á eigin kröftum í slagsmálum við Flash Thompson, eða þegar hann er settur í búrið með glímukappa á stærð við hross.

Spider-Man er rosalega frústrerandi mynd, en eftir að hafa séð hvernig Raimi lærði snilldarlega af mistökum sínum í mynd nr. 2 finnst mér ekkert mál að afskrifa þessa mynd sem bara nauðsynlega æfingu fyrir manninn, eða í versta falli metnaðarfullan en ógrípandi stökkpall fyrir eina af bestu Marvel-myndum sem ég hef séð. Allt það sem mistókst í þessari mynd tókst Spider-Man 2 að mastera eins og einhver stórsigurvegari. Hún hefur betri sögu, sem er bæði dýpri og einbeittari (því miður tilviljanakenndari líka…). Illmennið er sömuleiðis tíu sinnum betra, hasarinn miklu, miklu betri, húmorinn skemmtilegri, dramað margfalt áhrifaríkara og leikararnir urðu áberandi öruggari. Það segir sig kannski sjálft hvert þetta fór svo allt saman með þriðju myndinni, en ég er allavega feginn að hafa fengið eina framúrskarandi Spider-Man mynd úr þríleik sem byrjaði ekkert alltof vel og fór strax í kássu eftir miðkaflann. Ef þessi fyrsta mynd var æfingin hjá Raimi, þá var sú þriðja miðfingurinn hans til framleiðenda, og aðdáenda.

Þessi mynd gerir mestallt rétt ef maður er krakki og slekkur á allri smámunasemi, en vörumerkið átti skilið vandaðri „origin“ mynd að mínu mati. Engu að síður setti Raimi standardinn og kom sér í sögubækurnar með dugnaði sínum, alveg sama hvað manni finnst um innihaldið í þessum myndum hans.

fimm

Besta senan:
Uncle Ben-dauðinn var nokkuð vel meðhöndlaður.

2 athugasemdir við “Spider-Man

  1. gæti ekki verið meira sammála með búninginn, hann bara byrtist allt í einu og ég var bara WTF? Who did that happen?

Sammála/ósammála?