Sin City

Ef einhver trúir á örlög í kvikmyndaheiminum þá er heimskulegt að þrasa gegn því að Robert Rodriguez var fæddur til að gera þessa Sin City-bíómynd. Árum saman hafði þessi fjölhæfi og flinki leikstjóri prufað sig áfram og oftast búið til fínar myndir en engar framúrskarandi. En meira að segja var hægt að réttlæta slöku myndirnar því þær oftast hjálpuðu honum að prufukeyra sig áfram í vinnunni sinni með nýja hluti og á öðrum sviðum.

Rodriguez hefur alltaf framleitt, klippt og hljóðsett myndirnar sínar sjálfur. Oft skrifað og skotið þær líka, en smátt og smátt hefur fjölgað í hlutverkum, eins og að semja tónlist, hanna leikmyndir og sjá um brelludeildirnar. Í dag er hann einna manna bíóstúdíó, og ekki lítið aðdáunarverður fyrir vikið. Fleiri ættu jafnvel að taka hann til fyrirmyndar, fyrir utan það að hann skrifar ekkert voðalega góð handrit. Þess vegna eru bestu myndirnar hans þessar sem eru ekki skrifaðar af honum. The Faculty er þarna að sjálfsögðu meðtalin, sama hvað aðrir segja.

Það sem Rodriguez skortir venjulega í handritsgerðinni bætir hann oftast upp með stíl, ryþma og hörku, en þá ekki nema hann hafi gott efni til að föndra með. Þess vegna var það kraftaverki líkast þegar hann ákvað að eltast við Frank Miller og setja þann myndasöguheim á filmu sem aldrei var ætlast til að kvikmynda. Aðeins svona aktívur kvikmyndagerðarmaður og slappur handritshöfundur gat gert þetta rétt, því hann var með akkúrat rétta eldmóðinn til að gera myndina rétt. Og frekar en að búa til hefðbundna handritsaðlögun sótti hann bara fjórar Sin City-bækur (The Hard Goodbye, The Big Fat Kill, That Yellow Bastard og stuttan kafla úr Booze, Broads & Bullets), smálím og skæri, kvikmyndaði þær svo beint (og notaði teiknuðu rammanna sem “storyboards”) og úr þessu óvenjulega ferli varð til þessi magnaða stílsúpuorgía sem ég dýrka út af lífinu.

Sin City-heimurinn er eins og hann er, og hann hentar ekki hvaða snobbum sem er, heldur aðallega þeim sem finnst kvikindislega svalt að blanda saman ýktum myndasögustíl og film-noir. Tilurð þessara myndasagna lýsir sér nokkurn veginn þannig að Miller ákvað að slíta sig frá öðrum höfundum, drukkna í sínum eigin draumaheimi, teikna það sem honum fannst kúl og hanna klikkaðar noir-sögur í kringum það; töffarar í frökkum, byssur, blæjubílar, risaeðlur (!?) og fallegar, fáklæddar dömur. Allir þessir þættir baðaðir í svo miklu beinbrjótandi “attitjúd-i.” Testósterónið lekur út um allt í þessum svarthvíta, yfirdrifna og stílfærða skuggaheimi þar sem þrjár byssukúlur í magann eru sagðar vera einungis skrámur og langflestar persónur myndarinnar eru stoltir nátthrafnar. Það sést líka léttilega á því hvernig litið er á konur að efniviðurinn kemur úr hreðjum. Þær eru sem betur fer sterkar og sjálfstæðar (a.m.k. á þeim tímapunktum þar sem karlmenn eru ekki vaðandi yfir þær, með ofbeldi eða öðru) en yfirleitt pjúra augnakonfekt eða starfandi sem hórur. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að Miller hafi annaðhvort fengið of lítið af stelpum í menntaskóla eða aðeins of mikið.

Það stendur í kreditlistanum að myndinni sé leikstýrt af báðum Rodriguez og Miller, en ef þið hafið eitthvað kynnt ykkur sögurnar á bakvið tjöldin er nánast alveg vitað að Rodriguez bætti bara nafninu hans Miller við í virðingar- og kurteisisskyni, og leyfði honum að hanga á settinu með opinn huga fyrir ábendingum. Það sást líka síðar meir á The Spirit árið 2008 að Miller hefur ekkert að gera í leikstjórastól. En sama hvað kreditlistinn segir þá er Sin City-bíómyndin eitthvað sem Rodriguez tók og lét virka með eigin handavinnu. Hann skaut myndina, klippti hana, samdi hluta af tónlistinni, sá um brelluferlið og valdi leikaranna, á meðan Miller sat bara og horfði á. Hans verki var aðallega lokið þegar bækurnar fóru í prent á sínum tíma.

Jú jú, Miller á rammana, innihaldið og karakteranna en Rodriguez nýtti alla þá hæfileika sem hann hefur öðlast í gegnum árin og gaf efninu kraftmikið rafstuð, sem olli því að blaðsíðurnar lifnuðu alveg við. Þess vegna er nokkuð öruggt að fullyrða það hér, meira svo heldur en áður, að hér hafi myndasögur vaknað til lífs. Það hefði ekki hvaða leikstjóri sem er getað tekið þessa skrípalegu svartsýnisorgíu og gert úr henni kvikmyndaðan gimstein, en greinilega hefur hræðslan hjá leikstjóranum við það að valda myndasögugoðinu vonbrigðum margverðlaunað sig. Hver segir svo að það borgi sig ekki að sleikja upp goðin þín?

Miller reyndi að fá það í gegn á tíunda áratugnum að búa til Sin City-kvikmynd sem myndi virða hráefnið, en það kom aldrei til greina. Stúdíóin töldu ofbeldið ganga alltof langt yfir strikið og þykir sjaldnast sniðugt að keyra heilu söguþræðina á endalausri “voice over” notkun. Rodriguez sleppir litlu sem engu, og sættir sig ekki við annað en að vera næstum því fullkomlega trúr upprunanum. Það er eitt af því sem gerir Sin City að svona óvenjulegri en sömuleiðis aðlaðandi afþreyingarmynd; hún setur sér engar reglur, leikur sér alveg eins og henni sýnist og fórnar engu fyrir kellingaskap. Það er endalaus húmor og harka í hinu sturlaðasta ofbeldi, og tekur maður fagnandi á móti limlestingum og smekkleysu því lengra sem á líður. Djarft og öðruvísi getur oft verið betri leiðin, og stúdíóin þurfa að fatta það oftar.

Það er hægt að lýsa Sin City sem fullkominni “style over substance mynd,” en sögurnar eru í rauninni lagskiptari en þær virðast vera í fyrstu, þökk sé þess að áhorfandinn fær bókstaflega að vita hvað er á seiði í hausnum á söguhetjunum. Það er m.a.s. meiri dýpt í tveggja mínútna opnunarsenunni heldur en flestum öðrum myndum leikstjórans í fullri lengd. Keyrslan er líka svo hröð, en fórnar aldrei innihaldinu fyrir flæðið. Engin saga tefur af óþörfu, og þvert á móti eru þær allar ótrúlega þjappaðar í frásögn. Strúktúrinn er líka mjög útpældur (t.d. sú ákvörðun að kynna allar persónur til leiks á fyrsta hálftímanum, og skipta Yellow Bastard sögunni í tvennt), og gengur furðuvel að klessa þessum þremur sögum saman, með dásamlegri smásögu í byrjuninni og sniðugum „eftirmála.“ Hvort tveggja er fínasti bónus.

Myndin er líka eins mikið í höndum leikaranna og öll tölvugerðu umhverfin, enda eru leikararnir – rétt eins og útlitið – partur af því sem selur manni fjörið, eða persónurnar, réttara sagt. Lukkulega er leikaravalið skothelt í langflestum tilfellum, eða að minnsta kosti hjá þeim sem skipta mestu máli. Þetta er vissulega svakalega flottur leikaragrautur, en upp úr standa að sjálfsögðu naglarnir Mickey Rourke, Clive Owen og Bruce Willis – og satt að segja er eiginlega bara einn maður sem hirðir alla myndina. Þeir þrír hefðu samt allir getað léttilega borið uppi sína eigin bíómynd í þessum dúr, en þegar þeir deila einni slíkri sem er svona skörp og skemmtileg þá fjölfaldast kúl-ið umhugsunarlaust.

Rourke er samt ótvíræður sigurvegari myndarinnar. Hann er sá allra harðasti og fyndnasti, fyrir utan það að karakterinn Marv er einfaldlega sá besti sem Syndaborgin hefur upp á að bjóða. Rourke hefur flottustu röddina – sem gerir hann sjálfkrafa að besta þulnum – og honum tekst að koma spikfeitu sláandi hjarta í tröllvaxinn lurk. Leikarinn lætur ekki þungu andlitsförðunina stoppa sig heldur, og leyfir ljúfmenninu að gægjast aðeins út um mennska skriðdrekann sem Marv er.

Willis er næstbestur. Owen er dásamlega þurr og einbeittur töffari en Willis er almennt fæddur í það að leika bíómyndalöggu með harða skel, alvarlegan svip en ýmsa veikleika. Auk þess leikur Willis þann karakter sem er klárlega mest sympatískur. Báðir leikararnir bera sig nógu vel til að sínir kaflar séu varla mikið síðri en Marv-sagan, og fær hver sinn skerf af verðugum mómentum. En sóðalegu illmennin fá einnig tækifæri til þess að öðlast hatur áhorfandans, en það segir sig líka sjálft að menn þurfa að vera hryllilega andstyggilegir í persónuleika til að teljast illir í þessum heimi. Bestur og kvikindislegastur er svo sannarlega Nick Stahl sem gula ófétið. Ef helvíti myndi einhvern tímann kasta út manni fyrir að vera of ljótur, siðblindur og illa lyktandi, þá get ég ímyndað mér að hann væri ekkert alltof ólíkur þessum karakter.

Elijah Wood hittir líka á allar réttu nóturnar með því að segja ekki eitt einasta orð, og spilar hann óaðfinnanlega með saklausu ímynd sína í hlutverki mannætu (sem ber hversdagslega nafnið Kevin). Barnalega útlit leikarans vinnur ekki gegn honum og verður hann óþægilegri skúrkur fyrir vikið. Annars koma nú flestallir leikararnir með eitthvað gott á borðið, sama hversu stór eða lítil hlutverkin eru. Það kemur að vísu lítið á óvart útaf því að Rodriguez hefur að megnu til valið reynslubolta og skellt þeim í hvert horn, frá grimmu ellismellunum Rutger Hauer og Powers Boothe til töffara í líkingu við Benicio Del Toro, Michael Madsen og Michael Clarke Duncan. Hörkupíurnar Rosario Dawson, Jamie King og Devon Aoki láta einnig vel í sér heyra. Ég finn satt að segja engan sem ekki passar inn í myndina, en ef ég fengi að skipta einhverjum út, þá væri það Jessica Alba. Aðdáendur myndasagnanna vita fullvel hvers vegna hún passar ekki alveg sem erótíska dansmærin Nancy. Hún hefur þó átt verri daga. Svo mikið er víst.

Tölvubrellurnar í myndinni eru á fáeinum stöðum svolítið heimagerðar en á flestum stöðum ótrúlega flottar, og Rodriguez nær þessu klassíska Frank Miller-útliti alveg stórkostlega. Það sem gerir teikningarnar svo poppandi er nýtingin á svörtu og hvítu, og í svarthvítum bíómyndum eru rammarnir oftast voða misjafnlega gráleitir og ógrípandi, en hér eru skuggarnir svo þungir að allt sem er svart verður kolsvart, og allt þetta hvíta verður skjannahvítt, svona næstum því eins og þýskur expressionismi með neon-glampa. Þetta birtuföndur er ein ástæðan af hverju leikararnir falla svona vel inn í tölvuteiknaða bakgrunninn, en það gerist ekki alltaf þegar myndir eru alfarið teknar upp fyrir framan grænt tjald. Rodriguez sækir síðan miklu, miklu fleiri liti en myndasögurnar höfðu, bara til að krydda upp á skotin (eldrauðir strigaskór, kóngablá augu, gulur pedófíll o.fl. o.fl.), en litlu, dreifðu litabeitingarnar gefa römmunum mjög skemmtilegan keim og halda sér í takt við orkuflæði myndarinnar. Hún er stöðugt á hreyfingu og það er alltaf nóg að gera hjá auganu.

Sem strangtrúaður unnandi þessarar myndar finnst mér svolítið umdeilt hvort hún sé gallalaus og hversu mikið. Maður finnur að það eru nokkrir staðir sem koma ekki alveg eins vel út á skjánum og í myndasöguformi, sérstaklega þegar þeir eru túlkaðir beint. Þetta getur átt við um nokkra frasa eða hálfaulalegar senur (eins og þegar Willis sleppur úr vegahótelinu), og spyr maður sig hvort hefði ekki verið sniðugra að hrista aðeins til í efninu og gera eitthvað sem hentar bíóforminu betur. Það eru örfá tilfelli þar sem breytingar eru gerðar, en oftast af skiljanlegri ástæðu.

En eins og ég sé þetta er öll myndin hálfgerður aulaskapur og ég á bágt með að setja út á litla, ótrúverðuga punkta þegar afgangurinn á myndinni gerir allt sem hann vill án þess að skammast sín fyrir það. Og ef maður ætlar að rýna í eitt og eitt yfirdrifið atvik, þá getur maður alveg eins bara dregið upp blað, búið til lista og sett út á alla restina. Myndin ber höfuðið svo hátt og tekur á móti skrípalátunum með svo miklu stolti að þetta breytist samstundis í eitursvala geðveiki. Ég semsagt get sett út á þessa mynd á vissum stöðum, en mér finnst það gagnslaust í ljósi þess að heildin gengur öll upp með stæl. En bara ef maður lifir sig inn í kómísku grimmdina. Athugið það.

Ég hafði lesið allar bækurnar áður en myndin kom út og var satt að segja hissa hversu góður afraksturinn reyndist vera. Sameiningin hjá þessum draumaheimi Millers við ofvirku hæfileikana hjá Rodriguez gera Sin City að einni steiktustu, flottustu, fyndnustu og albestu afþreyingarþvælu sem hefur verið gerð á nýju öldinni. Stíllinn, tónninn og takturinn gerir myndina nokkuð einstaka og er með ólíkindum hversu stuði er hægt að pakka inn í tvo klukkutíma ásamt því að gefa manni þrjár heilsteyptar sögur (og eina smásögu) og dass af tilfinningum sem æðislegt meðlæti. Ég elska myndina svo mikið að ég myndi sofa með viðhafnarútgáfuna mína undir koddanum ef það myndi ekki fara illa með hulstrið.

ficht

Besta senan:
Þegar Hartigan sér Nancy fyrst aftur eftir 8 ár og mætir gula gerpinu á svipuðum tíma. Lagið hjálpar.

Sammála/ósammála?