Shutter Island

Það er rosalega erfitt að fjalla um Shutter Island án þess að minnast eitthvað á sýnishorn myndarinnar. Þau eru vægast sagt blekkjandi og gefa til kynna að hér sé á ferðinni ósköp hefðbundin spennusaga með hryllingsívafi, þegar í raun er um að ræða sálfræðidrama sem hrærir saman ráðgátu í Hitchcock-stíl og óvenjulegri karakterstúdíu. Ég veit ekki með ykkur en ég er mjög feginn að hafa fengið eitthvað allt, allt annað en auglýsingarnar voru að selja. Þetta er mynd sem hélt mér föstum við efnið frá upphafi til enda. Hún er útpæld, spennandi, drungaleg án þess að fara ódýru leiðina, ótrúlega vel unnin og frábærlega leikin.

Merkin gerast ekki skýrari; Martin Scorsese er einfaldlega stórmeistari, og ef einhver á skilið slíkan hæpaðan titil, þá er það hann. Maðurinn veldur ekki vonbrigðum hér frekar en fyrri daginn og kryddar alveg meistaralega upp á sterkt handrit sem kemur á óvart á ýmsa vegu. Stíllinn er t.a.m. ákaflega flottur. Kvikmyndatakan er glæsileg (ekki við öðru að búast, fagmaðurinn Robert Richardson stjórnar vélinni) og retró-tónlistin hjálpar til með að stilla andrúmsloftið, sem er mátulega óhuggulegt (draumasenurnar voru t.d. sjónrænt séð alveg magnaðar!). Strúktúr myndarinnar er líka voða sérstakur. Hann er e.t.v. lágstemmdari en sumir kæra sig um en ég kýs að líta á hann eins og mjög hægan bruna. Ég ætla samt ekki að neita því að í fyrstu fannst mér skrítið hvernig keyrslan hrekkur aldrei áberandi í gang, eins og fylgir oftast hefðum.

Frekar en að ræsa vélarnar, leyfa henni að hitna og síðan bruna af stað myndi ég frekar líkja flæðinu við ótrúlega svala golfkerru. Sagan tekur sinn tíma með að dæla út upplýsingum – ásamt því að spila talsvert með mann – þangað til hún kemur að frábærum endi sem bæði kemur á óvart og snertir pínulítið við manni. Það má vera að það sé auðvelt að giska á lokafléttuna og margir munu líta á sig sem algjöra snillinga fyrir að þykja hún fyrirsjáanleg. Hún er það, sannarlega, en sagan á bakvið hana er allt annar handleggur. Oftast ganga svona myndir alfarið út á „twist-ið,“ en Shutter Island hefur áhuga á miklu meiru.

Myndir af þessari tegund eru heldur ekki þekktar fyrir það að fókusa á leik, en hér er hvergi veikan hlekk að finna, hvorki í valinu á leikurum né tilþrifum þeirra. Leo DiCaprio gefur sig allan fram í hlutverki sem er mun kröfuharðara en maður heldur í fyrstu, og ég skal jafnvel ganga svo langt með að segja að þetta sé öflugasta frammistaðan hans til þessa. Það er heldur ekkert grín að þurfa að vera til staðar í hverju einasta atriði sem sagan hefur upp á að bjóða. Fyrst þegar maður sér hann lítur hann samt hálfbjánalega út. Leo verður því miður að sætta sig við það að hann er ennþá með örlítið barnafés, og það tekur smátíma að kaupa hann sem gamaldags lögguspæjóinn í síðafrakkanum með hattinn og sígarettuna í hendi. Mann langar eiginlega til þess að klappa honum á hausinn, eins og dreng sem dressar sig upp í fötum pabba síns til að fara út í byssó – ef það er enn til.

Sir Ben Kingsley (sem loksins hefur náð að jafna sig eftir niðurlæginguna sem fylgdi A Sound of Thunder, Thunderbirds, The Love Guru og eina Uwe Boll-mynd), Mark Ruffalo og Max Von Sydow ættu í rauninni að vera einungis til skrauts en þeir eru allir fáránlega góðir og eftirminnilegir. Patricia Clarkson, Emily Mortimer, Michelle Williams og Jackie Earle Haley gera svo heilmikið við alveg rosalega lítil (en gríðarlega mikilvæg) hlutverk. Þau eiga öll svo góð móment að Leo litli tapar næstum því athygli manns. En svo þegar drengurinn heldur senunum einn á lofti fær hann að njóta sín sem aldrei fyrr, og hefði átt að fá Óskarstilnefningu án spurninga einungis fyrir „pay-off“ atriðin í lokin.

Lagskiptingin er ekki bara aðdáunarverð heldur aðlaðandi. Maður græðir líka alveg slatta á því að sjá myndina a.m.k. tvisvar. Við fyrsta áhorf festist ég yfir ráðgátunni, stefnu hennar og samspilum persónanna. Þegar ég sá hana svo aftur fór ég að spá meira í nauðsynlegu „arty“ hlutunum sem eru saltaðir út hér og þar. Til dæmis draumunum og þeim földu merkjum sem eru að finna í nánast hverri einustu senu. Gefur manni nánast allt aðra upplifun. Það eru reyndar fáein skot sem ég næ ekki enn að átta mig á, þrátt fyrir að hafa séð myndina tvisvar. Líklegast eru þau sett inn sem einhver merki, en þau virka býsna handahófskennd. Myndin rétt kemst hjá því að vera of löng vegna nokkurra sena sem eru nokkrum mínútum lengri en þær ættu að vera. Minniháttar kvörtun þó.

Scorsese hefur sýnt það oftar en flestir aðrir á hans aldri að hann þyrfti virkilega að reyna á sig til að gera lélega mynd. Hvar í andskotanum væri vestræni kvikmyndaheimurinn án hans?

Besta senan:
Dolly skot. Byssur. Dauði! Magnað!

Sammála/ósammála?