Piranha 3D (2010)

Hvers konar markmið setur maður sér þegar maður býr til mynd sem nefnist PIRANHA (3D)? Það er ekki mikið í boði. Eina sem áhorfendur koma til að sjá eru dráp og ef leikstjórinn er góður við þá, þá fylgja með fullt af tilgangslausum brjóstaskotum, sem einungis eru skellt inn til að kæta gröðu unglingana og C-mynda nördana þar sem þeir eru helsti markhópurinn. En þarna erum við einmitt komin með sérgrein þessarar Piranha-myndar. Hún kastar framan í þig (reyndar bókstaflega) eins mikið af ógeði og nekt og hún getur mögulega komið fyrir á 80 mínútum án þess að breytast í snöff klám. Annars, ef þið þekkið eitthvað til hryllingsmyndaleikstjórans Alexandre Aja, þá er það sjálfsagður hlutur að hér sé eitthvað brútalt og grimmt á ferðinni. Maðurinn hefur auðvitað sinn húmor líka, en hann er déskoti svartur. Líklegast hefur maðurinn átt mjög vonda æsku.

Ég get að vísu ekki sagt að mér hafi fundist þessi mynd eitthvað svakalega skemmtileg. Það er margt skemmtilegt í henni og ég naut þess að sjá hvað henni er skítsama um allt sem tengist ekki drápsatriðum eða sílíkoni. Það er samt líka stærsti galli hennar. Allt annað í kringum safaríku atriðin er ekki upp á marga fiska (*glott*). Persónurnar eru allar grútleiðinlegar og manni finnst þær aldrei fá nógu mikið til að gera. Ég er alls ekki að búast við einhverri persónusköpun frá þessari mynd, langt frá því. Samt, ef myndin ætlar að bjóða upp á einhvern graut af einföldum karakterum, þá er eins gott að þeir séu eitthvað minnisstæðir eða í það minnsta skemmtilegir. Ég vildi persónulega sjá meira af Richard Dreyfuss, Ving Rhames og hiklaust Christopher Lloyd, en þeir eru þarna bara í gestarullum nánast. Þeir leikarar sem éta upp skjátímann eru frekar þurrir (Elizabeth Shue – því miður) eða hreint út sagt óþolandi (Jerry O’Connell hefði þarna aaaaðeins mátt tóna niður asnaskapinn. Það er munur á því að vera ýkt þreytandi og ógeðfelld hráka í mennsku formi).

Brellurnar eru stórkostlega hallærislegar, eins og þær eiga að vera, og tónn myndarinnar kemst fljótt til skila. Fínir kostir í sjálfu sér, en uppbyggingin er síðan aðeins of lengi að tefja að óþörfu. Svo þegar fjörið fer almennilega af stað þá er alveg sorglega lítið eftir af myndinni. Mér leið heldur ekki eins og myndin ætti að vera búin þegar hún var að klárast. Þetta kallast að sjálfsögðu anti-climax, og þetta vandamál er svo stórt hér að ég á erfitt með að horfa framhjá því þegar heildin er skoðuð.

En eins og ég segi þá skilar myndin því sem hún lofar. Piranha á að vera markviss og einföld poppkornsþvæla en skringilega þá fannst mér hún eiginlega of einföld fyrir jafnvel slíka mynd, eins og það hafi vantað alveg annan helminginn af myndinni. Ojæja, að minnsta kosti fengum við listræn skot af fullum stelpum að nudda sér upp við hvor aðra.

Besta senan:
Þegar loksins allt fer í gang.

Sammála/ósammála?