Superman Returns

(Ath. Það eru spoilerar í þessari grein. En annaðhvort ætti þér að vera skítsama eða þú hefur þegar séð þessa mynd)

Superman Returns er ein athyglisverðasta ofurhetjumynd sem ég hef séð og örugglega ein gallaðasta mynd sem ég hef verið hrifinn af. Af öllum krafti reynir hún að vera frábær, póetísk og öðruvísi en á móti því er hún svo skuggalega ástfangin af fyrirmynd sinni að hún leyfir sér ekki alltaf að ganga alla leið með hugrekkið. Hún er gerð af manni sem reynir að setja sinn persónulega svip á verk um sígildustu ofurhetju í heimi en neitar samt að losa sig við nostalgíutengslin. Ég skil samt þessi tengl ofsalega, ofsalega vel, vegna þess að ég – alveg eins og Bryan Singer – elska upprunalegu Superman-myndina eftir Richard Donner alveg ótrúlega mikið. Og það er í sjálfu sér mjög djarft og skemmtilegt fyrir einhvern að búa til 200 milljón dollara mynd um Ofurmennið sem auglýsir fyrst og fremst hversu mikið hann tilbiður gömlu útgáfuna.

Því meira sem risastórum ofurhetjumyndum hefur farið fjölgandi, því meiri goðsögn breytist Richard Donner í. Á ári hverju skiptir nafn hans meira máli á þessu sviði vegna þess að það var stórsmellurinn frá 1978 (ekki viðbjóðurinn Superman and the Mole Men, athugið það!) sem kom þessu öllu í gang, eins og flestir eflaust gera sér grein fyrir. Það segir sig náttúrulega sjálft að aðrir leikstjórar hafi hjálpað heilmikið til með því að breyta flóðbylgjunni í glænýjan bíógeira, þar á meðal Tim Burton, Sam Raimi, einhver Nolan gaur og að sjálfsögðu Bryan Singer, sem sparkaði alveg upp dyrnar.

Tökum örstutta sögukennslu. Á eftir fyrstu X-Men myndinni fylgdi Spider-Man, síðan Daredevil, Hulk, LXG, Hellboy, Punisher, betri Batman og allur djöfulsins fjandi. Donner, með sitt virðulega S-merki, á samt alltaf stóra gullið skilið fyrir að hafa verið fyrstur til að hitta í mark og hafa endalaus áhrif á heilu kynslóðirnar fyrir neðan sig, kvikmyndagerðarmenn og aðra. ’78 módelið af Superman er líka ein af þessum myndum sem mér finnst erfitt að halda ekki upp á. Hún eldist því miður ekkert æðislega en hún hefur verið svo áhrifamikil og skemmtileg til minningar í gegnum tíðina að mér tekst yfirleitt alltaf að horfa á hana og njóta nostalgíunnar án þess að spá í neikvæðu hliðum hennar. Þetta er án efa ein af ástæðunum af hverju ég er nokkuð hrifinn af Superman Returns.

John Williams, verð ég nú að segja, hefur verið fjandi duglegur í gegnum áratugina við það að skilja eftir spor sín í æskuminningum manns. Hans þekktasta tónlist er ódauðleg af ástæðu og fyllist hausinn á mér kátum minningum þegar ég heyri gamla góða Superman-lagið hans. Greinilega getur Singer sagt það sama, fyrst hann notar það hér alveg mátulega oft. Þetta er sennilega önnur ástæða af hverju mér líkar svona vel við Superman Returns, en að sama skapi ætti allt þetta nostalgíublæti að gefa mér fulla ástæðu til þess að gefa henni illt auga. Hún dáist einum of mikið af Donner-myndinni, á þann vegu að hún gleymir að hegða sér eins og sjálfstæð sköpun. Að vísu minnkar þetta allt saman eftir einn og hálfan klukkutímann eða svo. Þá allt í einu – þegar tæpur klukkutími er eftir – ákveður myndin að gera sína eigin hluti og þá fyrst verður hún alveg meiriháttar góð!

Fyrri helmingurinn á myndinni er töluvert slakari. Fyrir utan snilldartónlistina í textaopnunni (sem er nákvæmlega eins og í Donner-myndinni, bara styttri og skreyttari) fer myndin ekkert alltof vel af stað. Handritið reynir að vera hnyttið en verður bara stíft í samræðum, vandræðalegt í tilraunum til húmors og fáeinum uppstillingum. Myndatakan er ávallt flott og leikararnir standa sig oftast vel en rólega flæðið kemur manni ekki alveg í rétta gírinn. Þegar Superman á sína epísku endurkomu er eiginlega nauðsynlegt að maður fyllist stolti og ánægju, en eftir annars hörkugott flugvélaatriði verður myndin voða máttlaus í svolítinn tíma. Það er ekki nógu mikil áhersla lögð á Superman sem karakter til að krydda upp á hægu atriðin og í atriðunum á milli hans og Lois Lane finnst mér vanta eitthvað. Kannski meiri sjarma til að gera þau meira heillandi. Myndin verður samt aldrei leiðinleg í fyrri hlutanum. Fleiri hæðir hefðu samt alveg hjálpað.

Einnig mun ég aldrei skilja hvers vegna hetjan eyðir tímum sínum í að svífa fyrir utan húsið hjá Lois og njósna um einkalíf hennar. Það er miklu meira en rangt. Það er perralegt og ekki síst ógeðsleg vanvirðing á næði. Superman á að vera tákn vonar, sakleysis, réttlætis og sannleika. Ég vil helst ekki þurfa að hugsa til þess hvort hann myndi fara eða ekki ef hann sér Lois og nýja manninn hennar í skepnulegum stellingum.

Það tók mig líka góðan tíma að hætta að láta tilviljanirnar í sögunni fara í mig. Til dæmis finnst mér alveg stórfyndið að Lois skuli akkúrat vera í flugvél sem bilar á sama tíma og Lex Luthor er að orsaka jarðskjálfta – ómeðvitaður um hvar Lois er – og þá einmitt svona stuttu eftir að Superman er snúinn aftur heim – sem Lex veit ekki heldur af. Það tekur reyndar alveg ótrúlega langan tíma fyrir einhvern söguþráð í myndinni að drattast af stað og enn lengri tíma fyrir Superman til að vera var við einhvern söguþráð.

En…

Svo loksins eftir senuna þar sem Superman fattar að það er eitthvað gruggugt í gangi, svona klukkutíma og hálfan (!) inn í myndina, þá hundskast hún á lappir, steingleymir Donner-dýrkuninni annað slagið og fer í mjög dökkar og spennandi áttir með söguna. Seinustu 30-40 mínúturnar hafa sínar lægðir líka, en þær eru yfir heildina gríðarlega sterkar. Titilkarakterinn er laminn í klessu, stórborg byrjar að hrynja í sundur, lítil fjölskylda sekkur næstum því á hafsbotn og bendir allt til þess í smátíma að endirinn verði skelfilega niðurdrepandi. Lokakaflinn hér er í þokkabót 10 sinnum betri en í Donner-myndinni. Þar brjálaðist Ofurmennið, snéri við tímanum (?!) og bjargaði ástinni sinni. Ég elska einmitt að sjá Superman reiðan. Maður kemst í svo öflugan filing þegar ljúflingur með guðakrafta sýnir loksins tennurnar og að þessu sinni brjálast hann svakalega, lyftir upp heilli Kryptonite-eyju, þrykkir henni svo út í geiminn og deyr næstum því stuttu seinna. Brilliant endir, satt að segja. Klassíska tónlistin hjálpar mikið til.

Leikaravalið í myndinni getur verið dálítið vandamál en ekkert sem maður sættir sig ekki við. Brandon Routh er reyndar skotheldur Superman. Sá besti og indælasti síðan Reeve (hingað til allavega) og meira að segja töluvert svalari. Leikstjórinn er oft góður að smita aðdáuninni sem hann hefur gagnvart sparileikurum sínum og í þessu tilfelli sé ég ekki hvernig annað er hægt en að líka vel við Routh. Ég átta mig samt ekki alveg á því af hverju hann lúkkar svona gervilega í mörgum römmum, eins og einhver hafi sett stafræna eftirlíkingu í bjánalegar nærmyndir.

Kate Bosworth finnur sig alveg í Lois-hlutverkinu, en Singer er augljóslega alltof blindaður af kostum hennar til þess að sjá það að hún er ALLTOF ung fyrir hlutverkið. Hún var 22 ára á meðan tökum stóð en lítur út eins og hún gæti verið fimm árum yngri. Það er gert m.a.s. ráð fyrir því að við kaupum það að Lois hafi átt að vera Pulitzer-blaðamaður í byrjun sögunnar. Það er eins og leikstjórinn hafi sjálfur ekki áttað sig á því að sagan hefst á því að Superman snýr aftur eftir fimm ára fjarveru, sem þýðir að Lois í myndinni hefði verið virtur blaðamaður síðan áður en hún varð 17 ára. Ég vildi í alvörunni óska þess að ég væri að skálda þessi mistök, en Lois Lane lítur meira út eins og fjölmiðlanemi heldur en reynslurík blaðakona.

Sem betur fer er talsvert meira líf í aukaleikurunum. Frank Langella er dásamlegur sem Perry White. Sam Huntington er ekkert síðri sem Jimmy Olsen, sem þýðir að hann þarf að þykjast vera ljúfur og pirrandi án þess að vera of pirrandi sjálfur. James Marsden er ljómandi góður, fyrir utan það að leika sama þriðja hjólið og hann lék í The Notebook (alveg ótrúlegt hvað þetta eru lík hlutverk). Ég veit heldur ekki alveg hvers vegna, en eitthvað finnst mér fyndið að sjá Kal Penn birtast endalaust með sinn alvarlegasta svip, án þess að segja meira en tvö orð út alla myndina. Hvernig er það ekki fyndið að sjá Kumar Patel slá sér upp með vondu körlunum?

Sama hversu oft ég horfi á þessa mynd (og ég viðurkenni að ég er búinn að kíkja þónokkuð oft á hana), þá tekst mér aldrei að tilbiðja Lex Luthor eins og hann er túlkaður af Kevin Spacey. Mér tekst nú varla einu sinni að sætta mig við hann. Spacey er stórkostlegur leikari en Singer leikstýrir honum eins og hann vilji fá þennan Gene Hackman-keim, frekar en að leyfa Spacey að tileinka sér illmennið. Leikstíllinn hjá honum finnst mér sömuleiðis eiga heima í aðeins ýktari bíómynd, ekki svona alvarlegri. Hann gerir samt sitt besta og kemur ágætlega út, en finnst mér eins og hann hefði átt að vera magnaður. Kem ég þá loksins að Parker Posey, sem fer nánast alltaf í taugarnar á mér og í þessari mynd finnst mér hún ekki betrumbæta neitt. Persóna hennar er bein spegilmynd Miss Tessmacher úr fyrstu tveimur myndunum, sem lætur mér líða eins og hún hafi bara verið sett inn í handritið til að sagan líkist frummyndinni betur.

Myndin skilur eftir slatta af ósvöruðum spurningum, sem er nógu slæmt í sjálfu sér. Singer er líka svolítið úti að aka með því að byggja söguna í Superman Returns upp eins og hún sé rökrétta framhaldið af fyrstu tveimur myndunum. Ég styð hugmyndina aðeins út frá því sjónarhorni að hún afneitar tilvist þriðju og fjórðu myndarinnar, sem báðar eru með því hörmulegasta sem hefur sést á hvíta tjaldinu að mínu mati. Aftur á móti skapar þetta fullt af holum í frásögninni ef allar myndirnar eru settar saman. Ég gæti skrifað heila grein um slíkar holur. Singer hefði átt að slíta sig alveg frá sögulega samhenginu í gamla efninu og móta nýjan efnivið frá grunni. Myndin nær stundum ekki einu sinni að ákveða sig hvort hún vilji vera (ó)beint framhald eða algjör endurræsing.

Superman Returns er margt. Ferlega margt, en hún er alls ekki misheppnuð. Steindauð kannski í fyrri helming, fyrir utan 5-10 samanlagðar mínútur, en dimm, grípandi og kröftug í seinni hlutanum. Hún er þá ójöfn yfir heildina og nokkuð ófókuseruð almennt en metnaðarfull og áhugaverð mest allan tímann. Enginn rammi fer heldur til spillis og er mikil hugsun lögð í kvikmyndatökuna og andrúmsloftið. Fínasta ástarbréf, en meingölluð afþreyingarmynd samt sem áður, sem ber þó vott af pjúra snilld.

Eins og ég segi: Athyglisvert…

Besta senan:
Það getur verið vinsælt í Hollywood-myndum að tileinka sér ákveðið „Titanic-móment“ og hér virkar það bara þrusuvel. Það vantar allavega ekki svarta skýið, hvorki yfir persónunum né atriðinu.

PS.
Var einhver annar búinn að taka eftir þessu??

2 athugasemdir við “Superman Returns

  1. Mjög sammála. Margt frábært við þessa mynd en Singer hefði átt að sleppa þessu framhaldsmyndarugli og byrja frá grunni með nýja sögu. Djöfull þoli ég ekki Parker Posey og Kate Boswort var alrangur kostur fyrir LL.

Sammála/ósammála?