Kaþarsis í gegnum byssó

Ég er borgarbarn og hef alltaf verið. Ég var þessi krakki sem kíkti aldrei mikið út í íslensku sveitina og það segir sig nokkurn veginn sjálft að ég var þessi týpíski innipúki sem stóð og horfði á kindur og hesta með dómharðan svip og hugsaði: „Ókei, og hvað gerir þetta svo?“

Mér finnst það vera lykilatriði í uppeldi hvers og eins að leika sér úti. Að vísu tilheyri ég þeirri kynslóð drengja sem eyddi óhuggulega miklum tíma fyrir framan sjónvarp, en það þýðir samt ekki að ég hafi ekki brugðið mér stöku sinnum út fyrir dyr til að hlaupa um með vinum mínum með dótabyssur úr plasti og óstjórnlega þörf fyrir ímyndað ofbeldi. Löggu og bófaleikur – eða byssó, eins og sumir kalla það líka – var stórt útileikjauppáhald í æsku, sem liggur viss kaldhæðni í þar sem ég spilaði einnig mikið af byssuleikjum innandyra.

Sú umræða hættir aldrei að x-kynslóðin dæli fullmiklum tíma og heilasellum í tölvuleiki og alltaf verða til þeir sem halda að setja megi samasemmerki á milli þess og skemmdrar æsku, félagsfælni eða sjálfvirks þorsta fyrir meira ofbeldi í raunheiminum. Reyndar fór líka rosalega mikill tími hjá mér í svokallaða Point and click-leiki, þar sem ég eyddi skammarlega miklum tíma með vinum mínum úr Monkey Island, Full Throttle og Day of the Tentacle. Mikill tími hjá mér fór í ímyndað byssuofbeldi og þótt þetta sé skemmtileg fantasía, þá hafði þetta engin skaðleg áhrif á mína geðheilsu, eða allavega ekki svo ég viti til. Það er líka munur á ofbeldi og „aksjón-i“  eða svo segja markaðsmennirnir, og Denis Leary.

Fyrst ungar stelpur eru að þykjast vera mæður í fullu starfi (er ekki mömmó alveg enn í gangi?) þá sé ég ekkert að því að sleppa sér aðeins í smáhávaða og drepa nokkra pixla. Ég sé heldur ekkert réttlæti í því þegar það er litið hornauga að fullorðnir fari út í byssó, svona upp á nostalgíuna að gera. Það er allavega mun ódýrara en Paintball og Laser Tag. En hitt sennilega gáfulegra.

Sammála/ósammála?