Ég hata hlé

Einu sinni fór ég í bíó með amerískum frænda mínum. Mig minnir að myndin sem við sáum hafi byrjað rosalega vel, stemningin góð og svona, og svo fékk sessunautur minn vægt panikk þegar hin stórskemmtilega ræma stoppaði skyndilega. Ljósin kviknuðu og yfirgnæfandi FM-tónlist hrökk samstundis í gang til þess að sjá til þess að þú myndir alveg örugglega detta hundrað prósent út úr myndinni. „Hvað er í gangi? Ætli eitthvað sé að bila?“ sagði frændi minn hissa yfir því hversu rólegur ég sat. „Nei, nei,“ sagði ég afslappaður en samt pirraður yfir tilgangslausri töfinni, „þetta er bara hlé.“

Í beinu framhaldi þurfti ég að útskýra að öll bíóin á Íslandi hefðu hlé og í kjölfarið þurfti hann auðvitað að minna mig á að við værum í sorglegum minnihluta þegar kemur að slíku. Við Íslendingar erum samt því miður orðnir svo vanir því að horfa á heila bíómynd með (sígó)pásum, sem útskýrir kannski hvers vegna margir eru með svona mikinn athyglisbrest í bíósal (ójá, þið þekkið þetta!). Sumum finnst þetta bara ljómandi fínt og ef þetta snýst ekki um sígarettur þá segja margir alltaf (og reynið að ímynda ykkur þarna rosa lúðalega rödd): „Það er svo þægilegt að geta pissað í hléum.“

Ég féll tvisvar í líffræði en ég held að mannslíkaminn ætti alveg að þola það að halda þvagi í að minnsta kosti tvo klukkutíma ef heilinn venur sig á það. Bíó eru heldur ekki leikhús. Að minnsta kosti feilar það alltaf þegar ég dressa mig upp áður en ég fer á Richard Linklater-mynd, því ég er alltaf sá eini.

Árin 2006-2007 reykti ég mjög mikið og ég man hvernig nikotínþörfin gat læðst upp að manni á hlélausri sýningu, en hins vegar lét maður sig hafa það því legendary bíóupplifun hélt alltaf á trompspilinu. Ef við værum oftar með hlélausar sýningar og fólk nær ekki að hemla á þörfinni, þá myndi það hvort sem er bara lauma sér út í miðri mynd nema hún sé ÞAÐ spennandi að maður getur ekki horft undan, hvað þá beilað í smástund.

Annars eru kvikmyndir byggðar upp á markvissan máta (þessar sem ‘reyna’ allavega) og óþarfa pásur geta skemmt góða spennuuppbyggingu eða dáleiðandi andrúmsloft… tímabundið vissulega, en það munar alveg um það. Svo veit ég ekki hvort FM-tónlistin sé þarna til þess að fylla upp í þögnina eða til að öskra í eyrun á þér svo þú hlaupir fram og komir kannski með popp og kók í bakaleiðinni (vegna þess að það öskrar á þig líka). Eitt núll fyrir kvikmyndahúsaeigendum.

Sammála/ósammála?