Ekki-svo-dæmigert miðjubarn

Þegar menn detta í það að segja sögur af fjölskyldum sínum getur maður einstaka sinnum átt það til að dotta aðeins, enda er fátt sem maður hefur ekki heyrt af áður. Hins vegar fíla ég lúmskt að segja sögur af minni familíu, og ekki síst syskinum mínum, því það feilar aldrei að fólk fær bara sturlaðan hausverk á lýsingunni minni. Ég er nefnilega miðbarnið af sjö systkinum í heildina, en fjögur þeirra eru hálfsystkini og restin stjúpsystkini. Ég veit sem sagt hvernig það er að vera elstur, í miðjunni, og yngstur. Lof mér að útskýra …

Ég er einkabarn föður míns heitins, sem þýðir að ég hef kynnst tilfinningunni að vera einkabarn í gegnum hans hlið. Mjög spes. En svo á ég tvö eldri hálfsystkini sem ég hálfpartinn ólst upp með. Fyrst vorum við sem sagt þrjú, og þá var ég yngstur. Þessi eldri eru mjög nálægt hvort öðru í aldri, sem þýðir að ég var yngstur og fann svo sannarlega fyrir því.

Í furðulega langan tíma var röðin svona, en svo flytur sá elsti að heiman. Stuttu síðar fæðist nýtt eintak, sem er átta árum yngra en ég. Þarna er ég kominn í miðjuna, og komið er fram við mig eins og miðjubarn. Ég þurfti alltaf að gæta yngsta barnsins á meðan hið eldra lék uppreisnarleikinn. Stuttu síðar er sá aðili fluttur að heiman og enn eitt nýja systkinið bætist við. Þá er ég orðinn elstur þriggja barna á heimilinu og ég fékk svo sannarlega að kynnast því hvernig það var að vera elstur og eiga tvö yngri systkini sem voru miklu yngri en ég. Einhvern tímann á þessu tímabili græddi ég svo tvö auka, sem voru stjúp, en samt hálfsystkini yngri systkina minna.

Til að krydda þessa litríku en engu að síður tilgangslausu frásögn, vil ég bæta því við að ég hef kynnst öllum mögulegum týpum af systkinatengdum geirum. Ég á einn eldri hálfbróður, eina eldri hálfsystur, síðan lítinn hálfbróður og litla hálfsystur. Þannig er meira að segja fæðingarröðin, og svo kem ég í miðjuna eins og slaufuhnútur. Stjúpsystkinin eru einnig af sitthvoru kyninu, sem gerir það enn þá súrara hvað kynjahlutföllin eru alltaf jöfn.

Trúið mér, jólaboðin eru eins og þegar einhver reynir að halda árshátíð í kjallaraíbúð, ekki síst þegar makarnir bætast allir við, og í dag eru meira að segja þessi yngstu nógu gömul til að eiga maka.

Ég biðst afsökunar fyrir óþolandi ofnotkun mína á orðinu systkini í þessum texta.

Sammála/ósammála?