Er þetta alltaf svona?!

Af einskærri forvitni ruslaðist ég á indverska kvikmyndahátíð hjá Bíó Paradís fyrr á þessu ári og greip þar nokkrar myndir, svona til að vera meira menningarlega opinn. Ég tel mig vera prýðilega skólaðan í asískum, evrópskum og ekki síst amerískum myndum, en ég hef ekki mikla reynslu af indverskum og satt að segja er ég á báðum áttum um hvort það muni breytast í framtíðinni eða ekki.

Í hreinskilni sagt þá fatta ég ekki alveg „reglurnar“ í Bollywood-myndum og þær örfáu myndir sem ég hef séð hafa verið ofsalega abstrakt. Ég sá til dæmis eina sem er sögð vera sú dýrasta sem hefur verið gerð á Indlandi og til að gefa lesendum innsýn í upplifun mína var sú mynd blanda af fjölskylduvænni grínmynd og rómantískri vísindaskáldsögu sem sýnir blóð, skothríðir og tilraunir til nauðgana (já, í fleirtölu). Söguþráðurinn fór í mjög myrkar áttir en samt var myndin brotin upp með handahófskenndum tónlistaratriðum sem komu alltaf alveg upp úr þurru. Til að kóróna það bauð hún upp á tölvuteiknaðar pöddur sem töluðu og sjálfsmorðssenu.

Ég er sko ekki búinn! Andinn var á tíðum barnalegur og Hollywood-keimurinn mikill. Stundum töluðu leikararnir indversku og stundum ensku. Og já, hún var 175 mínútur að lengd! Eftir þessa sýningu hafði líf mitt breyst, því ég hef séð ansi margt, en aldrei hafði ég kynnst annarri eins kryddblöndu og þessari indversku þarna. Myndin heitir Endhiran (Robot). Heimsfræg mynd. Mjög virt í heimalandi sínu og stóru hasarsenurnar í henni hafa örugglega verið YouTube-aðar í drasl. Endilega látið mig vita ef þið hafið séð hana í allri sinni dýrð. Við höfum margt um að ræða.

Sammála/ósammála?