Og Óskarinn fær…

Alveg sama hversu fyrirsjáanleg niðurstaðan er í langflestum tilfellum (segjum svona níutíu prósentum að meðaltali), þá spennist maður alltaf örlítið upp eins og það gæti komið þessi örlitla, örlagaríka sekúnda þar sem innihald umslagsins sem opnað er á sviðinu gæti komið manni á óvart. Óskarinn gengur vissulega meira út á glamúrinn en sjokkgildið og þess vegna er erfitt að reikna ekki út helstu sigurvegarana fyrir fram. En þótt það gerist kannski ekki með stuttu millibili, gerist það alveg nógu oft að eitthvað komi manni á óvart til að maður haldi bjartsýninni um að það gerist von bráðar þegar herlegheitin byrja.

Það kemur svo sem ekki öllum lesendum á óvart að undirritaður er mjög hlynntur Óskarsumræðum, meira en verðlaununum sjálfum, sjáið til, og fylgist með hátíðinni á hverju ári. Síðan ég var tólf ára hef ég horft á þetta á ári hverju, með kannski einni undantekningu. Maður er auðvitað aldrei alltaf sammála því sem verður fyrir valinu, sem er ástæðan fyrir því af hverju umræðurnar á milli harðra kvikmyndaáhugamanna geta oft átt til með að hitna, á alveg þrælskemmtilegan hátt – og enn meira svo þegar diss-listinn er yfirfarinn.

En sökum áhugamálsins er næstum því bannað að taka ekki þátt í þessu og getur oft myndast lúmskur næturstemmari fyrir þessu. Og hann má helst aldrei hverfa, eins og gerðist næstum því árið 2009 þegar Stöð 2 ákvað að sýna ekki athöfnina (djös kreppa!). Íslensku bíónördarnir kepptust þá í sameiningu um að finna bestu stream-síðurnar, sem var voða sorglegt. Þeir sem voru með betri nettengingu fengu að vita það sekúndum á undan öðrum hvort Mickey Rourke eða Sean Penn hafi tekið styttuna.

En ásamt mörgum öðrum erum við Íslendingar auðvitað alltaf svo heppnir með tímamismuninn og þýðir það að Óskarinn breytist alltaf í þessa hátíð sem allir tala um en ýmsir byrja að horfa á áður en þeir gefast upp og fara að sofa. Á meðan eru það hinir hörðustu áhugamenn sem sitja út nóttina og ég get ekki annað en gefið þeim virðingarfullt klapp á bakið sem klára hátíðina og mæta síðan hressir næsta dag (eða næstu klukkutímana) í vinnuna eða skólann. Þar er komin einstök blanda af hugrekki og heimsku, en vel þess virði einu sinni á ári í réttum félagsskap.

Sammála/ósammála?