Satan í sjónvarpsformi

Munið eftir þeim frábæra Friends-þætti í seríu fjögur þar sem Chandler og Joey voru allt í einu komnir með frían aðgang að klámstöð? Engin spes ástæða. Það bara gerðist! Þeir brostu allan hringinn fyrstu klukkutímana og voru háðir þessu, eins og myndi gerast fyrir flesta karlmenn (þó kannski ekki í hópum – það er bara óhugnanlegt). Eftir nokkra daga var hárið komið út í loft, baugar undir augum og allt sem benti til þess að geðheilsan hafi bara skroppið burt til Dubai. Strákarnir höfðu fengið aðeins of mikið af því góða og voru í rusli. En samt vildu þeir ekki slökkva á stöðinni haldandi að hún myndi bara hverfa.

Svipað gerðist fyrir mig fyrir hálfu ári síðan þegar slúðurrásin E! birtist einn daginn ókeypis í tækinu mínu, stöðin sem sogar mann til sín með ógeðfelldum glamúr, flass-geðveiki og sömu auglýsingunum sem eru spilaðar þúsund sinnum yfir einn dag. Hér áður fyrr kíkti ég stundum bara á þetta í Sporthúsinu, hætti síðan eftir tíu mínútur og sagði bara: „Já, já, flott hjá þér, Kourtney. Nú ætla ég að finna mér eitthvað betra að gera.“

Fyrstu dagana hló ég að þessum tilgerðarlega glamúr sem fylgir þessari stöð (fyrir utan næturdagskrána, sem er oftast töff). Svo byrjaði ég smám saman að festast meira og meira við þessi ósköp. Og alveg eins og Chandler og Joey byrjaði klámið (sem í þessu tilfelli væri drama- og slúðurklám) að hafa skaðleg áhrif á sálina mína. Núna, mánuði seinna, er stöðin ekki enn þá horfin og nokkrar hlægilegar mínútur breytast í tvo klukkutíma þar sem ég sit faðmandi koddann spyrjandi sjálfan mig hvernig ein fjölskylda nennir alltaf að þrasa svona mikið. Það er ekkert heilbrigt við það að mér finnist ég þekkja Scott Disick betur en suma nánustu vini mína.

Núna skil ég hvernig þeim Chandler og Joey leið, nema ég fékk ekki þessar sömu gleðisprengjur og þeir, heldur í staðinn allt sem kemur á milli góðu kaflanna í klámmyndum. Og heili minn neitar að slökkva á því!

3 athugasemdir við “Satan í sjónvarpsformi

  1. Nokkuð vissum að þessi játning því hafi orðið til þess að síðuni var lokað aftur.. hún er búinn að vera opinn hjá mér í langan tíma, en um leið og ég var búinn að lesa þetta hjá þér ákvað ég að kíkja og þá er hún lokuð allt í einu. Gaman að því.

  2. Hún rúllar enn hjá mér. Skal láta vita ef eitthvað svipað gerist mín megin.
    Efa að þetta sé eitthvað tengt þó :) bara freakishly skemmtileg tilviljun.

  3. Heyrðu hún kom aftur inn hjá mér, já þetta var skemmtilega freaky

Sammála/ósammála?