Stattu upp, Denzel!

Fyrr á árinu skellti ég mér bíó á mynd sem kallast Safe House og í henni leikur hinn ávallt áreiðanlegi Denzel Washington. Þó svo að það sé í rauninni aukaatriði get ég ekki sagt að ræman hafi hitt í mark hjá mér, fyrir utan fáeinar hasarsenur. Stíllinn var kunnuglegur, söguþráðurinn kunnuglegur, handritið hlandvolgt og fyrirsjáanlegt, svo ekki sé minnst á einhliða persónusköpunina.

Hugurinn fór svolítið að reika meðan á þessari miðjumoðsveislu stóð, því augljóslega var athyglin ekki límd við atburðarásina. Skyndilega áttaði ég mig á þeirri merkilegu staðreynd að Denzel er ábyggilega besti leikarinn á markaðnum í dag sem leikur stöðugt í sömu myndinni. Allavega eru þær flestar búnar að vera ótrúlega formúlubundnar og auðgleymdar.

Þetta var aldrei svona áður, því einu sinni var hann öflugur dramaleikari (þið vitið; Malcolm X, Philadelphia, The Hurricane og fleira), og þótt það megi vera að sú hlið hafi hvergi farið, þá er með ólíkindum hvað einn leikari getur fests oft í sömu rútínunni. Síðastliðinn áratug hefur Denzel leikið allar mögulegu týpurnar af löggum og bófum án þess að sýna áhuga á einhverju sem stígur út fyrir afþreyingarmyndageirann. Denzel vill bara vera svalur og satt að segja tekst honum það oftar en ekki. Og þar sem hann er einn dýrasti leikarinn á lífi fer hann létt með að velja úr handritum sem bjóða ekki upp á annað.

Annars eru örugglega flestir búnir að lesa um hugsanlegu þátttöku Denzels í nýjustu mynd Baltasars Kormáks, 2 Guns. Það eru magnaðar fréttir í sjálfu sér að ímynda sér svona stórt Hollywood-nafn (töluvert stærra en Mark Wahlberg og restin af leikhópnum) við hliðina á okkar manni. Ég verð nú samt að játa að mér fannst það vera merkilegri fréttir áður en ég skellti mér á þessa Safe House (sem, kaldhæðnislega, er líka gerð af Skandinavíubúa sem fékk „stóra tækifærið“ sitt – alveg eins og Balti með Contraband). Metnaðarleysi leikstjórans og skortur á fjölbreytileika hefur komið honum á svolitla niðurleið. Og það væri fínt að sjá naglann rísa aftur upp. Og það væri náttúrlega ekki leiðinlegra ef það skyldi vera í mynd eftir Íslending.

Ein athugasemd við “Stattu upp, Denzel!

Sammála/ósammála?