Brave

Jæja, það hlaut nú að gerast einn daginn. Fólk má deila um það sín á milli hvort það hafi gerst eða hvenær það gerðist, en samkvæmt mínu persónulega, nördalega áliti ber Brave helstu merki um það að Pixar-stúdíóið getur ekki alltaf verið á toppnum. Það er ótvírætt að mennirnir þar eru farnir að verða latari, en vonandi tímabundið. Að sjálfsögðu hafa þeir ekki alltaf gert framúrskarandi teiknimyndaperlur, en hingað til hafa þeir alltaf bætt upp mistökin sín – ef mistök skildi kalla – með meiri dugnaði í lotunni eftirá. Þótt misjafn sé smekkur manna (pælið í því!) þá ætla ég að nefna dæmi út frá minni eigin skoðun:

Fyrst kom Toy Story, sem verður alltaf álitin klassík, sama hvernig maður reynir að brjóta hana í sundur. Þetta er ein mikilvægasta teiknimynd í heimi og var fylgt henni eftir með A Bug’s Life, sem var mjög fín (og stórt, tæknilegt stökk) en samt sem áður töluvert síðri. Mistök kalla ég hana samt aldrei, en óneitanlega jókst trú mín á Pixar eftirá, þegar Toy Story 2 kom. Snillingarnir héldu stórfínu róli þangað til kom að Cars, en Brad Bird setti kompaníið á réttu brautina með Ratatouille ári seinna.

Bílarnir hættu samt ekki að gera bíónördum lífið leitt og er Cars 2 almennt í dag talin slakasta Pixar-myndin frá upphafi. Ég veit ekki alveg hvort ég sé sammála því en hún braut blað í sögu fyrirtækisins með því að vera fyrsta myndin þeirra sem var sérstaklega gerð til að selja leikföng. Það þýddi ekkert að pæla í góðri sögu. Hún tók alveg aftursætið og steinsofnaði. Cars 2 hafði þó a.m.k. afsökun fyrir að vera „sell-out“ mynd, sem Brave hefur því miður ekki. Hún kannski selur sig ekki beint út en meiri metnaður hefði alls ekki skemmt fyrir neinu. Samanlagt þýðir þetta að tvær myndir hafi komið út í röð sem eiga varla skilið að bera vörumerkið. Á 17 árum hefur það aldrei gerst áður.

Ég neita nú samt að rakka niður þetta ágæta merki þegar mér finnst aðstandendur aldrei nokkurn tímann hafa gert lélega mynd. Oftast er sjónarspilið líka svo unaðslega æðislegt að ég hef hingað til varla haft samviskuna í það að benda á einhverja mynd frá þeim sem eitthvað miðjumoð, sem lýsir Brave bara afskaplega vel að mínu mati. Hún byrjar vel, kemst á gott skrið en svo bendir allt til þess að villtur björn hafi matað ofan í sig seinni tvo þriðjungana af handritinu og restin bara rissuð niður á fimm mínútum. En mikið djöfull er þetta samt flott teiknuð mynd!

Leitt er samt að það er mjög lítill Pixar-fílingur á Brave, sem er annað en ég get sagt um Cars 2, sem var hlaðin ferskum, yfirdrifnum hugmyndum sem svínvirka á kornunga markhópinn. Að horfa á þessa mynd er annars eins og að horfa á týpíska, bragðlausa Disney-prinsessumynd sem sýnir einungis örfá merki um eitthvað miklu sniðugra, frumlegra og skemmtilegra. Það liggur kannski í augum uppi en tilurð Brave virðist lýsa sér þannig að aðstandendur tóku How to Train Your Dragon, Tangled (sem er MIKIÐ betri prinsessumynd en þessi) og… (*andvarp*) Brother Bear, skelltu þeim í hrærivél, bakað þær allar saman og tekið nokkra fína bita áður en kakan var borin fram. Myndin kemur þess vegna út eins og hálfkláruð samsuða sem vill vel en skilur mann eftir viljandi eitthvað töluvert betra.

Þessi mynd verður varla betri en ágæt ef þú ert kvikmyndaáhugamaður en satt að segja er þetta frábær fjölskyldumynd ef þú kannt ekki að gera kröfur til bíómynda. Sagan er einföld, (ensku) raddirnar góðar, útlitið meiriháttar, skilaboðin hlý og húmorinn virkur. Mér finnst gaman að sjá gallaða aðalpersónu (semsagt þrjóska litla frekjudós) frontaða í fjölskyldumynd og eru margir fínir kaflar sem fylgja sambandi hennar við móður sína. Gegn því tekur sagan ofsalega fyrirsjáanlegar og þreyttar stefnur. Síðan er ég enn í afneitun yfir því hversu margar aukapersónur eru hér á skjánum en langflestar þeirra eru skelfilega vannýttar, alveg eins og megnið af fantasíuhugmyndunum. Lokasprettur sögunnar virðist heldur ekkert laga neitt og gerir ójafna flæðið að ennþá stærra vandamáli. Þetta er bara flausturslegur og asnalega skrifaður anti-climax endir. Gengið er frá öllu á stuttum tíma eins og sýningartíminn sé einfaldlega bara að renna út, hvort sem sagan nái að klárast eðlilega eða ekki. Þessi partur sýndi best einbeitingarleysið í framleiðslunni.

Sem betur fer voru ýmsir karakterar sem héldu mér hlæjandi (litlu þríburarnir gjörsamlega EIGA þessa mynd). Fyrsti hálftíminn er sömuleiðis býsna frábær. Þetta lofar allt svo góðu og líður manni eins og sagan hefði getað farið í alls konar áttir en ákvað síðan að velja mest óspennandi stefnuna. Samt sem áður er alltaf ánægjulegt að sjá svona gullfallega myndaramma. Það reddar öllu að myndin skuli vera svona dýr og sjást peningarnir tvímælalaust á þessum geðsjúku pixlum. Rauða hárið hjá aðalpersónunni er eitt og sér eitthvað sem maður tekur varla augun af. Ég játa að áður en þessar 90 mínútur voru búnar var mér virkilega farið að langa til að snerta það. Ég vil samt skýrt taka það fram að ég kýs yfirleitt ekki að renna fingrum mínum í gegnum hárin á 16 ára stúlkum. Ég fæ bara þessa sömu tilfinningu hér og þegar mig langaði að koma við loðfeldinn á Sully í Monsters, Inc.

fin

Besta senan:
Þegar synirnir eru kynntir. Gerist mjög snemma :(

Ein athugasemd við “Brave

  1. Hmmm. marktæk rök og ég er farinn að halda að hún muni ekki standast væntingar mínar. En sell-out myndi ég ekki kalla hana. Prinsessupunkturinn fyrir HTTYD var einnig fjári góður.

    Hvernig fannst þér annars lagið ‘Learn Me Right’ úr myndinni?

Sammála/ósammála?