Total Recall (2012)

Total Recall frá 1990 er ekki beinlínis framúrskarandi sci-fi mynd sem er útkrotuð í gáfum en hún er heldur ekki þessi týpíska Ahnuld Schwarzenegger aulasteypa. Í staðinn kemur hún sér fyrir einhvers staðar þarna mitt á milli og þykir mér hún persónulega vera ein af hans skemmtilegri hasarmyndum. Hrukkurnar á henni eru farnar að sýna sig og það er margt, margt (hallærislegt) við hana sem hefði mátt betrumbæta eða breyta. En kostir hennar eru langtum fleiri heldur en gallar, augljóslega, en það segir manni samt það að í réttum höndum hefði Total Recall-endurgerð ekki verið endilega versta hugmynd í heimi. En ef maður tekur hins vegar burt öll bestu einkennin, sem komu til dæmis frá aðalleikaranum, leikstjóra með brenglaðan húmor og sjálfum Philip K. Dick, þá er lítið eftir nema leiðinlega þurr og dæmigerð hasarmynd. Svona álíka fullnægjandi og autt blað eða goslaust kók.

Það er ansi magnað að Len Wiseman – í samvinnu við tvo glataða handritshöfunda – hafi tekist að endurgera Total Recall án þess að hafa nokkurn skilning á því hvað það var sem gerði upprunalegu myndina góða. Ég er alls ekki að biðja um sömu myndina aftur. Ég skal tvímælalaust réttlæta tilvist endurgerða þegar þær taka gamlar hugmyndir og uppfæra þær eða lagfæra gamla galla. En mikið þvílíkt fer maður fer að sakna Paul Verhoeven-myndarinnar og ferskleika hennar þegar nýja eintakið er svona sterilt, óspennandi og almennt skítlélegt. Ég hefði naumlega kallað mig sáttan ef ég hefði fengið „shot-by-shot“ endurgerð með nútímalegri brellum og dúkkulegri leikurum, en svo heppinn var ég ekki. Ég fékk einfaldlega bara vont handrit með ömurlegum (og 10x klisjukenndari) breytingum. Bókstaflega engar eru til hins betra þegar heildarsagan er skoðuð.

Þegar ég hugsa til þessarar endurgerðar fæ ég þá ímyndun að Sony hafi fengið tólf ára dreng til þess að koma með hugmynd að sinni eigin útgáfu af Total Recall, en þá bara ef við gerum ráð fyrir því að sá krakki þoli ekki Ahnuld, finnist hasarinn virka úreltur, þótti Mars vera asnalegt sögusvið og fattaði hvorki húmorinn né ádeiluna. Bíómyndin sem eftir stendur kallar sig Total Recall og líkist klassíkinni ansi oft í frásögn og hugmyndum, en Verhoeven (og allir þeir sem bera virðingu fyrir Philip K. Dick heitnum) hefði aldrei sætt sig við svona gelda afþreyingarmynd. Hún leikur sér örstutt við sniðugar pælingar en neitar síðan að vera neitt annað en Hollywood uppskriftarmynd sem leggur einungis metnað í það sem augað sér.

Wiseman leyfir hæfileikum sínum sem hasarleikstjóri að njóta sín í botn. Hann er flinkur og áhugasamur í akkúrat því fagi en honum virðist vera annaðhvort sama um hversu gott innihaldið er svo lengi sem það gefur honum tækifæri til að leika sér með sjónarspilið, eða hann einfaldlega þekkir ekki muninn á góðu og vondu handriti. Það besta sem ég get sagt um myndina er að hún er alveg dúndurflott æfing í líflegum og „intense“ hasaratriðum. Wiseman hreyfir samt vélina oft af óþarfri ofvirkni (væntanlega til að skapa meira adrenalín?) og reynir endalaust að blinda mann með skærum, blikkandi ljósum af engri sérstakri ástæðu nema bara til að líkjast Star Trek-myndinni hans JJ Abrams. Hasarinn er samt það besta sem er í boði hérna og með sterkara handriti og klárlega betri nýtingu á skörpu hugmyndunum hefði þetta getað orðið heimskulega gaman allt saman. Heimurinn sem Wiseman hefur skapað er sömuleiðis ótrúlega flottur. Svona hæper blanda af tandurhreina borgarlúkkinu sem Minority Report hafði og sveittu hverfunum úr Blade Runner. Semsagt pínu stolið, en stolið þarf ekki alltaf að vera alslæmt.

Það skiptir mig engu máli hversu mikið er búið að flikka upp á útlitið, sama hversu fullkomið það er, þegar skipt er út ágætum hugmyndum fyrir gott sjónarspil. Það eina sem hefði getað bjargað þessari mynd rétt fyrir horn er öflugt afþreyingargildi, en það virðist ekki einu sinni vera hægt að veita manni heilalausa skemmtun vegna þess að myndin er tekur sig alltof alvarlega og þreytist eltingarleikurinn hratt. Báðar útgáfurnar eiga það sameiginlegt að vera skemmtilega yfirdrifnar (á ólíkan máta) en sú gamla hafði þó allavega púls í þeim senum sem tengdust ekki byssuhríðum og fótatökum. Annars þarf maður ekki einu sinni að hafa séð hana til að geta tímastillt klisjurnar í þessari. Það er það versta við hana.

Það er heldur enginn leikari sem skarar fram úr öðrum í þessari mynd. Hver og einn einasti reynir að gera sitt besta án þess að reyna of mikið. Ég held líka að flestum leikurunum hafi staðið fullkomlega á sama um sjálfa myndina, meðvituð um það að hún ætti a.m.k. eftir að líta vel út og myndi einnig sjá til þess að leikararnir litu vel út. Wiseman svíkur þau loforð aldrei og gengur að mínu mati fulllangt með það að gera myndina eins sexí og hann getur, án þess að vera eins augljós með það og m.a. Michael Bay. Leikararnir líta út eins og módel, ekki karakterar, og keppast allir um það að vera eins persónuleikasnauðir og þeir geta. Meira að segja Bryan Cranston er kominn á sjálfsstýringu, sem er mjög slæmt merki. Colin Farrell sem burðarmaður á góðum degi hefur eitt langt fram yfir Ahnuld; hann er alvöru leikari, en að minnsta kosti einkenndist vöðvafjallið af gríðarlegum persónuleika í hinni myndinni. Farrell þvingar sig í gegnum slöku línurnar í handritinu og virðist halda sama svipnum út alla myndina.


(„ég-er-hissa“ svipurinn)

Ef við ætlum að ræða slaka frasa þá kemur enginn verr út úr myndinni heldur en Jessica Biel, sem opnar aldrei kjaftinn án þess að hljóma eins og klisja. Breytingarnar sem voru gerðar á hennar hlutverki eru næstum því móðgandi og það sama á við um upprunalegu rulluna sem Sharon Stone átti. Kate Beckinsale leikur ábyggilega eina af mest sannfærandi tussum ársins, fyrir utan það að hún – rétt eins og Biel – er alveg jafn gervileg og mörg blue-screen umhverfin. Wiseman skýtur sig í fótinn til að gefa eiginkonu sinni stærra hlutverk heldur en gamla handritið bauð upp á, sem bitnar á öllum trúverðugleika og tekur hvað mest á taugarnar. Reynt er svo fast að láta Beckinsale líta út fyrir að vera svöl að maður ranghvolfir augunum í flestum atriðum hennar. Ef leikstjóranum langaði til þess að gefa henni stærra hlutverk, gat hún þá ekki bara fengið Jessicu Biel-hlutverkið í staðinn? Aðdáendum gömlu myndarinnar hlýtur að blöskra vitandi það að persónurnar sem Sharon Stone og Michael Ironside léku hafa verið sameinaðar í eina.

Lagskiptingin er alveg farin og aldrei verða hlutirnir svo steiktir og undarlegir að maður fer að velta fyrir sér hvort atburðarásin gæti verið minning/ímyndun/draumur eða ekki. Tilgangur sögunnar er að fá áhorfandann til að efast um raunveruleikann en það gerist sjaldan hér. Endurgerðin slátrar einnig þeim fullkomna tvísýna endi sem frummyndin hafði, sem betrumbætti lítið 100 mínútna pirringinn sem fylgdi á undan. Ég er ekki einu sinni að átta mig alveg á því handa hverjum myndin er. Blóðið í tölvuleikjaóðum unglingum mun hugsanlega dælast stanslaust útaf hraðskreiða hasarnum og línunum á leikkonunum en annars dettur mér engan í hug sem myndina hentar. Ef þú ert aðdáandi gömlu útgáfunnar er ekki séns að þú sýnir þessari sambærilega virðingu. Og ef þú hefur aldrei séð hana er voða lítið hér í boði sem hefur ekki sést áður á betri stöðum.

Þessi fer beint í „af-hverju-létu-þeir-þetta-bara-ekki-í-friði??“ körfuna, ásamt Conan the Barbarian frá 2011 og Schwarzenegger-lausa Terminator framhaldinu.

Besta senan:
Bílaeltingarleikurinn á hraðbrautinni og anti-gravity stuðið. Gott action. Gefið bara Wiseman gott hasardrifið handrit næst og hann mun örugglega kokka upp eitthvað dúndrandi fjör. Nema hann hafni því.

Sammála/ósammála?